Tækifæri Breiðholts
Ég er nýkomin heim í Breiðholtið, elsku besta Breiðholt, frá Detroit Michigan sem er mín heimaborg. Munið þið eftir því að fyrir tæplega ári síðan var Detroit skilgreind sem tæknilega gjaldþrota, ghetto og jafnvel versti staður sem maður gat hugsað sér að búa á. Í dag er allt annar blær og borgin er að lifna við, möguleikar og þróun liggja fyrir í hverju horni. Það er vegna nokkurs sem heitir “Urban Renewal.”
Af hverju ætti formaður hverfisráðs í Breiðholti að tala um þróun í Detroit þegar hann á að einblína á Breiðholt? Vegna þess að hann hefur tröllatrú á “Urban renewal” og sér ýmis tækifæri og marga möguleika til þróunar hér í okkar hverfi. Fyrir þá sem þekkja ekki endilega hugmyndafræðina á bakvið “Urban renewal” þá er það ferli þar sem fjölmenn hverfi, bæði í borginni og í úthverfum sem eru í rauninni tekin í gegn og endurnýjuð. Slík endurnýjun inniheldur flutning fyrirtækja, niðurrif bygginga í niðurníðslu, fólksflutninga, og verkefni á vegum borgaryfirvalda sem tengjast bæði innri þjónustu og skipulagi hverfisins. Í gegnum tíðina hefur slík endurnýjun oftast verið eingöngu í höndum yfirvaldsins. Það hefur skilað misjafnlega góðum árangri, endað jafnvel bara með minniháttar útlitsbreytingum eða skiptingu á íbúum hvað varðar félagslega samsetningu hverfisbúa það er að segja út með fólk sem hefur lítið á milli handanna og inn með fólk með mikið á milli handanna.
Verðum “hip og kúl” svæði
Hér koma nokkur góð dæmi um slíka endurnýjun sem hefur heppnast vel í gegnum tíðina; Central Park í New York, Temple Bar í Dublin á Írlandi, Barcelona í kringum og meðfram vatninu, þar má nefna að Bilboa reis sem hluti af endurnýjun, Brooklyn New York, Hyde Park í Chicago, Melbournehöfnin í Ástralíu, Docklands og Brixton í London. Ég er ekki að reyna að líkja Breiðholti saman við borgir eins og New York eða London. Við vitum að við erum c.a. 21.000 íbúar og að Breiðholt er alls ekki í samskonar níðurníðslu, hér er ekki þörf á sömu endurnýjun og uppbyggingu. Samt er það staðreynd að við sem höfum búið hér lengi höfum lifað með neikvæðum og óréttlátum stimpli á hverfinu okkar. Öll ofantalin dæmi fóru frá því að bera þennan sama stimpil yfir í að vera “hip og kúl.” Fólk sækist eftir því að dvelja og eyða deginum þar. Nú er okkar tími kominn, við ætlum að vera “hip og kúl” svæði. Það er að mínu mati fáránlegt að sjá fasteignaverð hér í hverfinu miðað við önnur hverfi í Reykjavíkurborg. Ég meina, hver vill ekki búa, sem dæmi, í brekkunni sem horfir yfir Esjuna og með Elliðaárdalinn rétt fyrir utan dyrnar? Hvað með gamlárskvöld, ég held að allir myndu vilja horfa yfir borgina af 7.hæð í Dúfnahólum.
Auð hús bíða eftir að flutt verði inn
Í þeim tilfellum þar sem slík endurnýjun tókst vel, var þróunin samblönduð af borgaryfirvöldum, fjárfestum frá utanaðkomandi einkaaðilum, í bæði stórum og litlum fyrirtækjum og virkni hjá íbúum sjálfum. Þar tel ég vera lykiltækifæri hér í Breiðholtinu, við sem búum hér eru mjög stolt að búa og vinna hér og við eigum að taka af skarið með þátttöku í að búa til betra Breiðholt. Við eigum að huga að samstarfi með Reykjavíkurborg og fólki með peninga í einkageiranum til þess að fjárfesta í okkar hugmyndum fyrir hverfið. Það er mikil menning hér, jafnvel er mesta fjölmenning á landinu nú þegar til staðar í Breiðholtinu. Það standa auð húsnæði sem bíða eftir að einhver lítil fyrirtæki opni starfsemi þar. Fyrirtæki eins og “beint frá bónda” búð, lítil kaffihús, barnafataverslun, tæ-veitingahús, rússnesk tehús og svo má lengi telja. Íbúar í Breiðholti eiga rétt á að taka stóran þátt í að móta hverfið og hafa áhrif á hversu “hip og kúl” Breiðholtið á eftir að verða.
