Borgarstjóri og borgarstjórnarfundur í Gerðubergi

Dagur Gerudberg 1 1

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í hópi borgarstarfsfólks í Breiðholti. Fyrir framan hann er Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri í Breiðholti.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri flutti skrifstofu sína tímabundið í Breiðholtið síðari hluta apríl mánaðar. Skrifstofa borgarstjóra var í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í tvær vikur.

Þetta er í annað sinn sem skrifstofa borgarstjóra er flutt tímabundið í Gerðuberg en Jón Gnarr flutti hana þangað um tíma á síðasta kjörtímabili. Dagur átti meðal annars fundi með starfsfólki stofnana Reykjavíkurborgar í Breiðholti og heimsótti fyrirtæki í hverfinu á meðan á dvöl hans stóð. Miðvikudag 22. apríl var boðað til opins hverfafundar með íbúum í Breiðholti og var fundurinn haldinn í Fellaskóla. Til umræðu á fundinum var flest sem tengdist hverfinu og fólk hafði áhuga á. Rætt var um framkvæmdir, þjónustukannanir og hverfisskipulag sem er ný skipulagsáætlun fyrir öll hverfi Reykjavíkur. Hverfisskipulaginu er ætlað að auðvelda skipulag, áætlanagerð og hvetja fólk til að hafa aukin áhrif á hverfið sitt. Þá var borgarstjórnarfundur haldinn í Borgarbókasafni – menningarhúsi Gerðubergi en alla jafna eru fundir borgarstjórnar haldnir í borgarstjórnarsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur en í tilefni þess að borgarstjóri var með starfstöð sína í Breiðholtinu var ákveðið að efna til fundarins þar. Þess má til gaman geta að frá stofnun bæjarstjórnar í Reykjavík árið 1836 hafa fundir bæjar- og borgarstjórnar verið haldnir á sex stöðum. Í Landsyfirréttarhúsinu Austurstræti 22, í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, í Góðtemplarahúsinu við Vonarstræti, í Eimskipafélagshúsinu við Pósthússtræti, Skúlatúni 2 og Ráðhúsi Reykjavíkur. Tveir sameiginlegir fundir borgarstjórnar með bæjarstjórn Akureyrar hafa einnig verið haldnir á Akureyri.

Borgarstjornarfundur Breidholt 2 1

Frá fundi borgarstjórnar í Gerðubergi. Fremst á myndinni eru Skúli Helgason og Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúar.

You may also like...