Fasteignaskattar lækka um 5%
Skattar á íbúa lækka og tómstundastyrkir hækka er grunnurinn í fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2015 og þriggja ára áætlun sem samþykkt var á fund bæjarstjórnar nýverið.
Helstu tíðindi úr áætluninni eru að fasteignaskattar lækka um 5% og tómstundastyrkir verða hækkaðir um 65%, fara í 50 þúsund krónur, en þeir voru 30 þúsund krónur á hvert barn. Þar með er Seltjarnarnesbær með hæstu styrki af þessu tagi á landinu. Fasteignaskattar lækka um 5% og verða nú 0,20% sem er með því lægsta á landinu. Niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum hafa einnig hækkað og eru nú 65 þúsund krónur með hverju barni. Inntökualdur barna í leikskóla bæjarins er við 14 mánaða aldur miðað við ágúst ár hvert.
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri segir fjárhagáætlun unna á samráðsfundum meiri- og minnihluta í bæjarstjórn. ,,Þær áherslur sem eru í fjárhagsáætlun bæjarins koma barnafjölskyldum vel og það er samstaða um að batnandi hagur bæjarsjóðs skuli komi fjölskyldu-fólki til góða”, segir Ásgerður og kveðst ánægð með að Nesið skuli vera í farabroddi á landinu hvað varðar tómstundastyrkina og lág leikskólagjöld. Á landsvísu eru skattar almennt lægstir á Seltjarnarnesi en útsvarið nemur 13,70%.
Sterk staða bæjarsjóðs
„Fjárhagsleg staða bæjarsjóðs er mjög sterk. Bærinn hefur greitt niður skuldir og engin ný lán hafa verið tekin undan farin ár. Rekstrarafgangur verður 8 milljónir króna, samkvæmt áætluninni. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er 54% sem er með því lægsta á landinu og fer lækkandi,“ segir Ásgerður. Hún þakkar góða rekstarafkomu starfsmönnum bæjarfélagsins sem hafa lagt sig fram um skilvirkan rekstur. Rúmur helmingur útgjalda aðalsjóðs bæjarins fer til fræðslumála. Þjónustan sem skólarnir veita er mjög góð, úttektir frá menntamálaráðuneytinu styðja það sem og árangur á samræmdum prófum borið saman við aðra skóla landsins.
Nýtt hjúkrunarheimili rís og ungmennin fá vinnu
Eins og bæjarbúar hafa eflaust tekið eftir hafa ýmsar framkvæmdir verið unnar á þessu ári, miklar viðhaldsframkvæmdir hafa staðið yfir sl. fjögur ár sem nema alls einum milljarði á tímabilinu. Nú er hafin vinna við undirbúning á byggingu hjúkrunarheimilis við Safnatröð en áætlaður kostnaður er rúmur milljarður. Þá má geta þess að á liðnu sumri störfuðu um 150 ungmenni 18 ára og eldri við ýmis störf hjá bænum en allir námsmenn sem leituðu til bæjarins um sumarstarf fengu starf. „Það er liður í sumarátaki bæjarins að unga fólkið fái vinnu í stað þess að ganga um atvinnulaust,“ segir Ásgerður og kveðst hafa orðið vör við almenna ánægju með þetta framtak bæjarins. Það kosti fjármuni en sé hluti af forgangsröðun sem taki mið af aðstæðum hverju sinni hvernig skattfé íbúanna er varið.