Seltjarnarnes er draumasveitarfélagið

Ásgerður Hall

Sveitarfélagið Seltjarnarnes hlaut nýverið nafnbótina draumasveitarfélagið í nýjasta tölublaði Vísbendingar. Þetta er annað árið í röð sem sveitarfélagið hlýtur þessa nafnbót sem byggð er á rekstrartölum úr ársreikningum, samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem fjallar vikulega um viðskipti og efnahagsmál, var fjárhagur sveitarfélaga greindur, líkt og blaðið hefur gert undanfarin ár. Sveitarfélögum eru gefnar einkunnir byggðar á nokkrum þáttum sem endurspegla fjárhagslegan styrk sveitarfélaga. Þeir þættir sem hafðir eru til viðmiðunar eru skattheimta, breytingar á íbúafjölda, afkoma sem hlutfall af tekjum, nettóskuldir sem hlutfall af tekjum og veltufjárhlutfall þar sem allir þessir þættir hafa jafnt vægi.

Lífsgæðin eru á Nesinu

„Þessari frábæru niðurstöðu ber að þakka starfsmönnum bæjarins, lögð er áhersla á skilvirka stjórnun og öfluga þjónustu við íbúa bæjarfélagsins,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri. „Við höfum verið að styrkja mikilvæga innviði í bæjarfélaginu, skólamál hafa alltaf verið forgangsmál hjá okkur og álögur eru meðal þeirra lægstu á landinu. Önnur könnun, sem okkur þykir ekki síður vænt um, sýnir að íbúar Seltjarnarness eru hvað ánægðastir íbúa sveitarfélaga landsins. Capacent gerir þessa þjónustukönnun árlega. Útkoman þar undirstrikar jákvætt viðhorf bæjarbúa til samfélagsþjónustunnar og er okkur hvatning að halda áfram á sömu braut.“ Menningarstarfsemi stendur með miklum blóma og má í því samhengi nefna nýafstaðna menningarhátíð Seltjarnarness sem haldin var í þessum mánuði. „Síðast en ekki síst er í bæjarfélaginu öflug íþróttastarfsemi en með dyggum stuðningi við barna og unglingastarf hjá Seltjarnarnesbæ er verið að treysta öflugar forvarnir fyrir unga fólkið okkar,“ segir Ásgerður.

Slæm staða sveitarfélaga

Úttekt Vísbendingar gefur til kynna að nokkur af stærstu sveitarfélögum landsins búi við veika fjárhagsstöðu. Einkunnagjöfin í ár endurspeglar erfitt árferði og versnandi afkomu sveitarfélaga. „Halli í fjárhagslegum samskiptum við ríkið er ein ástæðan fyrir slæmri afkomu sveitarfélaga. Tryggja þarf fulla fjármögnun þeirra verkefna sem sveitarfélögin hafa tekið að sér samanber málaflokk fatlaðs fólks en þar vantar gífurlega fjármuni svo málaflokkurinn standi undir sér,“ segir Ásgerður bæjarstjóri.

You may also like...