Hugsa ávallt um hugtökin heiman og heim

Asgeir Torfason

Asgeir Torfason

Nei – ég er ekki fæddur á Seltjarnarnesi en tel mig engu að síður einhvers konar Seltirning. Ég var um tveggja ára aldur þegar foreldrar mínir þau Margrét Jónsdóttir íþróttakennari, sem var með og stofnaði Trimmklúbb Seltjarnarness og þjálfaði hann um árabil og Torfi H. Ágústsson skrifvélavirki fluttu vestur á Nes úr Breiðholtinu. Faðir minn átti rætur í Grjótaþorpinu og hugur þeirra stefndi til vesturs. Hann tók líka þátt í ýmsum málefnum á Nesinu. Hann sat meðal annars í sóknarnefnd um tíma og starfaði í byggingarnefnd Seltjarnarneskirkju. Þegar við komum á Nesið var nýbyrjað að byggja raðhúsin við Nesbala og við fluttum í aðra af fyrstu tveimur raðhúslengjunum sem þar voru byggðar. Ég átti síðan heima þar í 20 ár eða þar til ég stofnaði mitt eigið heimili 22 ára gamall. Foreldrar mínir fóru einnig af Nesinu aðeins seinna en af öðrum ástæðum. Þau fundu sér nýjan farveg og hófu að reka gistiheimili í Reykjavík.“ segir Ásgeir Brynjar Torfason hagfræðingur og heimspekingur sem spjallar við Nesfréttir að þessu sinni.

Fannst ég eiga tvö heimili

Ásgeir segir að margt hafi breyst á Seltjarnarnesi frá því hann var að alast upp. „Þá var enn búskapur á Nesinu og mátti víða sjá hesta á beit. Búskapurinn hvarf þó fljótlega eftir því sem byggðin teygði sig lengra út á Nesið. Ég var og er enn dálítill sveitamaður í mér þótt það sé ekki eingöngu vegna uppvaxtarins á Seltjarnarnesi. Ég var öll sumur bernskunnar í sveit í Borgarfirði þangað sem ég á ættir að rekja. Sem barni fannst mér ég alltaf eiga tvö heimili. Heimili foreldra minna á Seltjarnarnesi og í sveitinni í Borgarfirðinum. Það er sérstök tilfinning að finnast maður vera að koma heim á fleiri en einn stað og hún hefur fylgt mér inn í fullorðinsárin. Ég hef búið meira en tíu ár erlendis og er enn á nokkru flakki vegna starfa minna. Og þótt ég búi ekki lengur á Seltjarnarnesi þá finn ég enn þessa heimkomutilfinningu þegar ég kem á Nesið. Mágkona mín býr þar með fjölskyldu sinni og ég fer líka stundum í sund í Neslauginni – þó of sjaldan vegna þess að þá þarf maður að eiga tvö sundkort. Annað í Vesturbæjarlaugina þangað sem ég kem oft og svo í Sundlaug Seltjarnarness. Þetta er klúður sem hlýst af því að um tvö sveitarfélög er að ræða. Mig langar því til að koma þeirri ábendingu á framfæri að sundlaugarnar eigi með sér samstarf við útgáfu á kortum því ég veit að fólk er að fara til skiptis á þessa staði.“

Íþróttaferlinum lauk fljótt

Ásgeir segir að þrátt fyrir einlægan íþróttaáhuga móður sinnar hafi hann aldrei verið mikill íþróttamaður. „Ég var bara að taka tímann fyrir hana í fyrstu Neshlaupunum og sjá um tölvuvinnsluna. Ég var alltaf meira í tölvunni og svo á sveitadvöl mín eflaust einhvern þátt í að hugurinn leitaði annað en í íþróttirnar. Ég held að ég hafi æft handbolta í hálft ár með Gróttu og var einn vetur á skíðum með KR. Með því lauk íþróttaafrekum æsku minnar. Ég byrjaði reyndar að skokka á fullorðinsárum, hef hlaupið maraþon í Osló og Gautaborg og nú síðast 90 kílómetra víðavangshlaup í Dölunum í Svíþjóð. Og svo hef tekið þátt í Neshlaupinu síðustu tvö ár.“

