Við þurfum fjölbreytileika

– segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir nýkjörin borgarfulltrúi –

Heima í stofu við Starhagann, Árelía Eydís og dótturdóttirin Eydís Ylfa.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir tók sæti í borgar­stjórn á dögunum sem annar maður af lista Framsóknarflokksins. Hún hefur ekki tekið þátt í stjórnmálum með beinum hætti en látið þjóðmál og einkum málefni manneskjunnar sig varða. Hún hefur meðal annars starfað sem dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og á að baki langa reynslu af kennslu við háskóla. Hún hefur einnig stundað ritstörf og eftir hana liggja bæði greinar og bækur á fræðilegu sviði en einnig skáldsagnagerð. Hún hefur lagt sig fram um að skrifa handbækur sem nýtast fólki við stefnumótun í lífi sínu. Hún hefur einnig haldið fjölmörg námskeið á því sviði. Árelía Eydís hefur setið í mörgum stjórnum, nefndum og ráðum og komið að stefnumótun á mörgum sviðum samfélagsins og birtist reglulega í fjölmiðlum landsins. Þá hefur hún einnig starfað sem ráðgjafi hjá fyrirtækjum bæði hér og erlendis.

Árelía Eydís býr í hlýlegu húsi á horni Starhaga og Suðurgötu sem flutt var þangað á óbyggða lóð fyrir nokkrum árum og endurgert. Álfrún Perla dóttir hennar býr í næsta húsi sem einnig var reist á óbyggðri lóð fyrir skömmu. Þar næsta hús við götuna er Tungsberg þar sem Baldur Þórhallsson og Felix Bergsson búa en Baldur er faðir Álfrúnar Perlu. Þessi þrenning myndar óhefðbundna en samhenta fjölskyldu sem fjallað var um í Vesturbæjarblaðinu í byrjun þessa árs. „Þú kemur bara aftur á hornið. Í kaffi til mín,“ sagði Árelía Eydís þegar viðtal bar á góma. Eftir kaffidrykkju var sest að alvarlegra spjalli. 

Hver ertu?

Hver ertu? „Þetta er góð spurning. Hver er ég. Þetta er bæði heimspekileg spurning og jafnvel einnig guðspekileg. Við erum vonandi öll eilífðar verur sem koma hingað í stuttan tíma. Ef ég staðset mig í tíma og rúmi þá er ég fædd 1966 og er alin upp bæði í Keflavík þar sem foreldrar mínir búa og síðan vestur á Ingjaldssandi þar sem afi minn og amma bjuggu. Ég skipti æskunni svolítið á milli. Var á hverju einasta sumri fyrir vestan. Fór vestur á vorin. Var í sauðburðinum og öðru sveitalífi þegar ég var krakki en fór svo suður á haustin. Ég er því sveitastelpa öðrum þræði. Ég er að hluta utan af landi og kom hingað í borgina þegar ég var 18 ára til þess að fara í skóla. Ég hef verið hér að mestu leyti þótt ég hafi brugðið mér aðeins erlendis. Þetta er uppruninn. Svo á ég þrjú börn. Álfrúnu Perlu sem býr hér við hliðina við Starhaga. Hún er gift Árna Frey Magnússyni og þeirra barn er Eydís Ylva Árnadóttir sem er ný orðin tveggja ára. Ég á því eitt barnabarn. Svo á ég Kristínu Sigrúnu Áss Sigurðardóttir sem er 18 ára og er nú í sumar að vinna fyrir vestan á hóteli sem tengist fjölskyldu minni, heitir Holt Inn og er í Önundarfirði og Óskar Davíð Áss Sigurðsson sem er 14 ára. Ég er heppin að eiga góð og heilbrigð börn.“

