Hátíðlegur öskudagur á frístundaheimilum Miðbergs

Þær Dagbjört Ýr og Sóldís Rós hlutu verðlaun fyrir öskudagsbúninga. Dagbjört Ýr til vinstri fyrir fyndnasta búninginn og Sóldís Rós til hægri fyrir þann besta.

Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur á frístundaheimilum Miðbergs, líkt og annars staðar. Börn af frístundaheimilunum Álfheimum, Bakkaseli og Hraunheimum komu saman á öskudagsballi í sal Hólabrekkuskóla og dönsuðu af miklum móð. Einnig voru veitt verðlaun fyrir bestu búningana. 

Öskudagur á sér langa sögu. Í vestrænni kristni er hann við upphaf lönguföstu sem var tími takmarkaðrar neyslu, íhugunar og góðrar breytni. Aska táknar í biblíunni hið forgengilega og dreifðu prestar ösku á höfuð fólks fyrr á öldum. Öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld. Fyrri siðir öskudagsins hafa löngu horfið og er hann nú einkum til skemmtunar á meðal æsku landsins. Öskudagur eins og við þekkjum hann í dag á einkum upptök sín á Akureyri, en þar voru dönsk áhrif lengi áberandi. Þess má geta að heitin bolludagur og sprengidagur auk öskudags tengjast því að fólk gerði sér dagamun fyrir upphaf lönguföstu. 

You may also like...