Sé fyrir mér sambýli og samfélag fólks og fyrirtækja

Þór Sigfússon stofnandi og framkvæmdastjóri Sjávarklasans.

– segir Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans –

Á Grandagarði 16 í Örfirisey er hús sem löngum gekk undir nafninu Bakkaskemma. Húsið var byggt af Reykjavíkurhöfn árið 1976 og hafði Hampiðjan lengi afnot af stórum hluta þess þar sem unnið var að netagerð. Þetta var á þeim tíma er nánast eingöngu var að finna útvegsstarfsemi og greinar henni tengdar í þessum borgarhluta. Í byrjun þessarar aldar fór aukið líf að vaxa á Grandagarðinum. Ný fyrirtæki komu þar til sögu – fyrirtæki sem oft unnu að öðru en sjávarútvegi. Má þar nefna verslun, hönnun og nýsköpun og síðan veitingarekstur. 

Segja má að stanslaus uppbygging hafi verið í Örfirisey það sem af er 21. öldinni. Bakkaskemman fór ekki varhluta af þessu breytta umhverfi því á árinu 2012 flutti Íslenski sjávarkalsinn inn í hluta hússins við Grandagarð 16 þar sem um 25 sprotafyrirtæki fengu aðstöðu. Um ári síðar var annar hluti húsnæðisins tekin í notkun og nú er Sjávarkalsinn með alla efri hæð hússins eða alls um 2.700 fermetra auk hluta neðri hæðar. Þar eru nú starfandi um 100 fyrirtæki og um 140 einstaklingar hafa starfsstöð í húsnæðinu. Núverandi rými er fullnýtt en mikil eftirspurn er enn fyrir hendi og fyrirhugað að bæta frekar við húsnæði. Fyrirtækin í Sjávarklasanum eru af ýmsum toga en eitt af markmiðunum er að viðhafa ákveðna fjölbreytni í húsinu þótt mörg þeirra tengist sjó og sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Nú hefur Íslenski ferðakalsinn tekið til starfa á Grandanum þar sem unnið á svipuðum nótum að ferðamálum og síðast en ekki síst hefur Mathöllin notið mikilla vinsælda frá því hún var opnuð á neðri hæð við Grandagarð 16 fyrr á þessu ári. En hvert var upphafið af þessari fjölbreyttu starfsemi. Að gömul netagerð var að klasa framsækinna sprotafyrirtækja. Vesturbjarblaðið hitti Þór Sigfússon stofnanda og framkvæmdastjóra Íslenska sjávarklasans á dögunum.

Byrjaði í doktorsverkefni

Þór segir aðdragandann að þessu hafa verið að hann fór til framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Doktorsverkefni sitt hafi fjallað um frumkvöðla og hvernig mætti nýta tengslanet til þess að þróa hugmyndir og koma þeim í framkvæmd. Hann kveðst meðal annars hafa notið dyggar aðstoðar Ingjalds heitins Hannibalssonar og Ragnars Árnasonar prófessora við verkefni sitt. “Hugmyndin var að skoða hvort og hvernig væri hægt að auka þau verðmæti sem verða til úr sjávarafla með því að nota ákveðna tækni. Þar á ég við þá tækni sem samtenging býður upp á en hefur oft verið vanmetin og um leið að skoða áhrif sjávarútvegs á íslenskt efnahagslíf. Þarna vaknaði áhuginn fyrir alvöru hjá mér. Áhugi á að finna leiðir til þess að stækka sjávarútveginn með því að nota tengingar við aðra aðila. Þarna sáum við fljótt möguleika á að framleiða heilsuvörur og jafnvel snyrtivörur úr sjávarfangi sem á árum áður var jafnvel látið fara fyrir borð. Þetta endaði með því að ég tók þetta fyrir í doktorsnáminu við Háskólann og skrifaði doktorsritgerð um verkefnið. Þar má segja að upphafið hafi legið. Á árinu 2012 vorum við nokkur búin að hóa okkur saman. Við vorum átta sem byrjuðum. Þótt við höfum tekið þetta skref fyrir skref eins og sagt er hefur þróunin orði hröð því nú erum um 100 aðilar komnir hér með aðstöðu og störf. Staðsetningin og húsnæðið getur ekki verið betra. Við erum alveg í rétta umhverfinu hér við höfnina. Viðtökurnar hafa verið góðar og mun hraðari en við bjuggumst við. Ég held að sá skilningur vaxi hratt að samskipti og samstarf fólks jafnvel af ólíkum toga og með mismunandi áhugamál, reynslu og starfsemi sem þó tengist að einhverju leyti fæði af sér nýjar hugmyndir og starfsemi. Ég hef stundum sagt að kaffikannan geti skilað meiru en góðum kaffisopa. Fólk hittist á kaffistofunni, lætur renna í bollann sinn og sest niður og spjallar. Síðan fæðast hugmyndir og nýjar tengingar. Þetta gengur koll af kolli. Ég man að þegar við vorum að byrja þá áttu sumir erfitt með að skylja þessa hugmyndafræði. Átta sig á út á hvað hún gengi. Þetta var nýtt fyrir mörgum en þegar fólk fór að hugsa um þetta af alvöru kom það auga á möguleikana.” 