Tillögur um forgangsröðun framkvæmda
Aftur að formanni hverfisráðs og hvað það er sem ég get gert eða jafnvel ber skyldu til að sinna þegar það kemur að slíku “Urban Renewal” í Breiðholtinu. Samkvæmt lýsingu á embættinu sem ég sit í núna stýri ég Hverfisráði og við eigum að stuðla að ýmis konar samstarfi innan hverfis. Hverfisráð eru vettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda og eru virkir þátttakendur í allri stefnumörkun hverfanna. Þannig eru hverfisráð ráðgefandi fyrir starfsemi þjónustumiðstöðva í hverfum og stuðla að eflingu félagsauðs í hverfum. Þá stuðla hverfisráð að kynningu skipulags, framkvæmda og þjónustu borgarstofnanna í hverfunum og beita sér fyrir því að samráð verði haft við íbúa, allt eftir eðli máls hverju sinni. Hverfisráð fá til kynningar auglýstar breytingar á skipulagi og umhverfi er snerta hverfið auk kynninga á stærri framkvæmdum og meginbreytingum á þjónustu. Til viðbótar, Hverfisráð geta gert tillögur til stjórnar eignasjóðs um forgangsröðun framkvæmda í hverfinu.
Tækifæri í fjölmenningu
Ég vil vinna með íbúum hverfisins í að bæta og breyta Breiðholtinu. Ég vil vinna með fólki sem vill sýna frumkvæði í að þróa hverfið og gera Breiðholtið sjálfbært hverfi þar sem allir Breiðhyltingar ganga stoltir um hverfið sitt. Það er svo margt jákvætt sem hægt er að byggja hér í hverfinu. Til dæmis má nefna velgengni ÍR í handbolta og frjálsum íþróttum og Leikni í fótbolta. Við eigum að styðja við þessi frábæru félög og tryggja það að þau haldi áfram að þróa innri starfssemi og ná árangri með börnum og unglingum sem skilur eftir sig í hverfinu. Svo eru einnig til áskoranir sem við þurfum að takast á við í sameiningu og búa til tækifæri úr þeim. Hér vil ég nefna fjölmenningu sem við búum við hér í hverfinu. Það er áskorun til okkar að finna leið til að koma innflytjendum og öllu sem þau hafa til að bjóða, sterkt inn í hverfisandann.
Menntun núna og fjölskyldumiðstöð
Borgaryfirvöld horfa til okkar og eru að stuðla að þróun innan hverfis, má þar nefna þjónustu sem veitt er í hverfinu. Til dæmis má nefna þróunarverkefni sem styrkt er af skóla- og frístundasviðinu í fjölmörgum leik- og grunnskólum hverfisins, sem eru að byrja að sýna árangur í starfinu með börnum og unglingum. Í þessu samhengi er rétt að nefna tilraunaverkefni sem er í fullum gangi og kallast “Menntun núna.” Verkefni miðar að því að auka og samþætta þjónustu og ráðgjöf tengda menntun fyrir þann hóp fullorðins fólks sem ekki hefur lokið formlegu námi. Að verkefninu kemur breiður hópur fólks, fulltrúar stéttarfélaga, samtaka atvinnulífsins, framhaldsskólar, háskólar, framhaldsfræðsla og Reykjavíkurborg, en formaður verkefnisstjórnar er Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri Breiðholts. Nýsköpunarmiðstöð FabLab er flutt í hverfið ásamt Nýlistasafninu. Við erum að vinna með miklum móð að koma af stað fjölskyldumiðstöð hér í hverfinu. Slík miðstöð mun bjóða íbúum upp á þverfaglega þjónustu á sviði heilbrigðis, velferðar, frístunda, menntunar og menningar. Áhersla miðstöðvarinnar er virk þátttaka og samstarf með fólkinu í hverfinu með forvarnir í brennidepli. Í þessari miðstöð mun fólk með ólíkar þarfir fá stuðning til þess að vinna að eigin vellíðan.
Þurfum að vinna saman af einlægni
Ég er komin tiltölulega stutt á leið í embættinu sem formaður Hverfisráðs en hef mikinn vilja til þess að fara langt með ykkur kæru Breiðhyltingar í að búa til betra og bætt Breiðholt. Við þurfum að vinna saman af einlægni í að byggja upp hverfi sem við eigum og viljum deila með öðrum. Framtíðin er björt í Breiðholti!