Endurvekja þarf foreldrastarfið

— segir Helgi Eiríksson framkvæmdastjóri Miðbergs —

Helgi Eiríksson framkvæmdastjóri Miðbergs.

Helgi Eiríksson framkvæmdastjóri Miðbergs er hreinræktaður Breiðhyltingur. Hann flutti fimm ára gamall með foreldrum sínum í nýbyggða blokk við Súluhóla. Ég var hér í meira en tvo áratugi. Hann hóf skólagönguna í Hólaborg síðan tók Hólabrekkuskóli við. Þaðan lá leiðin í næsta hús ef svo má segja sem er Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Hann kynntist félagsmiðstöðvastarfinu ungur. Fór stundum yfir í Fellahelli en á þeim tíma var ekki algengt að krakkar úr Hólunum færu út í Fell. Árið 1998 hélt hann til Danmerkur þar sem hann fór í nám sem kallast „fridtidapedagogik“ en þá var ekkert nám að finna sem snýr að þessum fræðum hér á landi. Helgi hefur aldrei farið langt frá ungmennastarfinu. Hann kom til starfa hjá Miðbergi haustið 2002. Var fyrst í hálfu starfi en hefur verið framkvæmdastjóri þar um árabil. Nú starfa öll frístundaheimilin í Breiðholti innan Miðbergs og þar hefur margt verið á dagskrá á undanförnu. Einkum við að efla frístunda- og forvarnarstarf og fá sem flest ungmenni til þátttöku. Breiðholtsblaði leit við hjá Helga á dögunum.

Talið barst fyrst að frístundakortinu en það verkefni er nú um tveggja áratuga gamalt. Helgi segir að frístundakortið sé eitt af fyrstu verkefnunum sem hann kom að hjá gamla Íþrótta- og tómstundaráði. „Þetta var upphaflega kosningamál hjá Framsóknarflokknum. „Bingi“ Björn Ingi Hrafnsson var formaður ÍTR um tíma og ýttu þessu áfram. Við vorum tveir sem fengum þetta verkefni. Annars vegar gamall starfsmaður Gísli Eggertsson og ungi maðurinn sem þá var ég. Á ég ekki bara að vera heiðarlegur og segja að Gísli hafi gert 98% og ég 2%. Hann tók þetta verkefni alveg upp á arma sína og bjó þetta kerfi raunverulega til. Þetta var hugsað sem stjórntæki til þess að hvetja til meiri tómstundaþátttöku barna og ungmenna.“ Helgi segir að allt frá því að kortið fór í notkun hafi verið fylgst með nýtingu þess. „Við urðum fljótt var við að nýting kortsins var verst í Breiðholti af öllum hverfum í Reykja­vík. Þetta var ákveðin áskorun fyrir okkur sem vorum að vinna í barna- og ungmennamálum í hverfinu. Við höfum í gegnum tíðina verið með allskonar verkefni tengdum því. Við höfum fengið fjármuni úr frístundakortssjóðnum til að byggja upp allskonar gjaldfrjálst starf fyrir krakka í hverfinu. Starf sem var tengt við áhugasvið þeirra og fleira. Þetta starf datt niður þegar bankahrunið varð 2008.“

