Gætu orðið aðal útivistarsvæði höfuðborgarbúa í framtíðinni

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 13. maí sl. og borgarráðs 28. maí 2020 var lögð fram tillaga að rammaskipulagi fyrir Austurheiðar. Meginmarkmið skipulagsins felst í því að skapa fjölbreytt og aðgengilegt útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa og ólíka notendahópa. Tillagan var samþykkt til kynningar og umsagna. Markmið með gerð rammaskipulags fyrir Austurheiðar eru margþætt og eiga að tryggja samræmingu landnotkunar innan svæðisins til að forðast hagsmunaárekstra milli núverandi og framtíðar landnotkunar.

Ætlunin er að skapa fjölbreytt og aðgengilegt útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa og ólíka notendahópa. Þar á meðal hestafólk, gönguskíði, fjallahjól, torfæruhjól, göngu, skokk, sveppamó, berjamó, ferðaþjónustu og fisflug. Ákvarða á og skilgreina legu helstu vegtenginga og göngu-, hjóla og reiðleiða um svæðið. Styrkja á tengingu byggðar við útivistarsvæði og samspil og tengingu Austurleiða við aðliggjandi útivistarsvæði.

Stífar kröfum um vatnsvernd ýttu málinu af stað

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur segir að upphafið að skipulagsvinnunni megi rekja til þess að á síðasta kjörtímabili hafi komið fram stífari kröfur um vatnsvernd í Heiðmörk. Af þeim sökum þurfi að takmarka umferð ökutækja um Heiðmerkursvæðið vegna fless að hún feli í sér hættu á mengun fyrir vatnsbólin. Ekki sé æskilegt að fá mikla bílaumferð inn á viðkvæmasta svæðið. Lítið þurfi að koma fyrir. Ökutæki geti bilað og spilliefni komist í jarðveginn. Af þeim sökum þurfi að skapa tækifæri fyrir fólk til þess að geta nýtt sér önnur útivistarsvæði til fjölbreyttara notkunar.

Á kortinu má sjá það land sem fellur undir umrætt rammaskipulag.

Víðfeðmt land og kjörið til útivistar

Sigurborg segir að hinu megin við Suðurlandsveginn sé víðfeðmt land og kjörið til þess að byggja upp útivistarsvæði til framtíðar. Svæðið nær yfir Austurheiðarnar að mestu, Hólmsheiði, Grafarheiði og Reynisvatnsheiði. Innan svæðisins eru Rauðavatn og Reynisvatn ásamt þeim hluta Langavatns sem er innan sveitarfélagamarka Reykjavíkur. Austurheiðar eru víðáttumikið heiðaland og gróðurfar hefur tekið talsverðum breytingum frá því skýrsla Náttúrufræðistofnunar um náttúrufar í austurlandi Reykjavíkur var gefin út árið 1996. Heiðin sem var fyrrum víða blásin er mikið til orpin skógi vaxin og lúpínubreiður þekja stóra hluta svæðisins. “Við fórum að skoða þetta landsvæði og hvaða framtíðarmöguleika það gæti falið í sér fyrir útivist. Við sáum að besta leiðin til þess að skoða þetta væri að láta gera rammaskipulag um svæðið að fá fram heildarmynd með því þótt slíkt skipulag sé ekki lögformlegt. Fyrir utan nokkar lóðir sem eru í einkaeign er ekki gert ráð fyrir byggð sumarhúsa á þessu svæði. Við sjáum hvað skógræktarsvæðin hafa vaxið mikið og þetta umhverfi er orðið mun hlýlegra en var. Við sáum vel í vetur og vor þegar Covid faraldurinn takmarkaði umferð fólks og samkomur hvað Heiðmerkursvæðið var mikils virði. Fólk flykktist upp í Heiðmörk til þess að njóta útivistar. Þar var kærkomið tækifæri. Við sjáum að Austurheiðar geti tekið við þessu hlutverki útivistarsvæðis á komandi árum.”

Á þessari mynd má sjá yfir Efra Breiðholt, Elliðaárdal og eystri hverfi Reykjavíkur.
Landslag og gróður á Austurheiðum.

You may also like...