Ég get ekkert annað en hlakkað til

David Snorri 1

Davíð Snorri Jónasson og að sjálfssögðu er Efra Breiðholtið í baksýn.

Leiknir er kominn í Pepsi deildina í fyrsta skipti. Af þeim sökum verður fimmtudagurinn 4. september sl. lengi í minnum hafður en þá tryggði félagið sér sæti í deild þeirra bestu árið 2015. „Litla félagið með stóra hjartað er komið í deild þeirra bestu eftir um 40 ára baráttu í neðrideildum íslenskrar knattspyrnu,“ segir Davíð Snorri Jónasson sem er annar þjálfara Leiknis. Saga Leiknis er engin bein braut. Ómælar stundir eru að baki þessum árangri – bæði við uppbyggingu knattspyrnunnar og reksturs félagsins. Davíð Snorri spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni. Fyrst var hann inntur eftir því hvort hann sé Breiðhyltingur.

„Ég er Breiðhyltingur í húð og hár, flutti þangað með foreldrum mínum þegar ég var tveggja ára. Öll uppeldissaga mín er því í þessu hverfi og lífssaga fram á þennan dag. Við bjuggum í Vestur-berginu til að byrja með en fluttum síðar í Keilufellið. Nú er ég aftur fluttur í Vesturbergið og geri ráð fyrir að búa þar áfram þannig að ég er búinn að fara einn hring í Efra Breiðholtinu.“ Davíð Snorri hóf skólagönguna í Suðurborg og fór síðar í Hólaborg. Þá tók Hólabrekkuskóinn við og síðan FB. „Mér fannst ekki annað koma til greina en halda skólagöngunni áfram á heimaslóð þótt sumir sem ég þekkti héldu annað. Ég er það mikill Breihyltingur. Ég fór þannig séð ekki út úr hverfinu fyrr en ég fór í Háskóla Íslands. Ég fór í kennaradeildina og því varð Stakkahlíðin eða gamli KHÍ viðkomustaður minn um tíma en það varð aðeins tímabundið því þegar ég fór að starfa að náminu loknu varð gamli skólinn minn Hólabrekkuskóli fyrir valinu. Ég er að þjálfa hjá Leikni en auk þess kenni ég í Hólabrekkuskóla og á Framabraut FB. Því er allur vettvangur minn í Efra Breiðholtinu.“

Bær og perla í borginni

Davíð Snorri segir Breiðholtið vera bæ í borginni „Þetta hverfi hefur allt sem maður þarf og fyrir mér er mjög jákvætt að þurfa ekki að fara úr umhverfinu til daglegra athafna. Ég get gengið til allra minna starfa hvort sem er í Leikni, FB eða Hólabrekkuskóla. Maður er ekki lengur en fimm mínútur að komast leiða sinna enda stutt í alla þjónustu, hvort það sé verslun, menningarmiðstöð, heilsugæslu eða hreyfingu. Davíð Snorri segir að börn hafi löngum sett svip á Efra Breiðholtið enda umhverfið ákaflega barnvænt. „Þegar ég var að alast upp var allt fullt af krökkum. Svo fækkaði þeim talsvert eins og gjarnan gerist þegar börn einnar kynslóðar eldast en nú þeim farið að fjölga aftur. Það er komin ný kynslóð. Ungt fólk sem er að ala börnin sín upp hér. Sumt af þessu fólk er fætt hér og alið upp en annað hefur flutt hingað. Ég er ekkert hissa á því að fjölskyldufólk kjósi að koma hingað. Þetta hverfi er ákaflega barnvænt og ekkert mál fyrir börnin að ganga í skólann og aðra þjónustu – nú eða yfir til okkar í Leikni,“ bætir hann við. „Nú erum við Dagbjört (Steinarsdóttir) sambýliskona mín farin að huga að fyrstu íbúðarkaupunum. Hún er úr Seljahverfinu og stýrir unglingastarfinu í HundraðogEllefu og hefur engan áhuga frekar en ég að flytja úr Breiðholtinu.“ Davíð Snorri kveðst líta á Breiðholtið sem perlu í borginni. „Við höfum fengið íslenska og erlenda gesti. Leikmenn og aðra sem hafa komið vegna fótboltans. Þessir menn hafa kunnað ákaflega vel við sig hér Efra og ef í tal hefur borist að hverfið hafi ekki haft gott orð á sér verða þeir forviða. Skilja ekki hvað fólk hefur á móti þessari byggð. Breiðholtið er bæði landfræðilega vel afmarkað og einnig að mestu vel skipulagt. Með árunum hefur þróast gott mannlíf í þeim hverfishlutum sem stundum voru til umræðu. En Breiðholtið er að ég held staður sem fólk þarf að vera á og þekkja til þess að skynja kostina og finna perluna sem það er.“

