Myndasmiður í íslenskri byggingarlist

– Björn G. Björnsson leikmyndahönnuður hefur sent frá sér bók um verk Einars Erlendssonar fyrrum húsameistari ríkisins. Verk Einars setja víða mikinn svip á Miðborgina og Vesturbæinn. Björn spjallar við Vesturbæjarblaðið –

Björn G. Björnsson með bókina Húsameistari í hálfa öld. Í baksýn er horn Ingólfsstrætis og Bankastrætis. Einar Erlendsson teiknaði byggingarnar beggja vegna hornsins sem lengi var kennt við verslunina Málarann.
Mynd Sigurður Bogi. Aðrar myndir eru teknar af Birni sjálfum.

„Fáir íslenskir arkitektar hafa átt lengri og viðburðaríkari ævi en Einar Erlendsson. Enginn var til að skrá þá merku sögu á meðan Einars naut við en sjálfur gaf hann sig lítt að því að ræða eða skrifa um eigin störf. Nú hefur loks verið ráðin nokkur bót á með því yfirliti sem nú lítur dagsins ljós. Björn G. Björnsson á þakkir skyldar fyrir að heiðra minningu hins merka húsagerðarmeistara með glæsilegri samantekt um ævi hans og verk.“ Þannig kemst Pétur H. Ármannsson arkitekt að orði á kápu nýútkominnar bókar Björns sem nefnist Húsameistari í hálfa öld. Einar átti farsæla starfsævi. Hann var aðstoðarmaður bæði Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar og tók við embættum beggja við fráfall þeirra. Fyrst Rögnvaldar og síðar Guðjóns. Vesturbæjarblaðið settist niður með Birni á Kaffi Vest á dögunum og forvitnaðist um tilurð og innihald hinnar nýútkomnu bókar.

Einar var fæddur árið 1883 og var að störfum frá 1905 til 1955 eða í hálfa öld. Björn segir feril hans einstakan þegar litið er til hverju hann hafi afkastað. Mætti halda að hann hafi aldrei lagt blýantinn frá sér. En hver var Einar? „Einar var upphafaflega trésmiður líkt og faðir hans og lærði smíði hjá honum í Skólastræti 5. Smíðaverkstæðið var í bakhúsi við heimili fjölskyldunnar í Skólastrætinu. Smíðaverkstæðinu var síðar breytt í búðarhús og þar bjó Einar eftir að hann kom heim frá námi. Hann hélt til Kaupmannahafnar 1903 þar sem hann stundaði nám í húsateikningu við Det Tekniske Selskabs Skole til ársins 1905. Þótt hann væri ekki með háskólagráðu í arkitektúr varð hlutskipti hans að verða aðstoðarmaður tveggja fyrstu arkitektanna sem hér störfuðu, þeirra Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar. Rögnvaldur Ólafsson var fyrsti arkitektinn fæddur 1874. Hann hóf störf sem ráðunautur landstjórnarinnar um opinberar byggingar eins og það hét þá árið 1905 og lagði þar með grunninn að embætti húsameistara ríkisins. Rögnvaldur gegndi starfinu til dauðadags en hann lést um aldur fram úr berklum árið 1917. Guðjón Samúelsson var fæddur 1887. Hann kom heim frá námi í arkitektúr 1919. Hann tók þá við nýju embætti húsameistara ríkisins og gegndi því til dauðadags árið 1950. Báðir unnu þessir tveir arkitektar mikil afrek við að móta nýja íslenska húsagerð með byggingum sínum hvor á sinn hátt. Bæði Rögnvaldur og Guðjón unnu baki brotnu á meðan þeim entist tími til. Þeir unnu undir gríðarlegu álagi og við bilandi heilsu. En þeir stóðu ekki einir á vellinum. Þar kemur Einar Erlendsson til sögunnar. Hann stóð við hlið Guðjóns í þrjá áratugi og tók við af honum sem húsameistari ríkisins. Einar átti einstakan feril þótt hann hafi fallið nokkuð í skugga hinna. En verkin hans tala,” segir Björn.

Náði öldinni 

Björn segir að eftir að skjöl um byggingar­list, teikningar og annað voru gerð aðgengileg í Þjóðskjalasafninu hafi margt komið ljós um þessa þróun. Um ævi og störf þessara forgöngumanna í sögu húsbygginga. „Einar átti óvenjulanga starfsævi. Hann náði öldinni ef svo má segja. Honum er lýst sem rólegum og prúðum manni sem vildi aldrei ræða um verk sín. Barnabörn hans sem ég hef rætt við segja að hann hafi aldrei viljað tala um sjálfan sig. Og ekki tekið í mál að skrifaðar yrðu um hann bækur. Ef til vill hefur af þessum ástæðum lítið verið skrifað um byggingalist hans. Nýir tímar kölluðu á gerbreytt húsnæði og sumir voru stórir í sniðum eins og mörg af glæsilegum húsum þessa tíma bera með sér. Þessi nýja byggingalist náði þó ekki til allra og víða voru hreysi í Reykjavík allt fram um 1960. Einkum eftir hernámsárin eftir mikla fólksflutninga af landsbyggðinni og ekki hafðist undan að byggja yfir allt fólkið.“

