Gamla konan sá fyrir að ég yrði þingmaður

– segir Tómas A. Tómasson alþingismaður

Tómas A. Tómasson alþingismaður.

Tómas A. Tómasson tók sæti á Alþingi að loknum þingkosningum á liðnu hausti. Hann gaf kost á sér í fyrsta sæti fyrir Flokk fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Flokkurinn vann góðan sigur í kosningunum og á nú þingmann í öllum kjördæmum landsins. Tómas hefur nokkra sérstöðu sem þingmaður vegna þess að hann er eini maðurinn í þingsögunni sem hefur verið kjörinn á þing eftir sjötugt. Nokkrir þingmenn hafa setið á svipuðum aldri á Alþingi en hafa þá verið kjörnir fyrir sjötugt. Tómas segir að þessi hugmynd hafi vaknað með sér fyrir 44 árum og hann féllst á að spjalla við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. 

Hvað var það í lífi Tómasar 1978 sem gerði það að verkum að hann tók ákvörðum um að stefna að þingmennsku? “Ég ákvað að að sækjast ekki eftir þingmennsku fyrr en ég taldi mig orðinn það fjárhagslega sjálfstæðan að ég þyrfti ekkert að eiga undir öðrum. En það er ákveðin saga á bak við þetta,” segir Tómas og tíðindamaður gerist forvitinn. 

Gamla konan

“Á þessum tíma var ég að vinna sem þjónn á veitingastað Deerfield Beach Country Club golfklúbbi sem er staðsettur norður af Miami á Flórída jafnframt því að vera í háskólanámi. Þetta var golfklúbbur fyrir ríka fólkið. Ameríkanar og Kanadamenn komu gjarnan að norðan og dvöldu þarna yfir vetrartímann. Margir miðuðu við að fara heim eftir páska þegar sumarið var farið að nálgast í heimkynnum þeirra. Þarna var eitt sinn vel stæður maður sem hafði tekið móður sína með ásamt fjölskyldunni. Hún var norsk og bjó í Noregi og var í heimsókn hjá syni sínum. Þegar gamla konan áttaði sig á því að ég var frá Íslandi þá vildi hún tala heilmikið við mig. Hún var alltaf að kalla á mig til að spjalla, vitandi um skyldleika Noregs og Íslands. Svo var það eitt sinn er kvöldið var búið að hún kallaði sérstaklega á mig. Hún tók í báðar hendurnar á mér og horfði grafalvarleg í augun á mér og sagði orðrétt við mig “One day you will be in Parliament”. Þessi kona var hreint ekki galin. Hún var alveg með sitt á hreinu. Á þessari stundu ákvað ég að fara i stjórnmálin þegar þar að kæmi. Ég hitti Steingrím Hermannsson 1991 sem þá hafði m.a. verið forsætisráðherra. Stjórnmál bárust í tal og hann sagði að faðir sinn Hermann Jónasson, sem einnig hafði verið forsætisráðherra, hefði sagt við sig að fara ekki í stjórnmál fyrr en hann væri orðinn fjárhagslega sjálfstæður og engum háður. Ég er í dag fjárhagslega sjálfstæður og minn tími virtist kominn er fundum okkar Ingu Sæland bar saman. Ég er 72 ára gamall og var kosinn inn á Alþingi í september sl. Það hefur aldrei gerst áður að svo fullorðinn maður hafi verið kosinn í fyrsta skipti á Alþingi. Eldri menn hafa reyndar setið á þingi en hafa þá hlotið kosningu innan við sjötugt. Í dag er ég eini maðurinn sem er kominn yfir sjötugt á þinginu”. 

Skemmtileg vinna 

Hvernig var svo að koma inn í þingið? Öðruvísi en þú áttir von á?  

“Þetta er skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið um ævina og er ég þó búinn að gera margt skemmtilegt. Allir eru mjög almennilegir og starfsfólkið boðið og búið að hjálpa manni. Maturinn er í hæsta gæðaflokki og allur aðbúnaður er eins og best verður á kosið og þingmenn hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu eru sérstaklega hlýlegir og tillitssamir þótt menn kunni að hafa sitt hvora skoðunina. Skoðanaskiptin koma einkum fram inn í þingsalnum og í ræðustólnum, en þegar út er komið eru allir vinir.”  