Úrvalsdeildin hefur alltaf verið takmarkið

Talið berst að hverfisfélaginu Leikni – Litla félaginu með stóra hjartað eins og Davíð kemst oft skemmtilega að orði. Fæddist hann inn í Leikni eins og næstum því inn í Breiðholtið. „Já – það má kannski segja það. Ég datt inn í Leikni þegar ég var sex ára. Þá fór ég á mína fyrstu fótboltaæfingu ásamt félögum mínum– skemmtilega æfingu með sjöunda flokki. Skemmtilegt til þess að hugsa þegar ég kom á mínu fyrstu æfingu var verið að spila í leikstöðum og ég var spurður hvaða stöðu ég spilaði. Ég sagði sókn að sjálfsögðu en var þá settur í vörn. Ég sé þetta ekki gerast í dag hjá 6 ára barni sem kemur á æfingu,, segir Davíð og hlær. ,,Fljótlega eftir það fór ég með félögum mínum á Lottómót á Akranesi og eftir það varð ekki aftur snúið. Ég hef alltaf spilað með Leikni utan eitt sumar þegar ég var 14 ára fór að vinna í Ólafsvík en ég á fjölskyldutengsl þangað. Mér hefur aldrei fundist neitt annað koma til greina en Leiknir. Leiknir er félagið mitt og ég hef alltaf lagt allan metnað minn í það.“ Leiknir er stofnað1973 og rekstur félagsins var mjög erfiður framan af. Ef ég man rétt var fyrsta skrifstofan í sendibíl. Gamli Leikniskofinn hýsti starfsemi okkar í mörg ár eftir það og síðan þessi góða aðstaða sem við höfum í dag. Mikið af fólki hefur barist fyrir tilveru Leiknis frá stofnun og gengið í gegnum súrt og sætt við að halda hverfisfélaginu á lífi. Breiðhyltingar eiga þessu frábæra fólki mikið að þakka í dag og verður starf þeirra ávallt minnst af mikill virðingu. Ég myndi segja Leiknir hafi verið á tímamótum i í kringum aldarmótin þegar ný stjórn tók yfir félagið. Sá hópur fólks hefur leitt liðið úr neðstu deild upp í deild þeirra bestu ásamt því að umbylta rekstri félagsins úr miklum skuldum í hagnað. Þegar verst lét var mikil pressa á að sameina félagið ÍR en Efri Breiðhyltingar létu sig ekki og tóku bara til óspilltra málanna að greiða úr vandanum og halda uppbyggingunni áfram. Við höfum líka haldið okkur að mestu við fótboltann á meðan ÍR hefur verið að vinna á mjög breiðum vettvangi sem auðvitað er nauðsynlegt starf. “

Og nú er Leiknir komið í úrvalsdeildina eftir að hafa unnið sig upp svona skref fyrir skref. Davíð tók við Leikni árið 2013 ásamt Frey Alexanderssyni sem er einnig uppalinn Leiknismaður. Samstarf okkar hefur verið mjög gott og á ég Frey mikið að þakka. Hann hefur gert mig að miklu betri þjálfara og við vegum hvorn annan vel upp. Við settum okkur það markmið strax árið 2013 að komast í Úrvalsdeild með Leikni. Við mátum það þannig að með að halda í gildi Leiknis og virkja enn betur þennan kjarna leikmanna sem var fyrir hjá félaginu myndum við ná þessu markmiði. Það tókst í ár og er frábært fyrir Leikni og Breiðholtið í heild sinni.

Ég get ekkert annað en hlakkað til

Saga Leiknis er í stuttu máli frá aldarmótum sú að úr þriðju og neðstu deild upp í úrvalsdeild eða Pepsi deildina eins og hún heitir í dag. Davíð Snorri þakkar því mikilli samheldni, fórnfýsi og ástríðu félagsmanna fyrir félaginu. „ Félagið tók þá ákvörðun þegar uppbyggingin um aldarmótin hófst að byggja á okkar eigin innviðum, okkar fólki. Þjálfa strákana í hverfinu upp og gera þá að góðum fótbolta-mönnum. Við höfum ekki haft efni á aðkeyptum leikmönnum nema að litlu leyti og þegar ég horfi til baka held ég að gæfa okkar liggi að miklu leyti í því. Það sem gerðist í raun þegar félagið átti litla sem enga fjármuni og var að mönnum var gerð grein fyrir því að þeir strákar sem voru að koma upp hjá félaginu myndu fá sénsinn og tækifæri á að gera félagið betra. Aukin metnaður var færður í yngri flokka starfið og áhersla lögð á að skila enn betri leikmönnum upp í meistaraflokk félagsins. Menn tóku verkefninu af alvöru og uppistaðan í dag er sá hópur manna sem þarna fór af stað og er nú að spila eða vinna fyrir Leikni utan vallar. Okkar stefna og draumur er að byggja sem mest á eigin fólki eins og við höfum gert en vissulega er nauðsynlegt að fá utanaðkomandi fólk til þess að fá fleiri hugmyndir og breikka grunninn. Hvort tveggja er af hinu góða. Við höfum einnig góða reynslu af þeim sem komið hafa til okkar utan frá hafa bætt félagið og skilað góðum árangri. Ég geri ekkert annað en að horfa bjartsýnn fram á veginn. Við starfsliðið, leikmenn og þeir sem standa að félaginu erum staðráðin í að gera okkar besta og gera Breiðhyltinga enn stoltari af hverfisfélaginu sínu. Stuðningurinn var góður í sumar og við búumst við enn fleiri Breiðhyltingar styðjið við bakið á okkur í Pepsi deildinni næsta sumar því það verður hverfishátíð í Breiðholti í hvert skipti sem við eigum heimaleik. Það eru spennndi tímar framundan fyrir okkur Leiknismenn en umfram allt er nauðsynlegt fyrir okkur að halda áfram að leggja mikið á okkur, halda í gildin okkar og njóta ferðarinnar í gegnum næsta keppnistímabil. Ég get ekkert annað en hlakkað til,“ segir Davíð Snorri Jónasson annar þjálfara Leiknis.

 

 

You may also like...