Myndavélin er mér alltaf innan seilingar

– segir Rúnar Gunnarsson ljósmyndari með meiru sem var að gefa út ljósmyndabók –

Rúnar Gunnarsson með myndavélina. Hún er óaðskiljanlegur hluti af lífi hans.

Myndirnar hafa talanda. Hver mynd segir sögu. Hver dráttur í myndefninu kallar til áhorfandans. Hann staðnæmist um stund og íhugar hvaða tilfinningar hrærast hið innra. Síðan flettir hann yfir til næstu síðu. Þar er önnur saga. Hvort sem myndefni er náttúran. Iðandi borgarlíf allt frá glæstum augnablikum til skúmaskota. Fólk á kaffihúsum. Hvað er það að gera. Sýna sig og sjá aðra. Ræða dag og veg. Sumir eru sérvitrari en aðrir. Láta það í ljósi. Með hreyfingum, látbragði eða í töluðum orðum. Dagurinn er á hreyfingu. Hvort sem menn eru að afhausa fisk um borð í togara, spila á hljóðfæri, sitja á kaffihúsi eða jafnvel á bekk undir misheiðum himni. Lífið fer hjá. Það heldur áfram. Allt kemur þetta fram í ljósmyndum Rúnars Gunnarssonar sem var að gefa út ljósmyndabók á dögunum. Hann kallar bókina Gullöldina. Rúnar hefur hrærst í mörgu í gegnum tíðina en myndavélin hefur aldrei verið langt undan. Nú fer hann út í daginn með Leicuna um hálsinn. Þótt sjónin hafi dofnað með árunum er athyglin rík. Hann skynjar myndefni þar sem aðrir sjá ekki. Þær myndir sem Rúnar birtir í Gullöldinni eru teknar í svarthvítu. Þá truflar liturinn ekki. Línurnar eru skírar. Stundum æpa þær á áhorfandann.

Gullöldin er önnur ljósmyndabók Rúnars. Hin fyrri kom út árið 1995. Hún nefndist Einskonar sýnir. Hún náði yfir fyrstu 35 árin á ljósmyndaferil hans. Síðan hafa nær þrír áratugir bæst við og Rúnar en enn að. Í þeirri bók hefur hann sama hátt og nú. Birtir aðeins svarthvítar myndir. Hann segir að þá eins og nú hafi áhugi sinn á að endurspegla mannlífið ráðið för. Stíllinn á myndunum sé sá sami. Kalla megi hana hreina ljósmyndun. Rúnar kveðst ekki nota tækni­brellur við vinnslu myndanna. Þetta sé ljósmyndun í sinni upprunalegustu mynd.

Vesturbæingur í Bólstaðarhlíð

Hvaðan er Rúnar. Hefur hann verið á endalaust vappi um Reykjavík og jafnvel fleiri borgir. Hann neitar því ekki en upplýsir hvaðan hann kemur. „Ég er Vesturbæingur. Ég bjó lengst af í Vesturbænum. Ég hef búið á Melunum, á Högunum og á Granda, með undantekningu í Hafnarfirði þar sem ég var í nokkur ár. Á síðustu árum ákváðum við hjónin að finna okkur þægilega íbúð fyrir heldra fólk. Við fundum hana í Bólstaðarhlíð 41 til 45. Þar eru íbúðir fyrir aldraða og samfélagshús. Við sjáum ekki eftir að hafa fest kaup á íbúð þar. Allt er innan seilingar. Ég get gengið í Kringluna þar sem ég hitti gamla og nýja félaga yfir kaffi, farið á Kjarvalsstaði og niður í bæ. Ekki nema 100 til 150 metrar í strætó. Mér finnst ég vera miðsvæðis.“

Yfir þúsund ljósmyndir 

Rúnar hefur komið víða við á lífs­leiðinni. Hann segir að ljós­myndun hafi þó alltaf verið hans aðal­starf og áhugamál. „Ég er sjaldan án myndavélarinnar. Ég fékk myndavél í fermingargjöf og ég hef verið með ljósmyndadellu síðan. Ljósmyndun hefur alltaf verið ástríða í mínu lífi. Að fanga augnablikið,“ segir hann.“ Á hann þá ekki mikið safn ljósmynda. „Ég á yfir 100 þúsund myndir á filmum og um 50 þúsund sem búið er að setja á stafrænt form. Ef ég ætti að ná að ganga frá öllu safninu á stafrænt form verð ég að ná því að verða 102 ára. Ég er lánsamur. Er að verða nær áttræður og enn við hestaheilsu. Ég fer daglega á stúfana að mynda borgarlífið. Aldrei að vita hvað mér tekst.“

Framliðnir í eftirgerð af umhverfi

Í Gullöldinni er að finna stutta sagnapistla og hugleiðingar um eitt og annað sem borið hefur fyrir og menn og málefni koma einnig við sögu. Þar sýnir Rúnar að hann er góður sagnamaður. Grípum niður í eina stutta frásögn hans eða hugleiðingu þar sem hann lítur yfir mörk lífs og hins dauðlega. 