Frístundir í Breiðholti

Helgi segir að árið 2021 hafi orðið til merkilegt verkefni sem heitir Frí­stundir í Breiðholti. Þetta hafi farið af stað sem tilraunaverkefni sem nú sé búið að ákveða að framlengja. „Þetta verkefni gengur út á að auka nýtinguna á kortinu eða með öðrum orðum að fjölga þeim börnum sem notfæra sér að taka þátt í íþróttum eða öðru tómstundastarfi. Við vorum búin að fara ýmsar leiðir til að koma þessu af stað. Skoða eitt og annað en komumst að raun um að þetta er fyrst og fremst „maður á mann“ vinna. Að ná sambandi við krakkana og foreldra þeirra. Kynna þeim kortið og hvernig á að nota það en einnig að setjast niður með þeim og finna út hvað þau vilji gera. Jóhannes Guðlaugsson sem er lesendum Breiðholsblaðsins að góðu kunnur heldur utanum og stýrir þessu verkefni. Ástæða þess að við getum gert þetta er að kennar­arnir bæði umsjónarkennarar og frístundastarfsfólk hafa lagt mikla vinnu í að leggja áhugasviðskanna­nir fyrir krakkana. Kanna hvað þau eru að gera og hvað þau langar til að gera. Að nálgast þá krakka sem eru óvirkir. Þetta má gera með því að hvetja þau til að taka þátt í því sem er í boði en einnig að komast að því hvað hverfið þurfi að bjóða upp á til að auka þátttökuna.“ 

Fjáröflunarsalan er í fullu gildi

Talið berst að börnum nýbúa. Fólks sem flutt hefur frá öðrum löndum og sest að í Breiðholti. Hvort börn af öðrum uppruna nýti sér síður þessa möguleika. Helgi segir að þau nýti sér kortið minna er fari vaxandi. „Við sem alin erum upp hér á landi vitum hvað frístunda­kortið er en það þurfi að upplýsa fólk sem kemur hingað annars staðar að um þessa möguleika sem það þekkir ekki frá fyrri heim­kynnum. Frístunda­kortið leysir þó ekki allan vanda. Frístundakortið er mjög góð aðstoð en síðan vill stundum gleymst að það nær ekki að greiða nema hluta af því sem tómstundirnar kosta. Kortið dugar til þess að greiða æfinga­gjöld en þá eru búnaður, ferða­lög og keppni eftir. Við búum að þeirri hefð hér á landi að fjölskyldur senda út pósta til þess að safna fyrir ferða- og keppnis kostnaði krakka. Þetta getur verið erfiðara fyrir fjölskyldur af erlendum uppruna sem eiga sér ekki sama bakland í kaupendum.“ Helgi segir að tilkoma Costco hafi aðeins skemmt klósettpappírs­söluna en aðrar vörur hafi komi í staðinn. „Þessi sölumennska er því áfram í fullu gildi.“  

Fjölmenning er einkenni Breiðholtsins

Helgi hefur fylgst með Breiðholti allt frá bernsku þótt hann hafi flutt sig rétt yfir lækinn eða öllu heldur Elliðaárnar en hann býr nú Árbæjarmegin þeirra. Hann segir fjölmenninguna vera eitt helsta einkenni Breiðholtsins. Fólk frá mörgum löndum og menningarsvæðum hafi sest þar að. Lang flest af þessu fólk sé fjölskyldufólk sem komi til þess að skapa sér heimili og vinnu. Verða hluti af umhverfinu. Þetta er ekki vandamálafólk. „Við sjáum lítið af því þótt í stórum hópum geti alltaf leynst fólk sem rekist illa. Verkefnið Frístundir í Breiðholti er beinlínis tilkomið vegna fólks sem þekkir ekki nægilega til þeirra möguleika sem lífið hér bjóði. Reynslan sýnir að það lærir að notfæra sér þá, en til þess þarf að kynna fyrir því hvað er í boði.“

Stóraukinn árangur í frístundastarfi

Helgi segir gleðiefni hvað góður árangur hafi náðst og hversu mikil þátttaka í frístundum hafi náðst í Breiðholti. Bæði í starfi félagsmiðstöðvanna sem öðru frí­stundastarfi. „Þegar ég kom að þessu starfi voru einhverjir tugir á hverju frístundaheimili. Stundum um 20 börn. Í dag herfur fjöldinn margfaldast. Ekkert frístunda­heimilanna er með undir 100 börnum. Líka er athyglisvert hvað eldri börn, börn í þriðja og fjórða bekk eru farin að sækja í frístundastarfið. Þetta sýnir að mikil þörf er fyrir frístundaheimili fyrir börn á grunnskólaaldri og það er líka ákveðin viðurkenning á því fagstarfi sem við höfum verið að vinna. Börnin væru ekki að sækjast eftir þessu nema af því þeim finnst það gaman. Þátttakan er mjög góð hvort sem um er að ræða frístundaheimili eða starf félagsmiðstöðvanna.“  

