Stærsta byggingarverkefni í miðborginni til þessa
Forráðamenn Landstólpa þróunarfélags og borgarstjórinn í Reykjavík nýttu sumardaginn fyrsta til þess að taka fyrstu skóflustunguna að stærsta byggingarverkefni sem fram til þessa verður ráðist í á Miðborgarsvæðinu til þessa.
Samkvæmt deiliskipulagi má byggja húsnæði á reitum eitt og tvö við Austurbakka allt að 21.400 fermetra ofan jarðar auk bílakjallara. Í hinum væntanlegu byggingum er gert ráð fyrir íbúðum og einnig fjölbreyttu húsnæði fyrir atvinnustarfsemi á borð við verslanir, veitingahús, skrifstofur og þjónustu. Auk þess verður byggður bílakjallari á reitnum sem verður samtengdur öðrum bílakjöllurum á lóðinni, allt að Hörpu. Áætlað að sameiginlegur kjallari geti rúmað allt að eitt þúsund bíla í stæði. Bílastæði sem var á þessum reitum hefur nú verið lokað en aðstaða fyrir einkabíla mun endurheimtast með tilkomu bílakjallara undir byggingunum. Í júlí á liðnu ári undirrituðu Reginn og Landstólpar þróunarfélag kaupsamning um kaup Regins á öllu verslunar- og þjónusturými á umræddum byggingarreitum eða um átta þúsund fermetra af útleigurými sem að mestu er staðsett á fyrstu og annarri hæð bygginganna. Ætlunin er síðan að leigja verslunar- og þjónusturými auk aðstöðu fyrir skrifstofur og starfsstöðvar í þessum hluta bygginganna. Smáralind er einnig í eigu Regins og hugmyndir eru um að tengja starfsemi, rekstur og markaðsstarf Smáralindar við þessa nýju verslunarmiðstöð. Áætlað er að framkvæmdum á reitnum ljúki og byggingarnar standi tilbúnar haustið 2018. Með þessum framkvæmdum er mætt vaxandi þörf fyrir verslunar- og þjónustusvæði í miðborginni, íbúðum fjölgað í takt við aukna eftirspurn eftir búsetu og fengin lausn á bílastæðavanda.