„Oft læt ég mig dreyma um að eilífðin birtist í myndum mínum. Vissulega er göfugt að hafa háleit markmið en alvöru ljósmyndun er galdur og þeir sem hana stunda eiga á hættu að lenda í sálarháska.

Þokuslæðingur yfir mýrarflákum, rót­lausar sálir á sveimi. Lang­drukknir rónar láta flöskuna ganga þrátt fyrir að hún sé tóm og allt vín löngu búið. Ábúðarmiklir menn sitja við grænt borð og spila fjárhættuspil. Það munu þeir gera sleitulaust þar til þeir smám saman átta sig á því að peningar eru verðlausir á þessu tilverustigi. Veiðimenn berja fisklausa sprænu vissir um að hún væri gjöful laxveiðiá. Gleðifólk í rykföllnum krumpuðum sparifötum dansar þreytulegan vangadans en tónlistin er löngu þögnuð. Hér eru sálir hinna látnu í fjötrum fíkna og geta ekki haldið áfram vegferð sinni á æðra tilverustigi fyrr en fíknin hverfur, en það getur tekið langan tíma.

Hinir framliðnu eru hér í eftirgerð af umhverfi sem þeir þekktu þegar þeir voru á lífi.

Hér á Arnarhóli í bjagaðri smækkaðri mynd. Blekking rónanna við Kolaportið er á sínum stað. Þá er hér skemmtistaður sem líkist Vetrar­garðinum og fleiri kunnuglegir staðir.

Sýn þessi birtist mér fyrir tæpleg hálfri öld og hefur ekki liðið mér úr minni. Ljósmyndir mínar greina ekki alltaf muninn á draumi og veru­leik. Hugsanlega standa þær draumnum nær.“

Vilhjálmur Eyþórsson hrærir í kaffinu. Jörmundur Ingi gengur frá borði.

Skemmtilegast að mynda fólk 

Rúnar var 18 ára þegar Gísli J. Ástþórsson réð hann til ljósmynda­starfa. Þá byrjaði hann að vinna sem ljósmyndari fyrir Alþýðublaðið. „Ég fann fljótt að mig skorti faglega þekkingu á ljósmyndun. Ég fór því og lærði til ljósmyndunar“. Á þessum tíma frá því að Gísli réð hann hefur margt breyst og gerst. En hvað finnst honum skemmtilegast að mynda. Rúnar er fljótur til svars „Mér finnst skemmtilegast að mynda fólk. Fólkið er stór hluti af umhverfinu. Fólkið er lífið. Mér finnst einnig gaman að mynda umhverfið þar sem ég bý. Mannlífið í fjölbreytni borgarlífsins á ólíkum tímum dagsins. Maður er stöðugt að fanga nýtt augnablik sem er einstakt.“ Rúnar myndaði mikið úr kolakrananum á meðan hann stóð uppi við austurbakka gömlu hafnarinnar. „Hann var nokkurs konar kennileiti í borginni frá því hann var reistur 1927 og til ársins 1968 þegar hann var tekinn niður. Þá voru engir drónar sem hægt var fljúga yfir til taka myndir. Með því að príla upp í kranann mátti ná loftmyndum af miðborginni sem annars hefði ekki verið hægt.“

Hobbý að vera framkvæmdastjóri

Rúnar hefur ekki verið við eina fjöl felldur í gegnum lífið ef svo má komast að orði. Hann hefur sinnt ýmsum störfum og áhugamálum þótt ljósmyndunin hafi alltaf verið efst í huga hans. „Ég er ljósmyndari númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Rúnar og kveður fast að orði.“ Hann var starfandi ljós­myndari á Alþýðublaðinu, Viku­blaðinu og Fálkanum á sínum tíma. Eftir það var hann ráðinn sem kvikmyndatökumaður fyrir Ríkissjónvarpið. Hann vann þar um nær hálfrar aldar skeið. Tók kvikmyndir, stjórnaði útsendingum og endaði sem aðstoðar­fram­kvæmdastjóri. Í blaðaviðtali sem haft var við hann vegna útkomu bókarinnar Einskonar sýnir 1995 lét hann þá skoðun á sjálfum sér í ljósi að það væri hobbí hjá sér að vera aðstoðarframkvæmdastjóri sjónvarps. “Ég var með Sjónvarpinu frá byrjun. Það var ævintýri. Ég vann m.a. sem kvikmyndatökumaður, dagskrár­gerðarmaður og ég var framkvæmdastjóri í nokkur ár og lengst af var ég dagskrárstjóri innlendrar dagskrár. Ég á að mestu góðar minningar þaðan en mikið álag gat fylgt því. En ljósmyndarinn var alltaf efstur á blaði.”

