Borgarbókasafnið og Gerðuberg sameinast

Gerðuberg-

Með sameiningu Borgarbókasafns og Gerðubergs opnast margvíslegir möguleikar til upplýsinga- og menningarstarfs í Breiðholti.

Borgarbókasafn Reykjavíkur fékk um áramót nýtt og aukið hlutverk við sameiningu þess við Menningarmiðstöðina Gerðuberg.

Meginmarkmið sameiningarinnar er að styrkja hlutverk starfsstaða Borgarbókasafns sem menningarmiðjur í hverfum borgarinnar með aukinni áherslu á viðburði og fræðslu árið um kring. Borgarbókasafnið er stærsta menningarstofnun Reykjavíkurborgar og þar starfa 110 manns. Áætlað er að 695 þúsund gestir heimsæki safnið á þessu ári sem er um 2.000 manns á degi hverjum. Áhersla er lögð á Borgarbókasafnið sem þriðja staðinn; griðastað í amstri dagsins þar sem hægt er að njóta, læra, taka þátt og styrkja andann. Við dagskrárgerð er einkum horft til barnamenningar, fjölmenningar og alþýðumenningar. Þessar áherslur endurspegla vel yfirskrift ársins á menningar- og ferðamálasviði sem er „Fjölbreytt menning | friðsæl borg“.

Breyttar áherslur

Nýtt merki Borgarbókasafnsins og heiti starfsstaða bera vott um breyttar áherslur þar sem útlána- og upplýsingaþjónusta og viðburða- og sýningarhald helst í hendur og skapar áhugaverða upplifun fyrir gesti. Yfirheiti sameinaðra stofnana er Borgarbókasafnið og undirheitin gefa til kynna hvern og einn starfsstað og kallast nú menningarhús til marks um aukið hlutverk. Menningarhúsin eru kennd við götur eða staðarheiti og eru í Grófinni, Gerðubergi, Spönginni, Kringlunni, Árbæ og Sólheimum. Margt styður við þessa breytingu, s.s. nýtt húsnæði safnsins í Spönginni, endurbætur á húsnæði Gerðubergs, fyrirhuguð stækkun í Grófinni, bygging á nýju menningarhúsi í Úlfarsárdal sem verður samtengt skóla, sundlaug og íþróttamannvirkjum og samrekið skóla- og almenningsbókasafn í Norðlingaholti.

Margt á döfinni

Margt spennandi er á döfinni á árinu; um 30 sýningar af ýmsum toga og má þar m.a. nefna málverkasýningu systranna Söru og Svanhildar Vilbergsdætra, Stund milli stríða, sem sett verður upp í Gerðubergi og sýningu Freyju Eilífar Logadóttur í Grófinni á bókverki og litabók sem inniheldur útlínuteikningar þekktra verka eftir íslenska myndlistarmenn. Í haust munu sögupersónurnar Litla skrímslið og Stóra skrímslið úr bókum þríeykisins Áslaugar Jónsdóttur, Rakelar Helmsdal og Kalle Güettler lifna við í litríkum söguheimi sem settur verður upp í Gerðubergi. Boðið verður upp á fjölbreytta fræðslu og margs konar viðburði fyrir alla aldurshópa, s.s. um bókmenntir, tungumál, handverk, tónlist, sagnamennsku, leikhús og heimspeki, svo fátt eitt sé nefnt auk fastra dagskrárliða. Borgarbókasafnið tekur virkan þátt í hátíðahaldi borgarinnar og býður gestum upp á spennandi viðburði á Vetrarhátíð, Barnamenningarhátíð og Menningarnótt.

Fjölmenningarstarfið vaxið

Fjölmenningarstarf Borgarbókasafns hefur vaxið og dafnað og er nú afar fjölbreytt og þróttmikið. Verkefnin eru unnin í samstarfi við ýmsa aðila í samfélaginu, stofnanir, félög og einstaklinga, sem er liður í að auka þátttöku borgarbúa um alla borg. Dæmi um verkefni sem verða þróuð áfram og á fleiri stöðum eru Söguhringur kvenna, Café Lingua, „Heilahristingur“ – heimanámsaðstoð og „Fljúgandi teppi“ – menningarmót. Helstu nýjungar á sviði fjölmenningar er menningarmót í tungumálakennslu þar sem virkjaður verður sá fjársjóður sem felst í tungumálaforða tví- og fjöltyngdra nemenda.

You may also like...