Nesið hefur margt að bjóða ferðamönnum

NesiðÍ síðasta tölublaði Nesfrétta var fjallað nokkuð um mögulega ferðaþjónustu á Seltjarnarnesi og einkum bent á Neshringinn þar sem margt gæti vakið áhuga ferðafólks.

Saga Seltjarnaress nær allt aftur til landnáms og löngum var talið að á Nesinu væri að finna eitt besta búsvæði á landinu. Á Seltjarnarnesi liggur sagan og fortíðin við nær hvert fótmál. Góður leiðsögumaður hefði því frá mörgu að segja sem vakið gæti áhuga ferðamanna og myndi margt örugglega koma þeim á óvart.

Förin um Seltjarnarnes gæti hafist á Eiðinu sem tengir Nesið við meginlandið. Þar stóð eitt af fyrstu lögbýlum á Seltjarnarnesi byggt undir lok 14. aldar. Um miðja 18. öld var óttast að hafið græfi Eiðið í sundur og gerði Seltjarnarnes að eyju en varð ekki. Á Eiðinu má finna hluta af sögu samgangna en þar liggur vagga vörubílaútgerðar að hluta. Mývant Sigurðsson sem lengi bjó á Eiði stofnaði vörubílastöð í upphafi bílaaldar og var orðinn að slíku stórveldi á sínum tíma að stjórn Verkamannafélagsins Dagsbúnar ákvað að leggja hann að velli enda dæmigerður einkaframtaksmaður.

Virki bakvið Berg

Frá Eiðinu má halda áfram vestur Norðurströndina í áttina að Bollagörðum. Þar stendur gamla íbúðarhúsið enn ásamt áföstu gripahúsi en í landi Bollagarða er að finna húsið Berg sem byggt var af Hafsteini Einarssyni loftskeytamanni og kompássmið og Auði Sigurðardóttur konu hans. Í bakgarði hússins er að finna virki frá hernámsárum seinni heimstyrjaldarinnar þar sem hermenn stóðu öll stríðsárin og fylgdust með ferðum af hafi fyrir utan Seltjarnaress. Úr Bollagörðum liggur leiðin út á Snoppu útivistarsvæði gegnt Gróttu. Skammt frá eru upptök hitaveitu bæjarfélagsins þar sem lítið bæjarfélag á sína eigin hitauppsprettu sem vermir hýbýli þeirra. Skammt frá er hákarlaskúrinn. Endurbyggður hjallur sem sýnir hvernig Seltirningar verkuðu hákarl.

Náttúruhamfarir og dulúð

Næsti viðkomustaður yrði Grótta. Gróttan næstum losnaði frá fastalandinu í miklu óveðri og hárri sjávarstöðu fyrir 215 árum. Grótta mun í upphafi verið talin hjáleiga frá Nesi en eftir sjávarflóðin 1799 var jörðin talin óbyggileg. Viti hefur verið í Gróttu frá 1897 en fyrsti vitinn stóð nokkru vestar en sá viti sem nú stendur. Þorvarður Einarsson var fyrsti vitavörðurinn en Albert sonur hans tók við vörslunni að honum látnum. Albert starfaði þar auk þess að stunda sjómennsku til 1970 að hann sigldi í hinsta sinn en snéri ekki aftur. Engin veit með hvað hætti endalok hans urðu önnur en að hann hafi sameinast hafinu með einhverju móti.

Merk saga, spurning um jarðfræði og stríðsminjar

Frá Gróttu mætti halda upp að Nesstofu sem er sögufrægasta setur Seltjarnarness og þótt víðar væri leitað. Þar var upphaf lækninga og lyfjagerðar í landi sem hafði ekkert þéttbýli og engar samgöngur utan hesta og báta. Saga Ness og Nesstofu er sérstök og til þess að vekja forvitni innlendra sem útlendra. Frá Nesi yrði síðan haldið upp á Valhúsahæðina en hún gegndi m.a. hernaðarlegu hlutverki á stríðsárunum. Valhúsahæðin er friðlýst. Hún er hæsti staður á Nesinu og þar má finna rákað berg eftir ísaldarjökul og spurningar eru um hvort þar hafi verið eldstöð í fyrndinni. Nafn hennar er dregið af húsum þar sem veiðifálkar Danakonungs voru gleymdir fyrr á öldum.

Útilíf á Suðurnesi

Á Suðurnesinu er endurbyggt leiðarmerki sem notað var við siglingar fyrir tíma vitanna og þar er golfvöllur Seltirninga. Golfíþróttin nýtur vaxandi vinsælda bæði sem keppnisíþrótt og ekkert síður sem fjölskylduíþrótt. Golfmót á björtum sumarnóttum hafa notið vinsælda meðal annars Open Artic golfmótið sem haldið er á Akureyri um Jónsmessuna á hverju ári. Benda má mikla aðsókn að útivistarsvæðum á Seltjarnarnesi enda um sérstæð náttúrusvæði að ræða. Þar eru fjölbreyttar fjörur og strandgróður ásamt sjávartjörnum og ríkulegt fuglalíf. Þar eru einnig jarðlög með skeljaleifum frá síðasta hlýskeiði ísaldar og ísaldarlokum. Sunnan á Nesinu er smábátahöfn þaðan sem hægt væri að bjóða bátsferðir, siglingu um sundin og sjóstangveiði.

Íþróttir, líkamsrækt og veitingar

Á Seltjarnarnesi er að finna góða aðstöðu til íþrótta og líkamsræktar. Íþróttavöll, sundlaug og stóra líkamsræktarstöð. Tilvalið væri fyrir ferðamenn að bregða sér í sund eða aðra rækt og slökun eftir gönguferð og jafnvel bátsferð af Nesinu og koma við í heilsusetri Systrasamlagsins. Hringferðin gæti svo endað á Eiðistorgi þar sem miðbæjar- eða verslanakjarni Seltirninga stendur nú. Þar er ýmsa þjónustu að finna sem auðveldlega mætti bæta og laga að þörfum ferðafólks – til dæmis með aukinni aðstöðu fyrir veitingastarfsemi. Hér er aðeins stiklað á mjög stóru um hvað hægt væri að gera til þess að Seltjarnarnes fengi sin hluta af ferðaþjónustu rétt eins og önnur bæjar- og sveitarfélög í landinu. Nesið hefur margt að bjóða í þeim efnum.

 

You may also like...