Bakkaskemman á Grandagarði hýsti áður netagerð en nú eru þar yfir hundrað fyrirtæki sem mörg tengjast sjávarútvegi og fleiri vilja bætast í hópinn.

Byggist á að fá fólk til að vinna saman 

Þór bendir á að í næsta nágrenni við Sjávarklasann sé verið að byggja Hús ferðakalsans upp. “Þar er verið að vinna að ferðamálum og þróun tengdri þeim á sömu forsendum og Sjávarklasinn hefur verið byggður upp. Þau eru að vinna á sama hátt og við. Eigum við að segja á sama “kaffikönnu grunninum” og við erum að vinna á. Að fá fólk til þess að vinna saman.” Þór segir að um 70% þeirra fyrirtækja sem eiga í samstarfi við Sjávarkalsann eigi einnig í samstarfi við aðra aðila. “Það er mikilvægt að fá sem flesta til liðs við okkur. Þannig fæst mismunandi fagþekking fólks og blandast saman. Þarna á ég bæði við aðila sem eru að starfa í sjávarútvegsgeiranum og einnig á öðrum stöðum atvinnulífsins. Þetta er allt nátengt. Matvælaiðnaðurinn eins og hann leggur sig. Hönnuðir sem eru að þróa umbúðir, markaðsfólk sem er að leita nýrra markaða, bæði fyrir þekktar vörur og einnig vörur sem eru að verða til fyrir nýsköpun og svona mætti telja áfram. Það er líka mikilvægt fyrir okkar að fá fólk sem er að leita eftir samstarfi við aðra bæði í starfsemi tengdri sjávarútvegi en einnig í öðru.”

Eins og sýning sem er opin allan ársins hring

Þegar farið er um húsnæði sjávarklasans vekur athygli hversu rúmgott og bjart þar er yfirlitum jafnvel þótt sums staðar megi sáttir nokkuð þröngt sitja. Þór segir samskipti á milli aðila mikil en einnig sé lögð áhersla á að hafa góð fundarherbergi þegar einhverjir vilji vera í næði með samstarfsmenn eða gesti sína. “Það má ef til vill segja að húsnæðið hjá okkur virki eins og sýning sem er opin allan ársins hring. Fólk á eitthvert erindi hingað. Ef til vill við eitt fyrirtæki innan klasans en áður en langt er um liðið hafa menn verið sestir á rökstóla með fulltrúum fjölda annarra fyrirtækja. Því má segja að hvert fyrirtæki virki eins og segull. Þannig verða hin mannlegu samskipti til sem eru upphaf alls. Þannig virkar kaffikönnukenningin.” Þór segir að í nýlegri athugun Íslenska sjávarklasans á samstarfi fyrirtækja þar hafi komið í ljós að um 70% þeirra höfðu átt samstarf við annað fyrirtæki í húsinu á undanförnum tveimur árum. Hann segir að þetta hlutfall sé töluvert hærra þegar Sjávarkalsinn er borinn saman við sambærileg hús eða fyrirtæki erlendis þar sem svipaðar aðstæður eru í boði. Þetta kemur að nokkru til af því að fyrirtækin deila sameiginlegu rými. Þá flæða upplýsingarnar fyrr á milli og hugmyndir þróast – oft í aðrar áttir en þegar fólk fer fyrst að spjalla saman.”

Fjölmenni í Mathöllinni. Á myndinni sest bæði hversu hrátt húsnæðið er en einnig litríkt og skemmtilegt.

Mathöllin nýtur sívaxandi vinsælda

Fyrsti „götubita“ staðurinn á Íslandi, Grandi mathöll var opnaður fyrir gesti og gangandi helgina 1. til 3. júní samhliða Hátíð hafsins á liðnu sumri. Grandi mathöll er staðsett í húsi Sjávarkalsans og hluti af starfsemi hans. Þar bjóða níu veitingabásar eða -vagnar upp á frumlega rétti með áherslu á íslenskt hráefni. Þeir bjóða einnig upp á íslenskt grænmeti og brauð, ásamt kaffi, bjór og víni. Nálægðin við sjóinn er einstök og alveg eins víst að gestir upplifi löndun á fiski – fiski sem gæti endað á diskum gesta. Þá verða seldar vörur matarfrumkvöðla sem hafa aðsetur á efri hæð í Húsi sjávarklasans. Þór segir fyrirmyndina að Granda mathöll megi meðal annars rekja til Copenhagen Street Food á Papirsöen í Kaupmannahöfn. “Götubitastaðir eiga sér langa sögu í alþjóðlegri matarmenningu. Fyrstu götubitastaðirnir sem sögur fara af buðu Forngrikkjum upp á steiktan fisk og þeir voru lengi vinsælir á meðal fátækra fjölskyldna. Þetta hefur breyst í tímans rás og nú eru slíkir staðir vinsælir um allan heim. Einkenni götubitastaða nútímans eru að þeir bjóða ýmsa smárétti á viðráðanlegu verði og eru oft í eigu fjölskyldna eða einstaklinga sem sjálf vinna við matargerðina.” Þór segir að upplifunin á Granda mathöll verður ekki einskorðuð við mat og drykk því litríkt umhverfið, þar sem hver bás hefur sinn stíl, í návígi við einstakt hafnarútsýnið muni búa til skemmtilega karnival stemmningu við höfnina.”

