Nágrannavarsla við 35 götur
Nú taka 35 götur í Breiðholti þátt í verkefninu. Ný tölfræði um þróun afbrota í Breiðholti var kynnt á fundinum og einnig sagt frá nýju verkefni um heilsueflandi Breiðholt, en því verður hleypt af stokkunum á næstu vikum í tengslum við innleiðingu forvarnarstefnu borgarinnar í hverfinu.
Nágrannavarsla er skipulögð forvörn þar sem íbúar taka höndum saman til þess m.a. að sporna við innbrotum og eignatjóni. Sett eru upp sérstök skilti við göturnar sem gefur nágrannavörsluna til kynna. Samvinna íbúa af þessu tagi þekkist víða erlendis. Verkefnið felur í sér að íbúar viðkomandi götu eða götuklasa séu í góðum tengslum. Þeir fá leiðbeiningar og fræðslu varðandi nágrannavörslu á fundi sem fulltrúar frá Þjónustumiðstöð Breiðholts og lögreglunni hafa umsjón með. Beiðni um að gata verði viðurkennd nágrannavörslu gata fer þannig fram að ef allt að 80% heimila við götu eða ákveðið íbúðasvæði lýsa yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu senda þau hverfisráði Breiðholts þátttökubeiðni ásamt styrkbeiðni ef það á við. Þátttökubeiðnin er tekin fyrir á fundi ráðsins þar sem einnig er tekin ákvörðun um skiptingu kostnaðar milli hverfisráðs og íbúa þegar sótt er um styrk. Íbúar þurfa að velja sér götustjóra sem er tengiliður við þjónustumiðstöð og íbúa. Starfsmenn borgarinnar setja upp skiltin sem tákna að viðkomandi gata sé nágrannavarin. Kostnaður er greiddur af íbúum og hverfisráði í samræmi við ákvörðun þar um. Alls 35 götur Í ársbyrjun 2014 voru 35 götur þátttakendur í verkefni um nágrannavörslu í Breiðholti. Hér eru þær í stafrófsröð: Akrasel, Brúnastekkur, Fornistekkur, Fremristekkur, Geitastekkur, Gilsárstekkur, Hólastekkur, Hryggjarsel, Jakasel, Jórusel, Kambasel, Keilufell, Kleifasel Klyfjasel, Krummahólar, Lambasel, Lambastekkur, Lágaberg, Látrasel, Lindasel, Ljárskógar, Lækjarsel, Melsel, Neðstaberg, Rituhólar, Rjúpufell, Skriðustekkur, Staðarsel, Starrahólar, Stuðlasel, Trönuhólar, Unufell 1 til 42, Urðarstekkur, Völvufell 24 til 42 og Þjóttusel.