Vesturbærinn er gott samfélag

Dagny Annas 1

Dagný Annasdóttir skólastjóri í Melaskóla.

Melaskóli mun fylla sjö áratuga starf á næsta ári. Um 660 börn stunda nú nám í skólanum í 29 deildum. Sérstaða skólans felst einkum í aldri hans og starfstíma í gegnum árganga og kynslóðir, námsskrár og kennsluhætti. Skólahúsið var byggt 1946 rétt eftir heimsstyrjöldina síðari og ljóst þegar gengið er þar um ganga og sali að vel hefur verið vandað til allra verka og alúð lögð við að byggja vandaða umgjörð til þess fallna að laða fram það góða sem býr í börnum. Margt hefur drifið á daga á starfstíma Melasóla og breyst í áranna rás. Stefna skólans hefur þó alltaf byggst á framsækni – að vera framsækinn skóli sem tileinkar sér nýjungar sem fram koma á hverjum tíma. Nú á haustnóttum er lestrarkunnátta til umræðu eftir að ljóst hafði orðið að hluti ungmenna sem kominn er á framhaldsskóla aldur einkum drengir geta ekki lesið sér til gagns. Í stað þess að elta fortíðina og leita sökudólga um hvað geti verið að var ákveðið að efna til þjóðarátaks til styrktar lestri sem ríki og sveitarfélög rekstraraðilar grunnskólans taka þátt í auk skólanna sjálfra. Vesturbæjarblaðið hitti Dagnýju Annasdóttur kennara og talmeinafræðing og skólastjóra Melaskóla að máli á dögunum.

Dagný leggur í upphafi samtals áherslu á stefnu skólans um framsækni – segir að Melaskóli sé framsækinn skóli sem starfi í einu af grónari hverfum Reykjavíkur. „Við vinnum eftir þeirri reglu í skólastarfinu frá degi til dags að reyna að hlúa að því besta úr hefðum og umgengnisreglum sem hafa skapast í áranna rás og deila því með nýjungum. Við byggjum starfið á ákveðnum einkunnarorðum sem eru; virðing, samvinna, ábyrgð, sköpunargleði og framtíðarsýn. Þetta eru allt gildishlaðin hugtök sem vísa þann veg að öllum eigi að líða vel í skólanum ásamt því að ná hámarksárangri í námi við hæfi hvers og eins því engir tveir eru eins og öllum hentar ekki það sama hvorki í skóla eða í lífinu.“

Læsið er grunnþáttur menntunar

„Já – það er rétt. Í vetur munum við leggja áherslu á lestur vegna þess að læsið er einn af grunnþáttum menntunar og í ljósi þess fer þjóðarátakið nú fram. Við þurfum að leggja áherslu á námsmat og hvernig unnt er að mæla árangur nemenda. Námsmatið er stöðugt í endurskoðun með það fyrir augum hvernig við getum sem best mælt árangur nemenda. Annað sem við leggjum áherslu á er stærðfræði og síðan teymis- eða samvinna kennara. Þá get ég nefnt að í Melaskóla er búið að vinna gott starf við að rækta grænt svæði innan skólalóðarinnar og planta trjám þar sem nú er komin ágæt aðstaða fyrir útikennslu. Os svo vinnum við eftir Olveusaráætluninni um einelti. Sú vinna hefur gefist okkur vel. Við reynum að taka strax á slíkum málum komi þau upp. Við höfum lagt mikla vinnu í það starf og sem betur fer reynist einelti mjög lítið hjá okkur.“

Höfum getað endurnýjað tæki og búnað

Talið berst að starfi og ábyrgð skólastjórans sem Dagný segir öðrum þræði snúast um rekstur. „Skólastjórinn ber fjárhagslega ábyrgð á skólanum. Hann þarf að vinna fjárhagsáætlun sem unnið er eftir og segja má að hann sé einnig skólagjaldkeri vegna þess að hann þarf að skrifa upp á reikningana eins og um fyrirtæki væri að ræða. Skólastjórinn þarf á hverjum tíma að vita hvaða borð er fyrir báru í rekstrinum. Hvað hægt er að veita sér og gera starfinu á hverjum tíma. Kaupa inn búnað og annað sem skólinn þarfnast. Annað er að annast mannaráðningar. Hér eru um átta tugir starfsfólks. Skólastjórinn sér um að auglýsa laus störf og kalla fólk í viðtöl sem sýnir þeim áhuga. Einnig þarf að skoða þann tíma sem skólinn hefur til umráða og finna út hvernig hans nýtist auk þess að samræma vinnutíma kennara eftir nýjum kjarasamningum því allt gengur þetta út á að sýna ábyrga fjármálastjórn. En einkum snýr starfið þó að hinu faglega skólahaldi í samræmi við lög og reglur um grunnskóla og huga að og halda utan um mannauðinn sem er starfandi innan veggja skólans – starfsmenn og nemendur. Það þarf að finna sterkar hliðar starfsfólksins og reyna að virkja þær eftir bestu getu. Auk sögunnar og mannauðsins sem hér er til ataðar þá höfum við getað endurnýjað mikið af tækjum og búnaði sem kemur okkur til góða. Við höfum náð að halda nokkuð vel í við tæknina eftir því sem það er hægt – búin að fá skjávarpa og ipoda og annað sem nú heldur innreið í nútíma skólastarf.“

