Vesturgata – móðir gamla Vesturbæjarins

Hlíðarhúsabæirnir um 1870 samkvæmt málverki Jóns Helgasonar biskups. Hlíðarhúsabæirnir voru: Norðurbær, Vesturbær, Sund, Skáli, Miðbær, Jónsbær og Austurbær. Allir þessir bæir nema Vesturbærinn voru rifnir fyrir aldamótin 1900.
Vesturgata 26 til 28. Þar stóðu Hlíðarhúsabæirnir forðum.

Vesturgata varð til um miðja 19. öld. Vesturgata er fyrsta gatan sem lögð var út frá miðbænum eða Kvosinni. Lagning hennar hófst árið 1840 og náði elsti hluti hennar vestur að læknisbústað sem Jón Thorsteinsson landlæknir reisti og kallaður var Doktorshúsið þar sem Ránargata 13 stendur í dag. Doktorshúsið var ekki aðeins lækningahús heldur var fyrsti Stýrimannaskóli á landinu í því húsi. Um tíma var hluti götunnar kallaður Læknisgata en það nafn náði þó ekki að festast við hana. Um 1860 var tekin ákvörðun um að framlengja götuna vestur að Hlíðarhúsum. Byggð var þá farin að aukast og nokkrum árum síðar eða 1866 var ákveðið að leggja götuna alla leið vestur að sjó. Var þá horft til þess að gatan yrði aðalleið úr Reykjavík út á Seltjarnarnes. Fyrir tíma Vesturgötu lá stígur frá Kvosinni vestur í Ánanaust. Nefndur Hlíðarhúsastígur og nafnið dregið af Hlíðarhúsum sem voru nokkrir bæir er stóðu á landi jarðarinnar Hlíðarhúsa norðanvert við núverandi Vesturgötu.

Hlíðarhús voru með elstu byggðum í Reykjavík. Þau voru þar sem Vesturgata frá 24 til 28 stendur í dag. Talið að Hlíðarhús hafi upphaflega verið hjáleiga eða jafnvel fjárhús frá fornu höfuðbóli er nefndist Víkur. Um 1600 voru Hlíðarhús orðin sjálfstæð jörð. Fyrstu Hlíðarhúsabæirnir munu hafa verið byggðir á sautjándu öld. Við manntalið 1703 töldust 15 manns búa í Hlíðarhúsum en árið 1762 voru íbúar þar taldir 39.

Fólksfjölgun með Innréttingunum

Þessa fjölgun má að einhverju leyti rekja til stofnunar Innréttinganna árið 1751. Þá fjölgaði tómthúsmönnum, fólki er ekki bjó með húsdýr í nánd við Aðalstrætið.

Árið 1866 tók bæjarstjórn Reykjavíkur við jörðinni Hlíðarhúsum eftir að E. Thorsteinsen sem þá var ekkja og ábúandi þar flutti af jörðinni. Nokkrir bæir voru reistir í Hlíðarhúsum upp úr því og þótti bygging þeirra og frágangur til fyrirmyndar miðað við aðra bæi í Reykjavík. Einkum bæi sem byggðir höfðu verið í landi Skugga þar sem Skuggahverfið er í dag. Á korti frá árinu 1887 sést að fleiri timburhús hafa við byggð við Vesturgötu og á korti sem Landmælingadeild herforingjaráðs lét gera árið 1902 sést hvar bólverkum fyrir aðkomu báta var komið fyrir við sjávarsíðuna. Árið 1888 var nafnið Vesturgata lögfest eftir höfuðátt frá Aðalstræti.

Gamalt og nýtt við Vesturgötu. Götuhús frá 1895 og blokk byggð snemma á sjöunda áratugnum. 
Á þessum fallega steini við Götuhús er heiti hússins og byggingarár þess skráð.

Byggð beggja vegna um aldamót

Um aldamótin 1900 má segja að byggð hafi verið risin beggja vegna götunnar langleiðina að Ánanaustum. Nærliggjandi götur tóku einnig að byggjast. Nýlendugata samliggjandi Vesturgötu að norðan og Ránargata, Öldugata og Bárugata að sunnan. Þar byggði margir er tengdust sjó og sjósókn. Segja má að gamli Vesturbærinn hafði að verulegu leyti byggst út frá Hlíðarhúsajörðinni og þeirri búsetu sem þar hafði þróast og síðan Vesturgötu.