Get þakkað Guðna fyrir námsbrautina og konuna mína

Ásgeir labbaði yfir grasflötina upp á Valhúsahæðina og yfir í skólann. Fyrst í Mýró og síðan í Való þaðan sem hann lauk skólagöngu á Seltjarnarnesi. Leiðin lá þá eins og margra Seltirninga í MR. „Munurinn á mér og mörgum öðrum af Nesinu er þó sá að ég lauk ekki framhaldsskólanum í MR. Ég hafði álpast í máladeild sem ég hefði aldrei átt að gera því ég var alltaf betri í stærðfræðinni og hefði því frekar átt að velja þá leið. Því vildi svo til að ég féll í þýsku og latínu Guðna rektor til lítillar ánægju. Hann hafði nokkuð stór orð um þetta frammistöðuleysi mitt og sagði mér að snauta út með nokkrum velvöldum orðum – talsmáta sem hann var frægur fyrir en risti kannski ekki alltaf mjög djúpt. Ég tók þetta svo bókstaflega að ég steig aldrei fæti inn fyrir dyr í MR eftir þetta en lauk framhaldsskólanáminu frá Menntaskólanum við Hamrahlið. Ég man að ég hafði orð á endalokum mínum í MR við Örnólf Thorlacius sem þá var rektor MH. Lýsi því að Guðni hefði nefnt mig hálfvita og spurði Örnólfur þá hvort ég héldi að hann tæki við mönnum með slíka nafnbót. Líklega hefur hann sagt þetta í gríni því hann tók mig inn um jólin og ég lauk stúdentsprófi frá skólanum. En hvað sem brotthvarfi mínu úr MR leið þá get ég þakkað Guðna fyrir tvennt – að ég lauk námi af braut þar sem ég átti betur heima og í Hamrahlíðinni kynntist ég konunni minni Steingerði Ólafsdóttur sem um tíma var blaðamaður á Morgunblaðinu en er nú lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Börnin okkar völdu svo sitt hvorn menntaskólann, sonur okkar er í MR og dóttir í MH.“

Bunkinn stækkaði en hverfið dróst saman

„Þetta var svona hefðbundin skólaganga hjá mér með vinnu,“ heldur Ásgeir áfram. „Ég fór snemma að fást við tölvur og var farinn að vinna við ýmis verkefni ungur að árum. Þá var ný gerð af Machintosh tölvum komin á markað litli plúsinn og í honum var hægt að setja blöð og blöðunga upp í prentform eða brjóta um eins og það er oft kallað. Ég braut skólablaðið í Való um veturna 1986 til 1988 og svo Nesfréttir í framhaldinu um nokkurra ára bil. Einn kosturinn við að búa í litlu bæjar- eða samfélagi er að geta fengið alvöru verkefni þótt maður sé bara 14 eða 16 ára gamall.“ Svo var það sumarvinnan á menntaskólaárunum. „Þá voru komnir nýir vinnumenn í sveitina og 17 ára fór ég að vinna sem flokksstjóri í unglingavinnunni á Seltjarnarnesi og sá um sláttuhópinn á sumrin. Flutti sveitina aðeins með mér á Nesið. Ég sat nú samt ekki á traktornum því ég hjólaði alltaf á milli staða þar sem verið var að slá til þess að líta eftir og stjórnast í krökkunum. Við slógum líka garða fyrir lífeyrisþega og tókum að okkur slátt fyrir einstaklinga þar fyrir utan. Þar komu nokkrir þjóðþekktir menn við sögu einkum á norðanverðu Nesinu. Annað sem ég fékkst við var að bera blöðin út. Ég bar Tímann, Alþýðublaðið og Þjóðviljann út og þá náði blaðburðarhverfið mitt yfir næstum allt Seltjarnarnes. Þó var ég bara með átta eða tíu blöð minnir mig. Þau höfðu ekki mikla útbreiðslu á Nesinu. Svo hækkaði ég í tign í blaðburðinum og fór að bera Moggann út. Við það stækkaði bunkinn í 80 blöð og svæðið minnkaði niður í eina götu.“

Pólitíkin er svona

Svo kom að því að verða fullorðinn, flytja að heiman og fara í Háskólann. „Það er rétt. Ég hafði kynnst Steingerði í MH og við ákváðum að fara að búa. Hún var úr Hlíðunum og við settum fyrsta heimilið okkar saman þar. Ég velti aðeins fyrir mér hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur. Tölvunarfræðin lá ef til vill beinast við vegna þess að ég hafði ungur – nánast sem barn farið að fást við tölvur. Mér fannst þó það ekki passa alveg nógu vel. Mig langaði til þess að fást við eitthvað annað og fór að læra heimspeki. Páll heitinn Skúlason prófessor og fyrrum rektor var þá forseti heimspekideildar og aðalkennari minn. Á milli okkar sköpuðust góð tengsl og vann ég til dæmis eitt sumar hjá honum á Siðfræðistofnun. Ég var hins vegar aldrei í löngu fríi frá tölvunum. Um árabil vann ég með fram námi hjá Johan Rönning sem var með umboð fyrir ABB alþjóðlegt fyrirtæki á sviði rafmagnsverkfræði. Þá voru stóriðjumálin að fara í fullan gang; stækkun í Straumsvík og fyrsti áfangi nýs álvers á Grundartanga. Vegna þess að ég var tölvugaur næstum frá bernsku hafði mér verið falið að sjá um útgáfu- og kynningarmál fyrir fyrirtækið. En svo lenti maður í því að hjálpa til í stóru verkefnunum – viðskiptavini á borð við stóriðjufyrirtækin og inn í þetta komu alls kyns reddingar. Einhverju sinni var ég að aðstoða við að sækja um atvinnuleyfi fyrir um 300 Rúmena sem voru tilbúnir að koma hingað til starfa sem málmiðnaðarmenn við að setja upp hreinsibúnað. Stéttarfélögunum hér leist hins vegar ekkert á þetta og héldu því fram að hér vantaði enga erlenda málmiðnaðarmenn. Til að sanna þetta mál var flestum málmiðnaðarmönnum landsins smalað saman og stjórnvöld heimiluðu ekki komu Rúmenanna að sögn til þess að vernda störf málmiðnaðarmanna. En pólitíkin er víst svona.“