Erum öll á sömu línunni

Tómas víkur að Flokki fólksins sem hann situr á þingi fyrir. “Í okkar flokki ríkir sérdeilis góður andi. Ég þakka það Ingu Sæland fyrst og fremst. Hún er mjög afgerandi leiðtogi flokksins og heldur okkur þétt saman eins og sannri forystumanneskju ber. Við oddvitar flokksins í kjör-dæmunum sex erum eðlilega með margvíslegar skoðanir, en komum okkur alltaf saman um málefnin þannig að við séum ekki upp á kant hvert við annað. Við erum í raun mestmegnis öll á sömu línunni, þannig að við eigum auðvelt að ná saman. Aðaláhersla okkur varðar þá sem minnst mega sína. Hvort sem það eru öryrkjar, eldra fólk eða þeir sem hafa minnst á milli handanna. Á okkar stefnuskrá er að liðka til fyrir þeim eins og við getum. Svo hefur blóðmeramálið verið ofarlega á dagskrá okkar flokks. Inga tók þetta mál algerlega í fang sér og er búin að vera með þetta á stefnuskrá í liðlega eitt ár. Hún á heiðurinn af því hversu langt það er komið í umræðunni, innan þings sem utan. Hvort það verður afgreitt og þessu starfsemi bönnuð verður svo að koma í ljós”. 

Sumir eiga fasteignir og hlutabréf – aðrir ekkert 

Flokkur fólksins hefur fjallað sérstaklega um málefni eldri borgara og þá ekki síst þegar komið er að starfslokum fólks. Tómas gagnrýnir að ríkið hafi lögfest þá stefnu að fólk verði að láta af störfum þegar það hefur náð sjötíu ára aldri. Hið sama sé í gildi hjá sveitarfélögum þótt það kunni að vera eitthvað mismunandi frá einu þeirra til annars. “Ég vil meina að við sem erum orðin sjötug eigum að fá að vinna ef við höfum til þess orku og hæfni. Það er í dag hægt að ráða fólk til vinnu sem komið er yfir sjötugt ef það fer í sérverkefni og vinnur sem verktakar. Við erum t.a.m. með einn starfsmann hjá Flokki fólksins sem er orðinn sjötugur. Það átti að fastráða hann en það var af þessum sökum ekki hægt, en hann má vera í sérverkefnum og vinna sem verktaki. Það gegnir öðru máli með mig vegna þess að ég er ekki ráðinn – heldur kosinn og er á undanþágu sökum þess. “

Bréfin urðu allt í einu mikils virði

Tómas segir að misjafnt sé hvort eldri borgarar hafi nóg sér til framfærslu eða ekki og þar komi margt til. Sumir eiga bókstaflega ekkert en aðrir hafa náð að safna einhverjum varasjóði um ævina, svona eins og gengur. Eiga kannski fasteignir og hlutabréf eða annað sem gefur af sér arð. Hlutabréfamarkaðurinn var lítils virði fyrr en um 1993 er hann tók að lifna við. Menn áttu kannski hlutabréf í félögum eins og Eimskip eða Sjóvá sem skiptu litlu eða engu máli. Svo rauk þetta upp á ca. tveimur árum. Mín fjölskylda átti t.a.m. hlutabréf í Sjóvá og þetta voru bara einhver bréf út í bæ. Svo kom Íslandsbanki og ýmsar sameiningar urðu í fyrirtækjageiranum og allt í einu voru þessi bréf orðin þúsunda og milljóna virði. Ég man að það var þekktur útvegsmaður um miðbik síðustu aldar sem hét Beinteinn. Hann byggði þriggja hæða, sex íbúða hús við Brávallagötu. Um það bil sem hann var að ljúka við húsið hitti hann ungan mann sem hét Benedikt Blöndal og var að læra lögfræði í Háskóla Íslands. Þeir tóku tal saman og það endaði með að Beinteinn benti á húsið og sagði við Benedikt að þetta væri ellilífeyririnn sinn. Það stóð á endum að árið sem Beinteinn féll frá, seldi hann síðustu íbúðina í húsinu. Svona var umhverfið á þeim tíma. Nú eiga sumir hundruð milljóna í bréfum og bankainnistæðum heima og erlendis en svo eru aðrir sem eiga bara hreint ekki neitt.” 