Tvískiptur starfsferill 

Björn segir að starfsferil Einars hafa skipst í tvennt. Annars vegar hinn opinberi ferill sem aðstoðarmaður Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar og síðar sem húsameistari ríkisins. Hins vegar hafi svo verið hálfrar aldar ferill hans sem húsahönnuðar og arkitekts með eigin teiknistofu heima í Skólastræti 5. Björn segir að Einar hafi teiknað um 300 hús af öllum stærðum og gerðum. Bæði fyrir stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga. Þar megi nefna um tvo tugi glæsilegra einbýlishúsa í klassískum stíl í Mið- og Vesturbæ Reykjavíkur.  

Ekkja með þrjú börn 

Björn fletti bókinni í spjalli yfir kaffibolla á Kaffi Vest. Hann staðnæmist við Skólastræti 5, heimili Einars. „Foreldrar hans voru Erlendur Árnason og Ágústa H.J. Ahrens. Þau bjuggu þar og í þessu húsi ólst Einar upp. Erlendur byggði bakhús á lóðinni sem fyrst var smíðaverkstæði en síðar íbúð. Einar var Reykvíkingur í báðar ættir. Eiginkona hans var Sigríður Lýdía Thjell kaupmannsdóttir frá Stykkishólmi. Hún var 31 árs gömul ekkja eftir Tómas Helgason lækni frá Görðum á Álftanesi þegar þau kynntust. Hún átti þrjú börn með Tómasi áður en að hann lést eftir svaðilför í læknavitjun. Hún þótti hörkutól og stundaði ráðskonustörf þar sem hún var með börnin með sér þar til hún kynntist Einari. Sigríður Lýdía og Einar eignuðust síðan tvö börn og Einar gekk börnum hennar í föðurstað. Frúin sá um að aka fjölskyldubílnum og hún hafði hesta um tíma í Skólastræti.

Hnitbjörg í samstarfi við Einar Jónsson 

Ógerningur er að telja öll þau hús sem Einar teiknaði í stuttu kaffispjalli. Björn segir að í raun megi rekja margt í byggingarsögu Miðborgarinnar og gamla Vesturbæjarins til þess tíma er hann var að störfum. Bæði íbúðarhús og einnig opinberar byggingar. „Eitt frægasta hús sem Einar teiknaði eru Hnitbjörg á Skólavörðuholti sem hann vann í samstarfi við Einar Jónsson myndhöggvara 1916. Sameiginlega lögðu þeir nafnar í eitt og merkilegasta byggingarlistaverk frá öndverðri steinsteypuöld hér á landi. Húsið sem hýsir Listasafn Einars Jónssonar er í senn einfalt að formi til en kraftmikið ásýndum. Annað kröftugt hús og eitt það fallegasta í borginni er við Þingholtsstræti 29a. Einar teiknaði það fyrir dansk-rússneskan kaupmann A. Openhaupt að nafni er dvaldi hér um skeið og hét húsið þá Villa Frida. Hann seldi húsið síðan Ólafi Þ. Johnen stofnanda Ó. Johnson og Kaaber sem nefndi það Esjuberg. Síðar komst þetta hús í eigu Reykjavíkurborgar sem notaði það fyrir Borgarbókasafnið þótt það hentaði aldrei því hlutverki. Eftir að Borgarbókasafnið flutti úr húsinu gegndi það ýmsum hlutverkum og þar bjó norski myndlistarmaðurinn Odd Nedrum um tíma og var þar með vinnustofu.“  

Laufásvegur 49 til 51 og 53 til 55. Oft nefndar Sturluhallir. Byggðar á fjórða áratug liðinnar aldar af bræðrunum Friðrik og Sturlu Jónssonum.