Bólur rísa og hníga

Ásgeir kveðst hafa kynnst ýmsu í alþjóðlegum viðskiptum í störfum sínum hjá Rönning. Þessi starfsreynsla varð til þess að vekja áhuga hans á MBA námi og að ná sér í alþjóðlega viðskiptagráðu. „Við Steingerður byrjuðum að eignast börn undir lok námsins í Háskólanum, og því bætti ég sennilega hagfræðinni við sem aukagrein með heimspekinni. Þá var hins vegar ekki farið að kenna MBA námið hér á landi og þegar hér var komið sögu fórum við til Noregs í framhaldsnám. Við vorum þar í eitt ár og ég lauk náminu. Kennslan í Osló var öll á ensku sem kom sér ágætlega fyrir mig sem hafði ekki staðið mig sérstaklega vel á málabrautinni í MR. Þetta var í byrjun aldarinnar og fyrri bólan var sprungin. Á þessum tíma var verið að segja fólki upp störfum í stórum stíl í Skandinavíu og þarna má segja að ég hafi kynnst alvöru bóluhagfræðinnar. Ég lærði mikið um bólur og náði að skilja betur hvernig ris þeirra og hnig urðu og verða að veruleika.“

Útlönd kölluðu á ný

Ásgeir segir að á Noregstímanum hafi tilfinningin um að eiga heima á tveimur stöðum fengið nýja merkingu. Að þessu sinni í tengslum við Noreg og Ísland eða Osló og Reykjavík. Það leið heldur ekki á löngu þar til hann fór að huga að utanför að nýju. „Mig fór að langa aftur út. Ég held að til þess að virkilega verða alþjóðlegur þurfi maður af flytja tvisvar burt af landinu og ég ákvað að velja þá leið. „Þegar við komum heim frá Noregi var minn gamli kennari Páll Skúlason orðinn rektor og ég fékk vinnu fyrst á rektorsskrifstofunni í Háskólanum og svo sem skrifstofustjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs. Þá voru ýmsar stórar framkvæmdir í gangi við Háskólann. Verið var að ljúka við byggingu Öskju og undirbúa Vísindagarðana og byggingu Háskólatorgsins. Ég vann mikið með Páli og Ingjaldi heitnum Hannibalssyni prófessor að þessum málum. Þetta voru mjög ánægjulegir tímar en útlönd kölluðu á ný. Við fórum aftur utan 2004 en ég var enn að vinna að hluta við að ljúka uppgjöri vegna Öskju fyrstu mánuðina úti en einnig að reyna að komast í doktorsnám í Gautaborg. Það var vandkvæðum bundið vegna fjármögnunar og ég sótti í staðinn um nokkur norræn störf í millitíðinni. Ég fékk þá um vorið vinnu sem svæðisstjóri Norðurlandanna hjá alþjóðlegum fjárfestingarsjóði. Yfirmaður sjóðsins í Evrópu var Hollendingur og hann tók áhættuna af því að ráða ungan íslenskan heimspeking og fyrrverandi tölvunörd með MBA próf sem var þar að auki innflytjandi fremur en reyndan sænskan lögfræðing sem féll alveg að starfslýsingunni. Ég starfaði síðan hjá sjóðnum til vorsins 2008 en Norðurlöndin öll voru vinnusvæði mitt að Íslandi undanskildu. Það hjálpaði mér líka á þessum tíma að ég tengdist engum íslenskum fjárfestum. Ég þurfti stundum að taka það skýrt og skorinort fram í upphafi funda til að öðlast trúverðugleika fjárfesta að vera alls ótengdur íslenskum fjárfestingum vegna þess að þarna töldu reyndir menn Íslendinga vera að gera mjög sérkennilega hluti á fasteignamarkaði. Á þessum þremur árum bar ég ábyrgð á byggingu á 200 þúsund fermetrum af atvinnuhúsnæði. Einkum í Svíþjóð en einnig í Noregi og Danmörku – fjárfestingum fyrir um 25 milljarða króna í nýbyggingum, þetta var mikil reynsla og maður lærði mikið og hratt.“