Verðtryggingin kemur illa við fólk

Tómas snýr sér að verðtryggingunni og hvernig hún kemur við fólk. Hann segir að mikið af lánum sé verðtryggt en laun séu í dag óverðtryggð. “Verðtryggingin var algjör neyðarráðstöfun í miðri óðaverðbólgu á sínum tíma, tók til bæði launa og lána og átti aðeins að vara í nokkra mánuði. Síðan hafa liðið meira en fjörutíu ár. Og klippt var á verðtryggingu launa – en ekki lána. Ákveðið var sumsé af stjórnvöldum að fjármagnseigandinn skyldi gulltryggður en ekki stritandi launamaðurinn. Sá má hlaupa sig lafmóðan, eins og hamstur í hjóli til að eiga fyrir verðtryggðum afborgunum, vöxtum og vaxtavöxtum á meðan fjármagns-eigandinn strýkur sér um kviðinn. Ef skuldir hækka eftir vísitölu þá breikkar bilið á milli greiðslu-byrði og tekna sem kemur sér ákaflega illa fyrir fólk sem ekki hefur úr miklu að spila. Þetta er í raun alveg út í hött. Þarna er grímulaust verið að hygla þeim ríku, þeim sem eiga fjármagnið og fasteignirnar. Og þetta á eftir  að versna. Gjáin er að dýpka. Eldra fólk virðist vera í þannig stöðu að auðvelt sé að taka snúning á því. Það virðist líka svo auðvelt að búa til meðaltalstölur. En fólk fer ekki með meðaltalslaun í bankann til þess að greiða af lánum eða bara í búðina til að kaupa í matinn. Út frá meðal-talinu má segja að allir hafi það gott en sá sem er með 250 þúsundin hann getur lítið nýtt sér meðaltalið. Hann á kannski rétt svo fyrir húsaleigunni hvað þá meir. Meðaltal er bara meðaltal og í því getur falist mjög ósanngjarn samanburður.”  

Ekki hægt að lifa af 250 þúsundum

Tómas segir að þessi mál séu aðeins rædd í þinginu en ekki séu endilega allir að hlusta eftir því hvað þingmenn Flokks fólksins segi í þessum efnum. Umræðan um þetta sé þó farin að færast í aukana. “Flestir eru þó sammál um að útilokað sé að lifa á 250 þúsund krónum á mánuði. Flokkur fólksins hefur sagt að lágmarkstekjur til þess að lifa af séu 350 þúsund krónur á mánuði, skatta- og skerðingalaust. Þetta hljómar vel. En að koma því í framkvæmd er þrautinni þyngra og margt spilar þar inn í. Flokkur fólksins fékk vissulega aukið vægi í síðustu alþingiskosningum. Það þýðir þó ekki endilega að hlustað verði frekar á hann.

Ótrúlegur ferill Ingu Sæland

Inga Sæland var lögblindur og efnalítill öryrki fyrir aðeins sex árum síðan. Hún lifði á örorkubótum og á miðjum aldri  ákvað hún að brjótast til mennta í stjórnmálafræði og síðan lögfræði og í kjölfarið að stofna stjórnmálaflokk og bjóða fram til Alþingis. Hún fór í framboð en náði ekki inn. Þá var hún svo heppin að stjórnarsamstarfi var slitið á fyrsta ári eftir kosningar. Þá fór hún aftur af stað – og komst inn! Fjórir voru kjörnir inn á þing undir merkjum Flokks fólksins. Síðan slitnaði upp úr samstarfinu við tvo þeirra. Þeir voru óþægir og var sparkað. Síðan bauð hún fram aftur og fékk þá um 10% af kjörnum þing-mönnum á Alþingi. Flokkur fólksins er í dag með kjördæmakjörinn þingmann í öllum kjördæmum. Við sjáum í dag skýrlega hversu ótrúlega miklu þessi manneskja hefur áorkað, manneskja sem áður var kannski bara gert góðlátlegt grín að. 

Hún hefur stundum komið svolítið fram eins og Soffía frænka og talað skýrlega úr ræðustóli Alþingis, stundum með sterkum umvöndunartóni, en stendur í dag fyrir næst stærsta stjórnarandstöðuflokki Alþingis. Hún á heiður skilinn fyrir það sem hún hefur gert. Í dag vita allir hver Inga Sæland er. Við höfum þegar farið yfir megináherslur Flokks fólksins, blóðmeramálið þar með talið sem er er mál sem snýr einkum að því sem margir telja hreint dýraníð, en meðferðin á hryssunum í þessu samhengi er vægast sagt óhugnanleg. En það þarf að vinna að því að sveigjanleg starfslok geti orðið að veruleika. Að fólk geti hætt eitthvað fyrr eða unnið lengur ef það hefur áhuga og treystir sér til. Hlutastarf á lokatíma starfsferils ætti að vera sjálfsagður hlutur. Fólk ætti að eiga þess kost að vinna 50 til 60% vinnu á lokaametrum starfsferilsins. Ég held að það geti hentað ýmsum og að því viljum við í Flokki fólksins stefna, samhliða því að tryggja þeim betri kjör sem höllum færi standa í samfélaginu,” segir Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins að lokum.  

You may also like...