Mat á vellíðan og námi leikskólabarna

Samstarf RannUng

Undirritun samstarfssamningsins fór fram í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð. F.v. eru Arna H. Jónsdóttir sem undirritaði samninginn yfir hönd stjórnar RannUng, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæjar, Magnús Baldursson sem undirritaði samninginn fyrir hönd Hafnarfjarðar, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæjar og Anna Birna Snæbjörnsdóttir frá Kópavogsbæ.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi undirritaði á dögunum samstarfssamning f.h. Seltjarnarnesbæjar við Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) um Mat á vellíðan og námi leikskólabarna. Verkefnið er hluti af samstarfssamningi sveitarfélaganna í Kraganum við RannUng.

Markmið samstarfsins er að auka þekkingu á leikskólastarfi í sveitarfélögunum og stuðla að auknum gæðum í leikskólastarfi. Verkefnið verður unnið með þátttöku Leikskóla Seltjarnarness og snýst um rannsókn á innleiðingu námsmats í anda leiðbeininga frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Námssögum og uppeldisfræðilegum skráningum, ásamt verkum barna verður safnað í ferilmöppu fyrir hvert barn. Á árunum 2015 til 2018 verða haldin námskeið fyrir kennara og annað starfsfólk leikskólans og innihald ferilmöppu þróað. Þetta er ekki fyrsta samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar og Leikskóla Seltjarnarness við RannUng, en á árunum 2012 til 2014 var unnið að rannsóknarverkefninu Leikum, lærum og lifum sem er innleiðing grunnþátta aðalnámskrár leikskóla og mun afrakstur af því verkefni koma út í bók með því heiti á næstunni.

You may also like...