Snigill 78

Rúnar átti sér annað áhugamál sem hann sinnti um lengri tíð eða þar til hann gaf út bókina Eins konar sýn út. Hann fékk ungur áhuga á mótorhjólum. Steig á bak og átti Harley Davidson um tíma. Hann seldi mótorhjólið til þess að kosta útgáfuna. Hann kveðst hafa séð eftir mótorhjólinu en andvirði þess hafi runnið til betri og merkilegri hluta. Að gefa út ljósmyndabók. „Ég var í Sniglunum. Var númer 74 í þeim ágæta félagsskap. Ég fór oft út á kvöldin að lokinni vinnu hjá Sjónvarpinu. Steig á bak hjólinu og fór um. Myndavélin var að sjálfsögðu með og náði ég ágætum myndum í þessum mótorhjólaferðum. Ég myndaði Sniglana líka.“  

Ekki tvöfalt líf heldur fimmfalt   

Rúnar segir að mótorhjólasportið hafi verið hina hliðin á sér. Þetta hafi verið tvöfalt líf. Líf í tveimur heimum. Raunar var þetta þó ekki tvöfalt líf hans heldur var lífið fjórfalt eða réttara sagt fimmfalt. En hvernig. „Við skulum byrja á lífi ljósmyndarans. Síðan réðst ég til vinnu hjá Sjónvarpinu. Það var atvinnan eftir að ég hætti að mynda fyrir blöðin. Mótorhjónasportið var hobbíið og ánægjan. Og svo var fjórða hlutverkið. Það var saxó­fónninn.“ Saxófóninn skýtur tíðindamaður inn. Rúnar lék á saxófón í mörg ár. Trúlega þekktastur á því sviði með hljómsveitinni Júpíters sem var stofnuð snemma árs 1989 og starfaði til 1993 en kom þó fram öðru hvoru eftir það þegar tilefni þótti til. Var Bill Clinton saxófónleikari og síðar forseti Bandaríkjanna fyrirmynd að saxófónleikaranum. „Nei mikið fremur Meatloaf í Rocky Horror. Jafnvel þótt saxófónleikarinn og mótarhjólamaðurinn Rúnar Gunnarsson hafi verið til á undan Rocky Horror.“ Enn ein hlið er til á Rúnari Gunnarssyni. Það er póstberinn. Ekki Páll heldur Rúnar. Á yngri árum greip hann í að bera út póst. Þegar hann lét af störfum hjá Sjónvarpinu leitaði hann á gamlar slóðir og greip í póstmanninn á nýjan leik. „Mér fannst góð hvíld eftir stjórnunarstörf og skrifstofuþjark að ganga einn um úti með póstinn. Og myndavélin var minn „Kötturinn Njáll“. Var að sjálfsögðu með í för.“

Kaffifélagar á sveimi

Marga svipi er að finna á síðum Gull­aldarinnar. Hinnar nýju bókar Rúnars. Athygli vekur að stjórnmálamenn þekja ekki pappír­inn. Þeir eru utan alfaraleiðar myndahöfundarins sem þó hefur farið um marga slóðir. Engu að síður eru mörg borgarþekkt og jafnvel þjóðþekkt andlit að finna. Rithöfundar og listamenn. Einnig sérvitringar og utangöngufólk í lífinu. Og kaffifélagarnir af Cafe París á meðan það var kaffihús. Úr Kolaportinu og síðast en ekki síst af Kaffi Tári í Kringlunni. Jörmundur Ingi Hansen fyrrum allsherjargoði og af stórum ættum hefur oft lent fyrir framan linsu Rúnars. Einnig Vilhjálmur Eyþórsson orðmeistari og þúsundþjalasmiður til margra ára. Valdimar Tómasson skáld. Stundum kallaður „Ljóða Valdi“. Albert Ríkharðsson kennari, Hörður Gunnarsson framkvæmdastjóri og heims­hornamaður og Galdra Tommi eða Tómas V. Albertsson sem ber titilinn seiðgoði hjá Ásatrúarfélaginu. Frá­föllnum mönnum bregður einnig fyrir. Degi Sigurðarsyni skáldi og lífskúnstner, Sigurjóni Jóhanns­syni leikmyndahönnuði og Gunnari Guðjónssyni listmálara og grá­sleppu­karli sem lék Stefán frá Möðrudal öllum öðrum betur. Andlit margra fleiri ber fyrir. Látinna sem lifandi. Að lokum velti tíðindamaður fyrir sér af hverju hann væri ekki á meðal andlitanna í bókinni. Hann komst að þrefaldri niðurstöðu. Hann væri ekki nógu gamall, ekki nógu skrítinn og ekki nógu ljótur. Bar þetta undir Rúnar sem tók þessu óvenjulega innleggi af glaðværð. Þannig er Rúnar. Fundvís á smátt sem stórt í manneskjunni.

Hundurinn er góður félagi.
Jörmundur Ingi fyrrum allsherjargoði prýðir margar síður í bók Rúnars enda myndvæn persóna.
Gamall vinur hvílir lúin bein í porti. Minning um liðna tíð.
Myndir Rúnar Gunnarsson.

You may also like...