Þurfum meira rými 

En hvað með framtíðina. Á að láta staðar numið eða halda áfram á sömu braut og jafnvel að þróa aðrar. “Við ætlum að halda áfram,” segir Þór. “Vaxtamöguleikar fyrir smærri fyrirtækin sem eru hér í Klasahúsinu eru takmarkaðir og einnig eru nokkur fyrirtæki á biðlista um að komast að. Við áætlum að taka alla neðri hæðina hér í notkun en Matarhöllin er nú þegar þar í um 600 fermetra rými. Mér finnst eðlilegt að horfa til lengri framtíðar og meta hvaða möguleikar geta verið í boði þegar um stækkun Sjávarklasans er að ræða. Ég sé fyrir mér að við þurfum meira rými og þá koma fram spurningar um möguleikana á að stækka þetta hús. En ef við horfum lengra fram í tímann þá er reynslan erlendis frá sú að starfsemi af þeirri gerð sem Sjávarkalsinn er eflist önnur starfsemi í nándinni og umhverfið allt. Þetta er þegar orðin raunin hér á Grandagarðinum. Fjölmennir hópar starfsfólks á Grandanum og nágrennis og gesta þeirra njóta þjónustu veitingahúsa sem staðsett eru hér í Sjávarkalsanum. Hópur hönnuða sem staðsettir eru í gömlu verbúðunum hér hinum megin við götuna gera svæðið áhugavert og nálægðin við höfnina og einnig fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi í ýmsum myndum.”

Nýsköpunarbyggð í Örfirisey 

“Ef við horfum til lengri tíma er draumurinn sá að nýsköpunarbyggð verði til í Örfirisey. Með Sjávarklasanum og nú Ferðaklasanum er kominn ákveðinn grunnur. Við erum byrjaðir og því þá ekki að halda áfram. Víða erlendis hafa núsköpunarbyggðir risið á eldri hafnarsvæðum. Gott dæmi um það er í Boston þar sem húsnæði sem áður hýsti verksmiðjur og vöruskemmur hýsir nú nýsköpunarfyrirtæki, hönnunarstofur, auglýsingastofur, gallerí og jafnvel háskólastofnanir. Þarna kemur deilihagkerfið við sögu og einnig sú þróun að borgir eru í auknum mæli að færa sig til sjávar. Atvinnulífið fer á undan og þá kýs fólk einnig að búa á þessum svæðum.”

Takmörkuð íbúðabyggð tengd við atvinnustarfsemi

Þór segir að frá því að Íslenski sjávarklasinn fór af stað á hafnarsvæðinu hafi hann vaxið og dafnað. Það rými sem hann hafi sé nú komið að þanmörkum og ljóst að nú þurfi að stíga næstu skref í uppbyggingu. “Ég tel mikla möguleika á frekari vexti hér í nærumhverfinu og tækifærin til að gera byggðina skemmtilegri fjölmörg. Við það nýtast vonandi sumar af þeim hugmyndum og fyrirmyndum sem við höfum verið að kynna. Sjávarklasinn vill vera virkur þátttakandi í þróun Örfiriseynnar. Ég tel að í þessu verkefni sem sjávarklasinn er felist mörg áhugaverð tækifæri verði rétt haldið á málum. Við erum því reiðubúin til samstarfs við þá aðila sem eru áhugasamir um að auka uppbygginguna.” Þór bendir á að í dag sé Örfirisey um 55 hektarar að stærð og hafi verið stækkuð um 35 hektara með landfyllingum frá árinu 1968. Fyrir rúmum áratug voru uppi hugmyndir um íbúðabyggð á Grandanum en síðar var fallið frá þeim og hinn eiginlegi Grandi er í dag allur skilgreindur sem atvinnu- og hafnarsvæði. Eftir það fór aðdráttarafl svæðisins að aukast verulega og þar hefur risið upp margvísleg starfsemi. Þór hefur lagt fram hugmyndir um að tengja megi þá atvinnubyggð sem nú er að rísa í Örfirisey við íbúðabyggð eða blanda henni saman. “Ég hef kynnt þessar hugmyndir fyrir Reykjavíkurborg og einnig fyrir Hjörleifi Jakobssyni sem á fasteignir á þessu svæði. Þarna er ég með litlar íbúðir í huga. Íbúðir þar sem fólk hefur sitt einkalíf en nýtir síðan önnur rými sameiginlega á grundvelli deilihagkerfis. Yngra fólk gerir aðrar kröfur í dag en margir hinna eldri. Það leggur meiri áherslu á umhverfismál og þekkir líka betur til kosta deilihagkerfisins. Ég sé alveg fyrir mér að sambýli og samfélag fólks og fyrirtækja geti þróast með þessum hætti í Örfirisey.” 

You may also like...