Öflugt fagfólk og sterkt bakland

Dagný segir Melasóla í þeirri góðu stöðu að eiga sér mjög öflugt og sterkt fagfólk sem búi að góðri menntun og reynslu og eigi sér einnig hugsjón til þess að starfa eftir og metnað til þess að byggja upp góðan skóla og öflugt lærdómssamfélag. „Þá held ég að við eigum að baki okkur gott foreldrastarf. Við erum með skólaráð þar sem tveir fulltrúar foreldra eiga sæti og ég held að þegar þessu þríhyrningur; starfsmenn, nemendur og foreldrar starfa saman náum við fram góðu og árangursríku skólastarfi.“ Dagný segir skóladvölina í Melaskóla oft ganga í ættir. „Við erum með börn sem eiga foreldra og jafnvel afa og ömmur sem hafa gengið í Melaskóla og eiga góðar minningar þaðan. Það skapar ákveðna virðingu um skólann og það er mikilvægt fyrir börnin ekki síður en skólann að talað sé vel um hann í áheyrn þeirra og borin virðing fyrir honum vegna þess að hann sé hlýlegur vinnustaður. Við finnum þetta hér í skólastarfinu.“

Finn fyrir hlýlegum bæjarbrag í Vesturbænum

Dagný er Vestfirðingur. Fædd og alin upp á Ísafirði þar sem hún gekk í menntaskóla. Fyrst hjá Jóni Baldvin Hannibalssyni og Bryndísi Schram og síðar Birni Teitssyni frá Brún í Reykjadal sem tók við af þeim fyrir vestan. Hún segir að margir hafi staldrað við eftirnafn sitt Annasdóttir og spurt hvað það merki. Hún segir sögu að baki þess. „Faðir minn hér Annas J. Kristmundsson og var stýrimaður á Ísafirði. Nafnið er þannig tilkomið að móðir hans hét Anna Jónsdóttir frá Ósi í Steingrímsfirði og lést hún af barnsförum þegar faðir minn fæddist. Ákveðið var að skýra föður minn í höfuðið á látinni móður sinni og þá fóru af stað vangaveltur um hvernig hægt væri að skrifa Ömmu nafnið í karlkyni. Niðurstaðan varð Annas en það beygist eins og Jónas sem er dregið af Jóns nafninu með því að as er bætt aftan við. Jónas er algengt nafn á Íslandi en Annas nafnið hefur ekki náð útbreiðslu.“ Dagný segir það hafa verið hlýlegt að alast upp í litlum bæ úti á landi eins og Ísafirði. Fólk þekktist og var umhugað um hvort annað. Það hittist á götuhornunum og spurði um líðan hvers annars og var jafnvel umhugað um að líta hvert til annars. Fólk notar facebookina í dag. Það skiptist á sjónarmiðum, upplýsingum og hugsar vel hvort til annars. Ég er þeirrar trúar að sú tækni styrki og treysti samskiptin og böndin á milli fólks. Þegar ég kom í Vesturbæinn fannst mér ég finna fyrir þessum hlýlega bæjarbrag sem einkenndi Ísafjörð þegar ég var að alast þar upp. Maður tengist fólkinu líka í gegnum skólastarfið vegna þess að skólinn er hjarta hvers samfélags. Svo margir tengjast honum á einhvern hátt. Fólk á börn, barnabörn, frænda eða frænkur í skólanum og allir hafa einhverja skoðun á skólanum og skólastarfinu. Vesturbærinn er að mínu mati þétt og gott samfélag þar sem samfélagskennd íbúanna fær að njóta sín.“

You may also like...