Seðlabankarnir björguðu fjármálakerfi heimsins

„Námið varð því aðeins að bíða en snemma árs 2008 hafði ég aftur samband við prófessorinn minn í háskólanum í Gautaborg um hvort ég kæmist ekki aftur í doktorsnámið. Ég fann að ég skildi ekki alveg hvað var að gerast og yrði að viða að mér meiri þekkingu á þessu sviði. Upphaflega hafði ég hugsað mér að skrifa doktorsritgerð um verðmæti fasteigna þar sem ég gæti að hluta byggt á starfsreynslu minni. En tveimur vikum eftir að ég hóf doktorsnámið í september 2008 hrundi fjármálakerfi heimsins. Ég hóf engu að síður rannsóknir og vinnu við að skrifa ritgerð um langtíma fjárfestingar og verðmat fasteigna. En tveimur árum síðar skipti ég um ritgerðarefni og hóf að rannsaka sérstaklega bankastarfsemi. Eftir allt sem hafði gengið á í banka- og fjármálakerfinu fannst mér að einhver yrði að taka sér þetta verk fyrir hendur að rannsaka bókhald í bönkum. Þessi forvitni tengist heimspekináminu líka að einhverju leyti. Að vilja sjá hvernig hlutirnir virka.“ Ásgeir kveðst þó eingöngu hafa skrifað um skandinavísku bankana en látið þá íslensku eiga sig í bili. Ritgerð hans ber heitið „Sjóðsstreymi banka og flæði peninga“. Eftir heimkomuna og doktorsvörnina á síðasta ári hóf Ásgeir að kenna við Háskóla Íslands og tók í framhaldi af því við stöðu lektors í fjármálum og reikningshaldi við viðskiptafræðideild. „Ég er í hlutastarfi við Háskólann í dag vegna þess að ég fékk fyrr á þessu ári þriggja ára rannsóknarstyrk frá Svíþjóð til þess að halda bankarannsóknunum áfram. Ég tel mikilvægt fyrir mig að halda þessu starfi áfram og vera þannig tengdur bæði hér heima á Íslandi og í Svíþjóð en einnig hinu alþjóðlega rannsóknarumhverfi. Ég hef líka verið að kynna doktorsritgerðina mína víða erlendis. Áherslan núna er bæði á að rannsaka viðskiptabanka og Seðlabanka,“ heldur Ásgeir áfram. Þegar maður fer að skoða banka og flæði peninga beinast rannsóknirnar fljótt að seðlabönkum og kemur í ljós að þeir eru trúlega einar mikilvægustu stofnanir samfélagsins nú um stundir. Eftir alþjóðlega fjármálahrunið 2008 voru það seðlabankar víða um heim sem raunverulega björguðu fjármálakerfi heimsins.“

Verð áfram að fást við hugtökin „heiman og heim“

Talið barst að lokum að Íslandi dagsins í dag. Hvað hefur breyst. Á hvað leið eru bankamálin. Er önnur bóla í uppsiglingu eins og stundum er farið að halda fram? Ásgeir segist enn vera eins og hálfgerður innflytjandi, nú á Íslandi. Búinn að vera svo lengi í burtu. „Ég er búinn að vera hér heima í tvö ár og hef verið að reyna að setja mig inn í þessi mál. Það hefur margt gerst hér á landi á undanförnum árum og margt breyst. Ef til vill er það grunnurinn úr heimspekinni hjá mér sem kallar eftir að skilja málin til hlítar. Ekki taka neina skoðun eða kenningu sem sjálfgefna og reyna að greina á milli orsaka og afleiðinga, skoðana og staðreynda. Mér finnst ég enn vera svolítið villuráfandi í þessum efnum hérlendis, enda fylgist ég satt að segja mun meira með hinu alþjóðlega kerfi. Það er ákveðinn hraði að færast hér í efnahagsmálin en hversu mikill hann kann að verða er óvíst enn sem komið er, og hvort hann er sjálfbær er svo stóra spurningin. Eitt af því sem ég sé er vaxtarstigið. Hve því er haldið háu miðað við nágrannalöndin er visst áhyggjuefni. Mér finnst það ekki vita á gott. En eitt af nýju verkefnum mínu er að fylgjast betur með þróuninni hér heima og bera saman við nágrannalöndin. Ég verð því áfram að fást við hugtökin heiman og heim. Líka í hagfræðinni og rannsóknum mínum á alþjóðlegri bankastarfsemi. Mér finnst ég eiga heima bæði hér og í Evrópu. Rétt eins og þegar ég hjóla Neshringinn. Þá finnst mér ég vera kominn heim.“

You may also like...