Tómthúsmenn í Hlíðarhúsum

Í Hlíðarhúsum bjuggu einkum tómt-húsmenn og útvegsbændur. Margir töldust til hinna fátækari en einnig komu framkvæmdamenn af þessum slóðum. Má þar nefna Jón Ólafsson frá Hlíðarhúsum. Hann var einn hluthafa í Fanneyju fyrsta þilskipinu sem Reykvíkingar eignuðust. Hann stundaði mikla útgerð á þeirra tíma mælikvarða og lét bæjarmál einnig til sín taka. Annar var Sighvatur Bjarnason sem var sonur tómthúsmanns og útgerðarmanns í Hlíðarhúsum. Hann stundaði nám í bankastörfum í Kaupmannahöfn og gerðist bókari í Landsbankanum þegar hann tók til starfa árið 1886. Sighvatur var ráðinn bankastjóri nýstofnaðs Íslandsbanka árið 1904 og gegndi starfinu til ársins 1921. Hann átti sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur með hléum frá 1900 til 1920 og var forseti bæjarstjórnar frá 1916. Ársæll Jónasson kafari var úr Hlíðarhúsum. Hann gaf út bók um verklega sjóvinnu. Námsefni fyrir sjómenn. Þá má nefna Þórð Ólafsson en hann var faðir Sigurðar Þórðarsonar tónskálds og stjórnanda Karlakórs Reykjavíkur. Páll Matthíasson skipstjóri reisti veglegt steinhús við Vesturgötu 32. Í húsi er áður stóð á þeirri lóð hafði Sigurður Símonarson fyrsti skútuskipstjóri hér á landi búið og einnig Ásgeir Þorsteinsson skipstjóri og fyrsti formaður Öldunnar. Ásgeir var faðir Herdísar konu Tryggva Ófeigs-sonar útgerðarmanns. Í næsta húsi við Vesturgötu 34 bjó Símon Sveinbjarnarson skipstjóri faðir Halls Símonar-sonar bridgsspilara og afi Halls Hallssonar blaðamanns. Þórbergur Þórðarson rithöfundur bjó lengi á Vesturgötu 35. Á einhverjum stað segist hann hafi notið leigu svo sannra aðalsmanna að þeir hafi aldrei hækkað leiguna þótt verðlag stigi risaskrefum. 

Tveir tímar. Sá nýi og hinn gamli hlið við hlið við Vesturgötuna.

Hogesen í Dúkskoti

Dúkskot var við Vesturgötuna þar sem Garðastræti tengist henni í dag. Þar var eftirtektarverður maður sem bjó hjá Jóni hafnsögumanni. Hann hét Kristján Hákonarson og hafði áður búið í Klettakoti. Hann kallaði sig Hogensen. Hann kvaðst hafa fengið Hogesensnafnið og einkennisfrakka sem hann klæddist jafnan í viðurkenningarskyni fyrir frábært starf frá erlendum skipstjóra þegar hann sem hafnsögumaður hafði komið skipi hans til hafnar. Samtímamenn töldu þetta þó aðeins grobb í karlinum og að einhverjir útlendingar hefðu verið að dárast að honum og logið hann fullan. Talið er að Kristján sé fyrirmynd Halldórs Laxness að Kaftein Hogensen í Brekkukotsannál. Í bók Halldórs Laxness bjó hann á loftinu hjá Birni í Brekkukoti, reis upp hvern nýársdag og gekk á fund landshöfðingjans og bar fram kröfur fyrir land og þjóð og þáði staup af brennivíni að launum því hann væri eins og landshöfðinginn sagði eini sjóherinn á Íslandi.

Rómanía

Í litlu koti sem oft var kallað Höll neðanvert við Vesturgötuna bjó kona sem kölluð var Rómanía. Hún var með hrafnsvart hár og brún og tinnuhvöss augu. Andlitslitur hennar var gulbrúnn. Útlit hennar var með þeim hætti að hún gat tæpast verið af íslensku bergi brotin. Lýsingar af henni benda til þess að hún hafi verið af ætt rómana eða sígauna eins og þeir hafa oft verið kallaðir hér á landi. Ekki er vitað til að hún hafi átt mann né hvaðan nafn hennar var komið. Í Höll bjó einnig ung stúlka kölluð Malla. Hún mun hafa verið skemmtanaglöð og eftirsótt af karlmönnum en Rómanía mun hafa varið hana af grimmd fyrir ágengni hins kynsins.

Þetta er fyrri hluti umfjöllunar um Vesturgötuna sem móðir gamla Vesturbæjarins. Síðari hlutinn verður birtur í næsta blaði.

Heimildir:

Árni Óla. Úr sögu Hlíðarhúsa. Mb. 9 maí 1948.

Ágúst Jósefsson. Sérkennilegt fólk í Reykjavík á fyrri tíð. Sunnudagsblaðið 27. september 1959.

Húsakönnun í Reykjavík. Guðný Gerður Gunnarsdóttir.

Timarit.is. Ýmis fréttaskrif.

You may also like...