Móðurmálið er lykilþáttur
Fjársjóðskista tungumálanna var yfirskrift málþings og námsstefnu Móðurmáls samtaka um tvítyngi og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar þann 21. til 22. ágúst síðastliðinn í Gerðubergi og Hólabrekkuskóla. Aðalfyrirlesari var Deirdre Kirwan skólastjóri Scoil BhrídeCailíni skólans á Írland sem hefur vakið athygli fyrir góðan árangur í því að nýta fjöltyngi og fjölbreyttan bakgrunn nemenda á jákvæðan hátt í skólastarfinu.
Rannsóknir hafa sýnt að móðurmálið er lykilþáttur í sjálfsmynd fólks, erfiðara að læra annað tungumál ef viðkomandi hefur ekki náð tökum á móðurmálinu sem er grunnur að skilningi á öðrum tungumálum. Á bak við samtökin Móðurmál stendur fjölbreyttur hópur fólks og hópa sem bjóða upp á kennslu (www.modurmal.com) á yfir 20 tungumálum. Kennslan er að langstærstum hluta fjármögnuð með sjálfboðavinnu en síðustu ár hefur Reykjavíkurborg styrkt samtökin sem hafa á móti tekið þátt í fjölbreyttu kynningar- og skólaþróunarstarfi í tengslum við fjöltyngdi og móðurmálskennslu í borginni. Dæmi um samstarfsverkefni Móðurmáls og Reykjavíkurborgar eru farkennarar sem hafa unnið í leikskólum og í haust er að fara af stað verkefni sem felst í því að tveir tvítyngdir farkennarar sem munu fara á milli grunnskóla til að bjóða upp á móðurmálskennslu og kynna kennsluaðferðir sem styðja við tvítyngi. Móðurmálssamtökin voru formlega stofnuð og fengu kennitölu 2001 en höfðu þá starfað síðan 1994 og urðu því 20 ára á síðasta ári.
Íslendingar tækifærissinnar er kemur að tvítyngi og fjölmenningu
Opnunarerindi málþingsins var flutt af Toshiki Toma sem var einn af stofnendum samtakanna sem þá samanstóðu af fimm móðurmálshópum þar á meðal japanska hópnum sem Toshiki hélt utan um. Toshiki lagði áherslu á að móðurmálskennsla og tvítyngi væru ekki einkamál innflytjenda heldur málefni samfélagsins í heild sinni. Íslendingar eru tækifærissinnar er kemur að fjölmenningu og tvítyngi, þeir vilja njóta ávaxtanna en ekki leggja út fyrir þeim undirbúningi sem nauðsynlegur er til að uppskera sagði Toshiki. Börn Toshiki sem nú eru fullorðin eru eftirsótt á vinnumarkaði þar sem fyrirtæki og stjórnvöld vilja byggja upp ferðaþjónustu og viðskipta-sambönd við Japan en samt sem áður nýtur móðurmálskennsla ekki enn stuðnings stjórnvalda nema að litlu leiti og er ekki orðin hluti af formlega skólakerfinu. Toshiki lagði áherslu á að mikilvægt væri að foreldrar gefist ekki upp á að tala við börnin sín á móðurmálinu og viðhalda því sem er erfitt í umhverfi þar sem móðurmálið heyrist sjaldan eða aldrei. Ég talaði við yngsta son minn á japönsku í langan tíma áður en ég fékk svar en nú talar sonurinn japönsku eins og innfæddur auk þess að hafa mjög góða þekkingu á japanskri menningu en fjölskyldan reyndi að fara reglulega í heimsókn til Japans sagði Toshiki.
Tvítyngi styður bæði við tvítyngd börn og aðra nemendur
Deidre er með doktorsgráðu í tungumálakennslu frá Trinity háskólanum í Dublin og hefur unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði tungumálakennslu og staðið fyrir fjölda námskeiða fyrir kennaranema grunn- og framhaldsnámi auk þess að vera velgjörðarsendiherra tungumála hjá Evrópusambandinu. 300 börn eru Bhríde skólanum en um 80% þeirra eru tvítyngd og samtals tala þau um 50 tungumál. Formlegu tungumálin í skólanum eru enska og írska en nemendur eru hvattir til að nota móðurmálið í skólastarfinu. Árangur skólans hefur vakið athygli en hann er yfir meðallagi þrátt fyrir eða kannski einmitt vegna fjölbreytts bakgrunns nemenda.
Þarf að hvetja til en ekki banna móðurmál í skólunum
Það hefur verið við lýði sá misskilningur í skólum að hvetja foreldra til þess að tala ekki móðurmálið við börnin sín heldur leggja áherslu á að tala og þjálfa barnið í tungumáli viðkomandi lands með þeim rökum að það að tala móðurmálið daglega komi í veg fyrir að börnin læri íslensku eða ensku. Skólarnir eiga þvert á móti að virða og hvetja foreldra og nemendur til að tala sitt móðurmál. Rannsóknir hafa sýnt að ef foreldra tala ekki móðurmálið við börnin sín þá tapast móðurmálið auk þess sem foreldrar eru yfirleitt ekki réttu aðilarnir til að kenna börnunum tungumál viðkomandi lands enda hafa þeir oft ekki náð nægilega góðum tökum á því sjálfir, á meðan kennarar í skólanum eru sérmenntaðir til slíkrar kennslu. Foreldrar eru best til þess fallnir að viðhalda færni barna sinna í móðurmálinu og ef það tapast þá bitnar það oft á samskiptum foreldra og barna sem síðar getur leitt til félagslegra vandamála og lélegs námsárangurs.
Kennarar þurfa ekki að tala öll tungumál
Kennarar þurfa ekki að tala tungumál nemenda til að nýta tvítyngdi í kennslunni, fjölbreyttur bakgrunnur nemenda getur verið kveikja að skemmtilegum umræðum um málfræði og uppbyggingu ólíkra tungumála, umræðu sem gagnast öllum nemendum og gerir kennsluna áhugaverðari. Þessi nálgun styður við sjálfsmynd nemenda, styður við annað tungumálanám, eykur víðsýni og skilning á ólíkum menningarheimum og kennara eru stöðugt að læra og þróa sínar aðferðir. Það er ekki óalgengt að rekast á sex ára gamla samanburðarmálfræðinga á göngum skólans, krakka sem eru að bera saman ólíkar beygingar orða á þremur tungumálum sagði Deidre. Aðspurð um hvort hægt væri að nálgast upplýsingar um kennsluaðferðir og verkefni þá kom fram að verið er að vinna að gagnabanka á heimasíðu skólans þar sem kennarar geta miðlað af reynslu og samnýtt verkefni sagði Deidre. Móðurmálskennslu þarf að verða skilgreindur hluti af skólakerfinu Mikill vöxtur er í móðurmálskennslu og stöðugt bætast ný tungumál í hópinn þó ekki sé boðið upp á móðurmálskennslu í öllum þeim tungumálum sem innflytjendur tala. Þess má geta að um 100 nemendur hafa bæst við Pólska skólann frá því í fyrra en samtals eru um 300 nemendur skráðir í skólann næsta haust sem hefur skapað ákveðinn vanda þar sem ekki er búið að semja um húsnæði fyrir skólann og óvíst hvort það húsnæði sem pólski skólinn hefur haft til umráða í Fellaskóla dugi til næsta vetur.
SGK