Garðar fékk fálkaorðuna

Garðar V. Guðmundsson með orðuna ásamt forsetahjónunum, Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid.

Garðar Guðmundsson stofnandi Íþróttafélagsins Gróttu hlaut fálka­orðuna á nýársdag fyrir framlag til íþrótta- og félagsstarfs. Þegar Garðar bjó á Seltjarnarnesinu var þar gríðarleg uppbygging. Þetta var á árunum 1960 til 1970 og mörg hundruð manns flutti þangað nánast á hverju ári. Margt af því var ungt fólk með börn.

Garðar hafði þá verið knatt­spyrnudómari fyrir Val í á annan áratug og sá fljótlega að skipulagt íþróttastarf vantaði á Seltjarnarnesi. Hann dreif í því að hóa krökkunum saman á æfingar á fyrir fram ákveðnum tímum og svo fór að hann stofnaði Íþróttafélagið Gróttu þann 24. apríl árið 1967. Voru þá um 130 strákar farnir að æfa undir handleiðslu Garðars og má segja að hann hafi verið upptekinn nánast öll kvöld við æfingar og keppni. Anna María kona hans studdi hann ávallt með ráðum og dáð. Hún saumaði m.a. Gróttu merkið í fyrstu búninga Gróttu.

Þó að megnið af þeim sem æfðu knattspyrnu í þá daga væru drengir voru líka nokkrar stúlkur sem voru áhugasamar.  Garðar leyfði þeim að vera með á æfingum sem segir allt sem segja þarf um framsýni hans. Ein þessara stúlkna, Erna Lúðvíksdóttir, komst síðar í landsliðið bæði í fótbolta og handbolta og bjó þá að því að hafa fengið að æfa með strákunum.

Er enn að

Garðar þjálfaði marga flokka í Gróttu í áratugi og tók aldrei greiðslu fyrir. Ekki eina krónu. Hann tók síðan að sér þjálfun eldri flokks Gróttu árið 1984 og gegnir því starfi enn 36 árum síðar. Hann skipuleggur æfingar, æfingarleiki og keppnisferðir auk þess að velja liðið hverju sinni og sjá um inn á skiptingar. Þá gefur hann einnig öllum leikmönnum einkunn fyrir hvern einasta leik og leggur þær síðan saman fyrir uppskeruhátíðina sem ávallt er haldin heima hjá Garðari og Önnu á haustin. Þar kunngerir hann hver var bestur þetta árið, markahæstur.  Fylgir þessu eðlilega gríðarleg skriffinnska og handskrifar Garðar allt sem og reiknar út því að tilraunir til að tölvuvæða Garðar hafa mistekist. Íþróttafélagið Grótta er í dag í næst efstu deild í knattspyrnu og heldur úti öllum flokkum bæði fyrir stráka og stelpur. Knattspyrnudeildin er öflug en auk þess er rekin handknattleiksdeild í Gróttu sem oft hefur átt lið í efstu deild karla og kvenna sem og geysisterk og fjölmenn fimleikadeild. Samtals eru iðkendur hjá Gróttu í dag 1.180 sem er auðvitað með ólíkindum í ekki stærra bæjarfélagi. Það sýnir hvað öflugt íþróttastarf er og mikilvægi þess sem forvarnarstarf er óumdeilanlegt.  Allt þetta er sprottið af frumkvæði og atorku Garðars. Garðar fékk gullmerki Gróttu árið 1987 og er heiðursfélagi frá árinu 2002. Hann sat auk þess til  margra ára í stjórn UMSK.

Taflfélag  Seltjarnarness

En Garðar stofnaði ekki eingöngu Íþróttafélagið Gróttu. Hann stofnaði Taflfélag Seltjarnarness árið 1977 og var þar í stjórn, þar af formaður í 10 ár. Félagið hélt uppi öflugu skákstarfi á Seltjarnarnesi áratugum saman og eignaðist m.a. Íslandsmeistara árið 1983, Hilmar Karlsson. Garðar lét ekki staðar numið hvað skákina varðar því hann hefur verið formaður skákfélags eldri borgara Æsir frá 2012 og er enn að. Þar hittast menn að minnsta kosti einu sinni í viku og tefla auk þess að njóta samvista. Garðar sat í stjórn Skáksambands Íslands um nokkurra ára skeið.

You may also like...