Háskólakennsla og ritstörf og svo borgarmálin

Hvað hefurðu verið að gera? „Lífsstarfið mitt hefur einkum verið við háskólakennslu en ég hef einnig stundað ritstörf. Ég hef blandað þessu tvennu dálítið saman. Og nú er ég komin í borgarmálin. Nú eru ákveðin kaflaskil í mínu lífi. Að vinda mér í pólitík og í framhaldi af því í sveitarstjórnarmálin hér í borginni.“ Hvernig kom til að þú fórst í borgarmálin. „Ég segi stundum að maður sé kallaður til einhvers en það var eiginlega tilviljun að ég fór í þetta. Á síðasta ári losnaði töluvert um hjá mér. Ég hætti í tveimur stórum stjórnum sem ég hafði setið í. Því varð rýmra í kringum mig og síðan fór miðjustelpan mín í skiptinám til Spánar. Fyrir tilviljun skapaðist rými fyrir mig til að fást við eitthvað nýtt. Þegar komið var að máli við mig eins og stjórnmálamenn segja hvort ég vildi taka þátt í pólitísku framboði til borgarstjórnar ákvað ég að slá til. Eitt af mínum gildum í lífinu er að vera óhræddur við prófa nýjar hliðar á sjálfum sér. Þessi hlið er þó ekki að öllu leyti ný því ég hef alltaf verið mikið félagmálatröll.“ Árelía Eydís rifjar upp að hún hafi verið í þremur framhaldsskólum og síðan stundað nám við þrjá háskóla þar sem hún tók þátt í ýmum félagsmálum. Nú hafi verið að skapast aðstæður til þess að get sinnt félagsmálum meira auk þess sem umönnunarbirðin hafi verið að léttast. „Mér finnst mikilvægt að geta haft áhrif í kringum mig. Látið rödd mína heyrast í þágu fólks, sem má gera með ýmsum hætti. Eitt er að kenna, annað er að skrifa og svo er ein hliðin að stíga fram og segjast tilbúin til að þjóna til almannaheilla.“

Afi var framsóknarmaður

Af hverju Framsókn? „Já – það er góð spurning. Ég er að verulegu leyti úr sveit. Afi var gegnheill framsóknarmaður og amma studdi bara það sem afi gerði. Ég náði aðeins í skottið á því þegar lífið var ungmennafélagshreyfingin og Framsóknarflokkurinn. Ég hef líka alltaf verið mikið kvenréttindakona og studdi Kvennalistann á sinni tíð. Ég hef ekki verið á einni línu í gegnum lífið. Núna fannst mér komið einstakt tækifæri. Framsóknarflokkurinn hafði ekki borgarfulltrúa á liðnu kjörtímabili og kom því ekki að málum. Hann var því með nokkuð hreinan skjöld í borginni. Mér fannst því að í þessari stöðu væri hægt að hafa áhrif og móta stefnumálin og einnig starfið. Við sem komum að þessu núna erum öll ný á vettvangi borgarmálanna. Það er líka góður andi innan fokksins núna. Ég mat það þannig að við værum með skynsamlega forustu og sátt í kringum málin. Þannig fannst mér þetta liggja beint við.“ Árelía kveðst vera frekar mikil miðjukona. „Ég get verið til vinstri í ýmsum málum en einnig til hægri í öðrum en finn mig kannski best í miðjunni. En það er betra að orða þetta þannig að nú hafi verið lag í borginni. Hægt væri að byggja upp frá grunni í stað þess að fara inn í eitthvað sem væri orðið formfast svo fáu yrði hnikað til. Tækifæri sem opnast ekki oft í stjórnmálum.“

Þurfum fleiri kosti

Er verið að styrkja miðjuna með þessum meirihluta eða má frekar orða það þannig að hún hafi verið víkkuð út. „Algerlega. Ég held að við séum mikilvægur hlekkur. Þeir flokkar sem nú starfa saman finna sig að mörgu leyti með ákveðin samhljóm. Við hófum undirbúningsviðræðurnar á að fjalla um málefni barna þar sem við eru öll meira og minna samstíga.  Það sem frekar ber á milli er að þeir flokkar sem voru saman í meirihluta voru einarðari í skipulagsmálum um að leggja mikla áherslu á þéttingu byggðar. Við sögðum að líka að gott væri að þétta borgina en það þyrfti fjölbreyttari kosti. Þannig að fólk sjái ekki fram á að geta bara farið í blokkaríbúð miðsvæðis í borginni. Það er líka fólk sem vill fremur búa í jaðrinum. En fyrir utan mismunandi sjónarmið að þessu leyti þá vantar húsnæði. Fólki hefur fjölgað mjög ört og ljóst að herða verður á byggingaframkvæmdum. Hið sama á við um samgöngumálin. Við þurfum að finna leiðir til þess að búa til borg þar sem fólk verður að geta gert ráð fyrir að vera á bíl en við viljum einnig styðja við bíllausan lífsstíl. Að fólk geti nýtt almenningssamgöngur og viljum þar af leiðandi byggja upp góða og hraðvirka borgalínu. Öflugar almenningssamgöngu eru framtíðarþróun sem við sjáum alls staðar í kringum okkur og víðar. Bíllinn verður áfram til staðar en notkun hans er farinn að breytast og mun taka meiri breytingum á komandi árum. Þarna á ég ekki síst við að fólk noti einkabíl minna til að fara til og frá vinnu.  Fólk gerir ráð fyrir að hafa aðgang að góðu almenningssamgöngum en á síðan bíl til þess að fara lengri ferðir. Bíllinn verður meira frístundatæki. Við erum ekki að tala um að fólk sé algerlega bíllaust sem getur verið erfitt einkum fyrir fjölskyldufólk.“

