Húsfyllir á afmælistónleikum hjá Eddu Borg

Nemendur sungu nýjan afmælissöng við lok afmælistónleikanna. Hér er hluti þeirra að búa sig undir að taka lagið.

Húsfyllir var í Seljakirkju síðast liðinn laugardag þegar haldið var upp á 30 ára afmæli Tónskóla Eddu Borg. Nemendur skólans á öllum stigum önnuðust tónleikana og leikin var tónlist af ýmsum gerðum og mörg hljóðfæri komu við sögu. Í lok tónleikana fluttu nemendur skólans saman nýjan skólasöng eftir Eddu borg við texta Bjarna Sveinbjörnssonar eiginmanns hennar. 

Hinn nýi söngur hafði ekki hlotið nafn þegar afmælistónleikarnir fóru fram og er nemendum skólans ætlað að koma með hugmyndir um hvað hann geti heitið. Megin stef í söngnum er að sjást aftur að ári sem lýsir skólastarfi þeirra hjóna Eddu og Bjarna vel. Margir nemend-ur hafa hafið nam í forskólanum og haldið áfram og útskrifast á ýmsum sviðum. Þá eru ótaldir þeir nemendur sem farið hafa erlendis til framhaldsnáms. Fyrir fimm árum urðu tímamót í starfi skólans þegar hann útskrifaði nemendur á framhaldsskólastigi. Fram að þeim tíma þurfti skólinn að senda nemendur frá sér þegar komið var áleiðis í náminu en hóf einnig samstarf við aðra tónlistarskóla til að bjóða nemendum upp á allar þær aukagreinar og samspil sem þarf til að ljúka tónlistarnámið við skólann. Í dag er skólinn alhliða tónlistarskóli með fjölbreytt úrval námsgreina.

Hófst sem hugsjónastarf

Tónskóli Eddu Borg hófst sem algert hugsjónastarf þeirra hjóna. Á tónleikunum á laugardaginn rifjaði Edda fyrstu starfsárin upp þegar þau unnu nánast öll verk sjálf. “Ég skúraði og saumaði gardínur með aðstoð mömmu og tengdamömmu og flest annað féll okkur til. Þegar píanókennsla hófs voru fyrstu hljóðfærin flutt að heiman. Píanóið mitt sem pabbi hafði gefið mér var sótt heim í stofu og bróðir minn var með flygil í viðgerð sem við fengum svo afnot af.” Skólinn hóf starfsemi í Seljakirkju. Fyrsta starfsárið var kennt í safnaðarsalnum og einnig í sjálfri kirkjunni og hefur starfsemi hans ætið tengst kirkjunni sterkum böndum. Fyrir tíu árum urðu mikil tímamót í sögu skólans því þá fluttist starfsemi hans á einn stað við Kleifarsel. Í viðtali við Breiðholtsblaðið af því tilefni sagðist Edda fljótt hafa fundið þörf fyrir tónlistarkennslu í Seljahverfinu og í Breiðholtinu og fengið hugmyndina 21 árs gömul. “Ég var nánast alin upp í tónlistarskóla fyrir vestan þar sem faðir minn stýrði tónlistarskólanum þar. Það var því auðvelt fyrir mig að hafa samband við hann og fá leiðbeiningar og aðstoð við hvernig ég ætti að gera þetta. Hann var líka kunnugur stjórnsýslunni sem bæjarstjóri og gaf mér mörg góð ráð þegar ég var að fara af stað með þessa hugmynd. Hann leiðbeindi mér um hvernig ég þyrfti að fá leyfi og hvað þyrfti að sækja til ríkis og borgar.” Edda fékk fljótt leyfi til þess að koma þessum skóla á fót og reka hann og fór fljótlega á styrk frá Reykjavíkurborg á annarri starfsönn skólans. Þetta var á þeim tíma þegar tónlistarskólarnir voru að fara yfir til sveitarfélaganna. Á þeim tíma sem Tónskóli Eddu Borg hefur starfað hefur hann unnið sér fastann sess í Seljahverfinu og raunar langt út fyrir það.

You may also like...