“Kaldalónsskálin” veitt í fyrsta sinn

Kaldalons-Tonlistarverdlaun 1

Friðrik Guðmundsson, sem fyrstur hlaut Kaldalónsskálina, ásamt Guðmundi Snorrasyni, forseta Rótarýklúbbsins og Ólafi Egilssyni.

Ungur Seltirningur, Friðrik Guðmundsson, sem í vor lauk framhaldsnámi í píanóleik við Tónlistarskóla Seltjarnarness, hlaut á þjóðhátíðardaginn 17. júní Kaldalónsskálina.

Skálin er tón-listarviðurkenningu Rótarýklúbbs Seltjarnarness í minningu Selmu Kaldalóns tónskálds (1919-1984). Viðurkenningin var veitt í fyrsta skipti við athöfn í lok þjóðhátíðarguðþjónustunnar í Seltjarnar-neskirkju. Guðmundur Snorrason, forseti Rótarýklúbbsins, afhenti skálina, ásamt heiðursskjali. Þá lék Friðrik á píanó fallegt verk eftir sjálfan sig sem hann nefnir “Skammdegi” og tekur um fimm mínútur í flutningi. Var því afar vel tekið af viðstöddum. Kaldalónsskálin er fallegur farandgripur sérstaklega smíðuð í þessum tilgangi af Ásgeiri Reynissyni gull- og silfursmið, og er stefnt að því að hún verði framvegis veitt árlega fyrir framúrskarandi árangur í tónlistarnámi. Er þessi viðurkenning til marks um aukið starf Rótarýhreyfingarinnar til uppörvunar og stuðnings við ungu kynslóðina.

Hóf tónsmíðar fyrir um þremur árum

Friðrik hóf ungur að árum píanónám í Tónlistarskóla Seltjarnarness undir handleiðslu Aðalheiðar Eggertsdóttur píanókennara og lauk þar framhaldsnámi nýverið með lofsamlegum vitnisburði. Síðastliðið ár hefur hann einnig verið í tón-smíðanámi í Listaháskóla Íslands, en tvö til þrjú ár eru síðan hann hóf að semja tónverk m.a. fyrir Stúdentaleikhúsið í sýningarnar “Stundarfrið” og ” Mig”. Þá hefur verk eftir Friðrik, “Áráttuhegðun”, verið leikið á tónleikum í Listaháskólanum. Auk tónlistarnámsins varð Friðrik stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2013.

Tonlistarverdlaun 4

Friðrik Guðmundsson, ásamt afkomendum Selmu Kaldalóns og fleirum.

Stjarna Friðriks reis stöðugt

Ummæli Kára Húnfjörð Einarssonar, skólastjóra Tónlistarskóla Seltjarnarness, um Friðrik eru afar lofsamleg. Hann segir stjörnu hans í skólanum hafa risið stöðugt fram til námslokanna, þegar hann standi fremstur meðal jafningja. Síðustu tvö til þrjú árin hafi Friðrik lagt nótt við dag til að undirbúa lokapróf sitt; alla daga, allar helgar, alla frídaga hafi hann komið í skólann til æfinga. Eljan, seiglan og viljinn hafi drifið hann áfram, og við það hafi hann fengið dyggan stuðning kennara síns. – Á framhaldsprófstónleikum Friðriks í sal skólans nýlega léku tveir efnilegir skólafélagar hans, Bergur Þórisson básúnuleikari og Björgvin Hjálmarsson saxófónleikari, með honum verk eftir Friðrik, sem ber heitið “Getum við ekki bara…” og er í þremur köflum. Voru undirtektir hinar ágætustu.

Eiginmaður Selmu og stofnandi Rótarý á Nesinu

Kaldalónsskálin er, eins og fyrr segir, helguð minningu Selmu Kaldalóns tónskálds sem bjó og starfaði á Seltjarnarnesi um árabil. Gefin hafa verið út eftir hana 27 sönglög og hljómplata með lögum eftir hana og föður hennar Sigvalda Kaldalóns í flutningi kunnra listamanna. Selma var eiginkona Jóns læknis og varabæjarfulltrúa Gunnlaugssonar, forgöngumanns um stofnun Rótarýklúbbs Seltjarnarness og fyrsta forseta hans árið 1971; hann var síðar einnig umdæmisstjóri hreyfingarinnar.

You may also like...