Breiðholtsbylgjan haldin í þriðja sinn

Breidhot okt bls 2 1

Setningarathöfn Breiðholtsbylgjunnar fór fram í Íþróttahúsinu við Austurberg.

Breiðholtsbylgjan, starfsdagur starfsmanna ríkis, borgar, félagasamtaka og fjölda annarra starfsmanna sem vinna með íbúum í Breiðholti, var haldin með glæsibrag föstudaginn 9. október sl. Á sjöunda hundrað manns tóku þátt í starfsdeginum sem samanstóð af skemmtilegum smiðjum, um 30 talsins, þar sem margir ólíkir aðilar miðluðu þekkingu sinni.

Fulltrúum foreldrafélaga og dagforeldrum í hverfinu var nú boðið að vera með í fyrsta skipti. Tilgangur Breiðholtsbylgjunnar er að styrkja þverfaglegt samstarf og skapa samstarfsvettvang fyrir starfsmenn sem vinna með íbúum í Breiðholti. Ætlunin er að sá vettvangur nýtist til að miðla reynslu og þekkingu á hugmyndum og aðferðum sem starfsfólk hefur aflað sér í sínum störfum. Yfirskrift starfsdagsins var “Heilsa, læsi og vellíðan”. Sérstök áhersla var lögð á að kynna viðamikið verkefni um Heilsueflandi Breiðholt, en það felur í sér gríðarlega viðamikið samstarf stofnana og íbúa í Breiðholti. Afhjúpað var nýtt auðkenni fyrir verkefnið, hannað af stórhönnuðinum Bobby Breiðholt, góðvini hverfisins. Setningarathöfn dagsins fór fram í Íþróttahúsinu við Austurberg, en þar spilaði Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts nokkur skemmtileg lög, borgarstjóri ávarpaði þátttakendur og Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, hélt fyrirlestur um hamingjuna. Í framhaldinu voru smiðjur haldnar í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Gerðubergi. Um miðbik dagsins voru síðan frímínútur þar sem alir þátttakendur fengu sér hressingu og hlýddu á uppistandarann Andra Ívarsson fara með gamanmál. Það var mál viðstaddra að starfsdagurinn hefði tekist sérstaklega vel í þetta skipti, en þetta er í þriðja skipti sem Breiðholtsbylgjan er haldin.

You may also like...