Nota bílinn ef ég þarf að fara austur fyrir læk

Árelía Eyrún rifjar upp þann tíma sem hún stundaði nám í Bretlandi. „Ég bjó um tíma í litlu þorpi í nánd við háskólann í Essex. Ég var með bíl en þegar þegar ég fór inn til London hvarflaði aldrei að mér að fara á bílnum. Ég tók alltaf lestina og svo underground eða neðanjarðarlestina eða rauðu vagnana inn í borginni. Að fara á bíl var bara ávísum á vandræði. Eins þegar maður var að fara á flugvöllinn til að taka á móti fólk notaði maður alltaf almenningssamgöngurnar. Það var miklu einfaldara. Síðan er liðinn aldarfjórðungur og þetta er þróum sem flestir eða allir sem hafa búið erlendis þekkja. Ég er hér við Starhaga og nota bílinn lítið. Aðallega til að skreppa vestur – jú og ef ég á erindi austur fyrir læk. Ég gekk alltaf í Háskólann og nú í þessu nýja hlutverki mínu er ég farin að ganga niður í Ráðhús. Næsta skref er að labba í Borgartúnið þar sem höfuðstöðvar skóla- og frístundaráðs hafa aðsetur. Mér finnst gott að geta labbað. Það hreinsar hausinn á manni líka. Þetta er lífsstíll sem mér finnst eftirsóknarverður.“ 

Við þurfum fjölbreytileika

Árelía Eydís rifjað upp að hún hafi prufað að flytja í úthverfi. Í Norðlingaholtið í nokkur ár. „Ég var þar í austasta húsi borgarinnar. Ég segi stundum að ég hafi átt draum að búa útsvæðis. Að hluta uppalin vestur á Ingjaldssandi. Í jaðri byggðarinnar með náttúruna við hendina. En fljótlega áttaði ég mig á því að hvað sem ég þurfti að gera, að fara í bakarí eða búð eða bara í vinnuna þurfti ég að nota bílinn. Ég gekk vissulega í náttúrunni en það var það eina sem ég gekk. Annað varð að fara í bíl. Við erum að byggja upp borg þar sem ekki eiga að vera meira en 15 mínútur í alla þjónustu. Hvort sem það er í skólann, frístundir búðir eða annað sem heyrir undir daglegt líf. Norðlingaholtið var ekki komið það langt á þeim tíma. Þar var engin verslun til dæmis og ég áttaði mig á því fyrir mig sjálfa að þetta hentaði mér ekki og ég flutti aftur í Vesturbæinn eftir tæp fjögur ár þar efra. En það var gott að prufa annað. Læra að þekkja mismunandi aðstæður.“ Árelía snýr sér að borgarumhverfinu og áhrifum þess. „Þau eru ýmiskonar. Margir vilja hafa náttúru í kringum sig. Aðrir kjósa miðborgarumhverfi. Við megum ekki gleyma því að við erum svo ólík. Erum með ólíkar þarfir og því verður umhverfið að geta boðið ólíka kosti. En við erum líka þannig að við þurfum á hvort öðru að halda. Við þurfum á samfélagi að halda. Við þurfum líka á náttúrunni að halda. Eitt af því sem hefur komið mér á óvart í sambandi við pólitíkina í borginni er hvað fólk skiptist í fylkingar og er fljótt að persónugera hluti. Annað er hversu mikill fókus er á oddvitana. Einskonar rörsýn á þá þótt margir fleiri komi eðlilega að málum. Fólk persónugerir málin. Er annað hvort með eða á móti einstaklingnum frekar en málefnunum. Sveitarstjórnarmálin eru nær fólki en landsmálin. Það hefur áhrif á umfjöllunina. En við þurfum fjölbreytileika.“

You may also like...