Endurvekja þarf foreldrastarfið 

Helgi víkur að forvarnar­málunum. Hann segir að áhyggjur hafa vaknað af að slakað hafi verið á í þeim málum í kjölfarið á covid. Bæði foreldrum og fólki almennt hafi liðið illa yfir því hversu börn voru einangruð vegna sóttvarna­aðgerða. Því hafi beislinu verið sleppt of mikið af þeim. Gleymst hafi að setja girðingarnar upp. Með samstilltu átaki foreldra og stofnana náðum við miklum árangri. Svo miklum að hann vakti heims­athygli.“ Helgi rifjar upp þá tíma þegar ung fólk safnaðist saman stefnulaust um helgar niðri í miðbæ og víðar og hafði lítið annað að gera en að drekka. Unglingadrykkja var mikil og var vandamál. „Við erum langt frá því að vera komin aftur á þann stað en sjáum engu að síður afturför í þessum málum sem sýnir að við höfum slakað aðeins of mikið á. Og þá koma gömlu gildin upp. Foreldrar þurfa að virða útivistar­tíma. Við þurfum að endurvekja foreldrafélögin í skólunum og foreldraröltið í hverfunum sem hefur dottið upp fyrir að verulegu leyti. Við þurfum að endurvekja samtal foreldra. Þau verða að tala saman því allir sem hafa átt börn kannast við setninguna um að allir megi það nema ég. Foreldrarnir eru í lykilhlutverki ef við ætlum að ná árangri í forvörnum. Þegar við náðum góðum árangri á sínum tíma þá studdu stofnanir við en foreldrar léku aðalhlutverkið.“   

Fjölbreytileikinn er skemmtilegur

Talið berst aftur að aðfluttu fólki. Helgi kveðst ekki vera með nákvæmar tölur hjá sér um fjölda þess en hlutfall barna af erlendum uppruna í Breiðholti sé orðið mjög hátt. „Fjölbreytileikinn er skemmtilegur en honum fylgja líka áskoranir. Margir eru fljótir að laga sig að umhverfi og mannlífi og ná fljótt að lifa góðu lífi. Ég get nefnt að í Suðurmiðstöð í Mjóddinni starfar nokkuð af fólki sem flutt hefur hingað til lands og stendur sig frábærlega vel.“ Helgi segir að tungumálið vefjist fyrir sumum einkum til að byrja með. Eðlilega því íslenskan sé ólík öðrum tungumálum og erfið mörgum. Margir nái þó fljótt góðum tökum á tungumálinu. Pólska sé til dæmis mjög ólík íslensku en margir Pólverjar séu þó fljótir að læra að bjarga sér og margir verði altalandi á íslensku. Asíutungumálin eru enn ólíkari en það hjálpi mörgu fólki þaðan að kunna eitthvað fyrir sér í ensku. Málið er að fólk byrji að tala. Sé ekki feimið og að við vanmetum það ekki. Þá komi æfingin.“ Helgi segir að við getum ekki lokað augunum fyrir því að fólk sem flutt hefur til landsins og er að flytja sé fólkið sem drífi hagkerfið áfram. „Ég spyr bara hvar við værum stödd í verklegum framkvæmdum, bygginga­framkvæmdum og uppbyggingu stoðkerfa að ég tali nú ekki um ferðaþjónustuna sem er mikill gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur án þessa fólks. Starfið í Breiðholti miðar að því að auðvelda því að laga sig að nýju umhverfi.“

You may also like...