KR að vinna með Búseta á Keilugranda

KR-heimilið

Aðstöðuleysi hamlar starfssemi KR.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi þróun lóðarinnar á Keilugranda 1 í samvinnu við Búseta. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR segir í samtali við Vesturbæjarblaðið að hafin sé vinna við skipulag KR svæðisins og hafi borgarráð samþykkt erindi KR og vísað til Umhverfis- og skipulagssviðs sem jafnframt er falið að vinna að málinu með íþrótta- og tómstundasviði.

Gylfi bendir á að aðstöðuleysið sem KR hefur glímt við í mörg ár sé það sem helst skyggi á starfsemi félagsins. Ekkert hafi verið framkvæmt á KR svæðinu síðan 1999. „Í dag getum við ekki mætt þörfum allra deilda um æfingatíma og því miður þurfa margir unglingar að æfa seint á kvöldin. Sem dæmi um aðstöðuleysi þá var síðastliðið haust ekki hægt að verða við ósk handknattleiksdeildar KR þess efnis að meistaraflokkur kvenna hæfi æfingar og keppni. Sama gildir um félagsaðstöðuna almennt sem brýnt er að bæta þannig að við getum tekið vel á móti forráðamönnum barna og fleirum þegar börn þeirra eru að keppa eða ef félagssamtök eða aðrir vilja halda fundi eða veislur.“

Gylfi segir að forsvarsmenn félagsins hafi í nokkurn tíma lagt áherslu á að SÍF reiturinn svokallaði eða Keilugrandi 1 myndi nýtast félaginu og hafi KR átt í samstarfi við Búseta um sameiginlega uppbyggingu á reitnum. Í júlí mánuði 2013 hafi framkvæmdastjórar Búseta og KR sent sameiginlegt erindi til borgaryfirvalda um uppbyggingu á reitnum. En eftir vandlega skoðun þá varð það niðurstaða innan aðalstjórnar KR að niðurgrafið íþróttahús nokkurs konar fjölnotahús yrði mjög kostnaðarsöm framkvæmd en til að hægt væri að fara í slíkar framkvæmdir yrðu þær að vera innan raunhæfs kostnaðarramma. Þannig að niðurstaða allrar þessarar vinnu er að horfa til þess möguleika sem liggur í markvissri notkun reitsins í tengslum við útivist, hreyfingu og aðra lýðheilsueflingu. Í erindi sem KR sendi til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í október s.l. og tekið var fyrir í borgarráði í nóvember kom fram skýr vilji KR inga að koma að mótun og útfærslu reitsins þannig að hann nýttist fjölbreyttum hópi íbúa og íþróttaiðkenda í vesturbænum t.d. með nokkurs konar lýðheilsubraut, gervigras“batta“velli og körfuboltavelli svo eitthvað sé nefnt. Gylfi segir að til skemmri tíma er litið sé brýnasta verkefnið að búa betur að knattspyrnumönnum yfir vetrarmánuðina með knattspyrnuhúsi og sú vinna sé í gangi. Reykvískir knattspyrnumenn séu þó algerir eftirbátar annarra í öðrum sveitafélögum hvað vetraraðstöðu varðar. Gylfi bendir á að KR hafi orðið 115 ára á síðasta ári og starfsemi félagsins hefur sjaldan eða aldrei verið öflugra. Það séu ekki mörg félög á Íslandi sem hafa verið starfandi á 19. öld, 20. öld og á þeirri 21. Innan KR er stundað blómlegt íþrótta- og félagsstarf í 12 félagsdeildum. Skoðanir munu nokkuð skiptar á meðal KR-inga um framtíðaruppbyggingu félagssvæðisins og sumir munu fremur vilja einbeita sér að núverandi félagssvæði KR í stað samstarfs við Búseta við Keilugranda.

You may also like...