Sturluhallir við Laufásveg

Í bók Björns er bent á margvíslega staði í Reykjavík sem bera hugmyndir og handbragð Einars. Eitt þeirra er Hafnarstræti 10 til 12. Stórhýsi Ásgeirs Sigurðssonar sem síðar komst í eigu Landsbankans og var eftir það rúið öllum sérkennum sínum. Einnig Lækjartorg 1 fyrir Pál Stefánsson sem rak bílaumboðið. „Annað stórvirki Einars er Gamla bíó við Ingólfsstræti. Ofar við Ingólfsstræti, á horninu við Bankastræti eru hús sem Einar teiknaði og hefur allt frá 1926 sett sterkan svip á miðbærinn. Húsið á horninu var oftast kennt við Málarann, samnefnda verslun sem lengi var þar til húsa og nú er Sólon þar sem er einn þekktasti skemmtistaðurinn í miðborgarflórunni. Þá má nefna „Sturluhallirnar“ sem svo voru nefndar við Laufásveg. Bræðurnir Sturla og Friðrik Jónssynir reistu þessi hús sem voru næstum 2.000 fermetrar að stærð. Þetta var upp úr 1920 þegar hart var í ári, fátækt mikil og almenn húsnæðisekla í Reykjavík. Þeir bræður voru umsvifamiklir athafnamenn og fengust við verslun, landbúnað og margt fleira. Meðal viðskiptafélaga þeirra var Einar Benediktsson athafnamaður og skáld. Saman áformuðu þeir stórfelldar virkjanaframkvæmdir sem reyndar ekkert varð af. Sturlubræður voru synir Jóns Péturssonar háyfirdómara en bræður hans voru Pétur Pétursson biskup og Brynjólfur Pétursson fjölnismaður. Friðrik átti konu Mörtu Maríu Bjarnþórsdóttur og barn en Sturla var einhleypur. Sagan segir að barnið hafi grátið á nóttunni og Sturla ekki þolað grátinn. Þess vegna hafi þeir látið reisa annað hús af sömu stærð og það fyrra en með bil á milli húsanna. Barn Friðriks sem átti að hafa grátið á nóttunni var dr. Sturla Friðriksson erfðafræðingur. Þessi tvö einbýlishús hafa nú verið tengd saman og rekur Reykjavíkurborg leikskóla í öðru þeirra en Söngskólinn er í hinu.“ 

Mjólkursamsalan, Ölgerðin og Menntasetrið við Lækinn

Björn segir að af mörgu sem megi taka af verkum Einars sé Mjólkursamsöluhúsið við Snorrabraut og hús Ölgerðarinnar við Njálsgötu sem nú eru horfin. Reisuleg hús úr smiðju hans megi finna við Laufásveg og Bergstaðastræti og síðan í Vesturbænum. “Vel þekkt hús eftir Einar er á horni Ljósvallagötu og Hringbrautar. Húsið var byggt sem einbýlishús fyrir Jónatan Þorsteinsson kaupmann og stóra fjölskyldu hans. Ýmsir þekktir borgarar og listamenn hafa búið þar og nú er húsinu skipt í fjórar íbúðir. Eins er Sólvallagata 2 reisulegt hús sem byggt var eftir teikningu Einars fyrir Lárus Lárusson fyrsta gjaldkera Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Annað hús í svipuðum dúr er Suðurgata 26. Byggt fyrir Margréti Jónsdóttur en var lengi í eigu Háskóla Íslands og nefndist þá Skólabær en er nú í eigu sendiráðs Kanada. Einar teiknaði einnig nokkur eftirtektarverð skólahús. Eitt af því er Lækjaraskólinn í Hafnarfirði. Barnaskóli Hafnarfjarðar til margra ára. Þar er nú rekið Menntasetrið við Lækinn eftir að grunnskólinn var fluttur í annað húsnæði. Annað þekkt húsnæði sem Einar teiknaði í Hafnarfirði er Karmelklaustrið.“  

Fljótur að átta sig á þróuninni

Björn segir að Einar hafi verið fljótur að átta sig á þeirri þróun sem átti sér stað í byggingarsögunni. Þegar á fjórða áratug liðinnar aldar hafi farið að rísa hús sem voru ólík öðrum sem byggt höfðu verið áður. Hús sem einkenndust af kassalegu lagi og án als skrauts. Hús þar sem notagildið var valið umfram eldri hugmyndafræði fúnksjónalisma. „Einar var fljótur að tileinka sér þessar þróun. Hann hóf að móta hús í þeim stíl. Eitt fyrsta dæmi um teikningu hans í þeim stíl er Skólavörðustígur 21a. Hús kennt við Fatabúðina. Einar teiknaði líka Klapparstíg 16 1937. Skrifstofu- og iðnaðarhús fúnkístíl. Áfram mætti telja.“   

Erfitt að finna sum verkin

„Erfitt var að finna sum verka Einars,“ segir Björn Björn. „Nánast eins og um leynilögreglustarf hafi verið að ræða. Mjög litlar heimildir hafi verið að finna í bókum og ritum. Hann hafi meðal annars verið spurður um hvað Einar hafi gert. Hvort hann hafi einkum verið aðstoðarmaður Guðjóns Samúelssonar. „Hann var það vissulega en margt fleira liggur eftir hann. Ég á orðið mörg spor um bæ og byggðir við að leita að verkum hans. Þau leynast víða. Bera honum vitni. Ég þori að fullyrða að fáir hafa sett meiri svip á reykvískt umhverfi á tímum mikillar þróunar en hann og spor hans liggja víðar. Hann var myndasmiður í íslenskri byggingalist í hálfa öld.“ segir Björn að lokum.

Stýrimannastígur 9 teiknað af Einari Erlendssyni. 
Sérkenni Einars koma vel fram í þessu húsi við Sólvallagötu 14.
Ljósvallagata 36. Upphaflega byggt sem einbýlishús en hefur fyrir löngu verið skipt í fleiri íbúðir. 

You may also like...