Eldri borgarar ánægðir í leikfimi hjá ÍR

Guðrún Alda Kristinsdóttir og Ingi Garðar Magnússon stunda leikfimi og hreyfinu hjá ÍR reglulega. 

Leikfimi fyrir eldri borgara er komin af stað á vegum ÍR á þessu hausti. Fleiri og fleiri kjósa að notfæra sér þessa aðstöðu til að efla færni sína. Jón Sævar Þórðarson þjálfari segir engu að síður pláss fyrir fleiri að koma í hópinn. „Ég er núna með um 20 manns úr Breiðholtinu á aldrinum 68 til 86 ára. Eftir því sem ég nálgast efri aldurinn finn ég meira hvað hentar og tel mig betur í stakk búinn til þess að vinna með þessu fólki.“

“Það væri gott fyrir okkur að fá svona 15 til 20 manns í viðbót í hópinn. Hreyfingin hefur jákvæð áhrif á allt eldra fólk sem er við þokkalega heilsu. Fólk lifir lengur í dag. Fjölmennari árgangar eru að koma fram. Fólk sem hefur möguleika til þess að láta sér líða vel. Hreyfingin er liður í að auka vellíðan þess. Fólk er að byggja sig upp fram eftir öllum aldri. Auka úthald sitt og þrek.” Jón Sævar segir bylgju vera upp á við í að hreyfa sig. Fleira og fleira eldra fólk hafi áttað sig á ágæti hreyfingarinnar en ef til vill sé vandi sumra að koma sér af stað. Fólk átti sig ekki alltaf á hvað hentar því og þjálfarinn  verði að vera opinn fyrir hvað hverjum hentar. “Æfingarnar hjá okkur eru fjölbreyttar og innihalda á einn eða annan hátt þrjá þætti sem skipta máli fyrir fullorðna. Það eru úthald, styrkur og liðleiki. Mitt verkefni er síðan að sjá til þess að að allir fái verkefni við hæfi því við erum öll misjöfn.”

Byrjaði ungur að þjálfa

Jón Sævar hefur tengst íþróttaþjálfun alla æfi. Hann er Reykvíkingur. Fæddur í Þingholtsstræti 1 þar sem Caruso var lengi til húsa. Þar ólst hann upp til 10 ára aldurs. Afi hans og nafni var Jón Þórðarson verslunarmaður sem verslaði í Þingholtsstrætinu en flutti verslun sína síðar á Laugaveg 81. Jón segist aldrei hafa komið nálægt verslun. Langafi sinn og afi hafi verið sendir til náms í Danmörku til þess að læra kjötiðn og verslun. “Nei – ég fór aldrei í þetta en hef haldið mig við íþróttirnar. “Ég byrjaði að fást við þjálfun um tvítugt og hef starfað við það síðan. Ég starfaði um tíma á Akureyri. Fyrir KA og einnig fyrir Ungmennasamband Eyjafjarðar og UFA.” Jón Sævar er hugmyndasmiðurinn að unglingalandsmóti ungmennafélagshreyfingarinnar. Unglingalandsmótin eru fyrir löngu orðin fastur liður í starfi Ungmennafélags Íslands og eru haldin um verslunarmannahelgina. Jón Sævar hefur því komið að þjálfun flestra aldurshópa í gegnum tíðina og nú er hann á fullu við að þjálfa eldri borgara á vegum ÍR og gera þeim lífið auðveldara með að framlengja góða hreyfigetu. “Eldra fólkið getur svo margt. Það er nauðsynlegt að auka færni og nýta þann kraft sem í því býr.”

Góð leið til að viðhalda betri líðan og heilsu

Guðrún Alda Kristinsdóttir og Ingi Garðar Magnússon stunda leikfimi og hreyfinu hjá ÍR reglulega. Guðrún Alda segist vera búin að stunda þetta í um áratug. Hafi byrjað rétt komin yfir sjötugt. “Ég hef haft ákaflega gott af þessu. Bæði hreyfingunni og líka að vera í félagsskapnum sem myndast í kringum þetta. Það er teygjanlegt hugtak hvað er að vera eldri borgari þótt oft sé miðað við hefðbundinn eftirlaunaaldur. En þetta fer líka eftir hugarfari fólks og á hvern hátt það lifir lífinu. Þar skiptir hreyfingin miklu máli. Ég bý líka hér beint á móti ÍR þannig að þetta getur ekki verið þægilegra.” Guðrún Alda er líka í gönguhóp sem hittist í hverri viku að sumrinu og fer í gönguferðir. “Mér finnst það sama gilda um hann og leikfimina. Hreyfingin og félagsskapurinn skiptir miklu og í gönguferðunum bætist útiveran við.” Ingi Garðar býr aðeins lengra frá eða í Asparfellinu í Efra Breiðholti. Hann kveðst mjög ánægður með leikfimina og þá hreyfingu sem hann fær. “Þetta er löngu orðinn fastur punktur í tilverunni. Ég er mikið í sumarbústað að sumrin en fæst meðal annars við þetta að vetrinum. Leikfimin í ÍR heimilinu er efst á blaði á stundatöflunni. Jón Sævar er þriðji þjálfarinn sem ég hef verið með. Allt ágætis menn.” Ingi Garðar stundar einnig félagsstarfið í Gerðubergi. Syngur meðal annars í Gerðubergskórnum. Þau Guðrún Alda og Ingi Garðar vilja skora á fleira fólk sem komið er á hefðbundinn eftirlaunaaldur að koma í leikfimihópinn. “Hér er fín aðstaða til þess að liðka sig og viðhalda hreyfigetunni. Þetta er líka svolítið sérsniðið vegna þess að það sama hentar ekki öllum. Einn er betri í einu tilteknu en annar í öðru. Þannig verður að alltaf. Fólk verður líka að gæta sín. Einkum í byrjun. Fólk getur temprað sig sjálft. Finna út hvað það getur. Það er engum til góðs að ofreyna sig. Ef fólk fer of geyst er meiri hætta á að fólk gefist upp og hætti.” En nú er tími Guðrúnar Öldu og Inga Garðars á þrotum. Þau eru að fara í Boccia. Hluti hópsins fer í Boccia eftir leikfimina. Ingi Garðar segir Boccia viðhalda bæði hugsun og keppnisanda. Guðrún Alda bætir við að það sé góð leið til þess að skerpa hugsunina. “Þetta er góð leið til að viðhalda betri líðan og heilsu,” segja þau bæði.

You may also like...