Peningalegt sjálfstæði er keypt dýru verði
Ásgeir Jónsson hagfræðingur sendi nýverið frá sér bókarkver. Í bókinni eru tvær greinar sem fjalla báðar um eftirmál stórra gjaldþrota. Sú fyrri snýr að gjaldþroti Blöndalsbúðar, stærstu vefnaðarvöruverslunar landsins í Austurstræti árið 1955. Sú síðari lýsir bankahruninu hinu fyrra árið 1930 þegar Íslandsbanki varð gjaldþrota og Útvegsbankinn var stofnaður. Bankahrunið hið fyrra árið 1930 er Íslandsbanki varð gjaldþrota varð tilefni til pólitískrar yfirtöku á bankakerfinu sem var fylgt eftir með setningu fjármagnshafta 1931 og lögsetningu vaxta 1933. Ásgeir spjallar við Vesturbæjarblaðið um þessi mál en einnig nútímann og hvort sambærileg vandamál séu enn að finna í hagkerfinu og ollu þessum tveimur afdrifaríku atburðum á liðinni öld.
En af hverju hugkvæmdist Ásgeiri að fara að kafa ofan í þessi mál. “Það er saga að segja frá því. Ég fékk nokkra árganga af blaðinu Ófeigi hjá vini mínum séra Birni Jónssyni sem var prestur á Húsavík á árum áður en hann hefur löngum fengist við bóksölu. Þar var að finna óvenju vel skrifaðar og skemmtilegar greinar eftir Jónas Jónsson frá Hriflu um íslenska fjármálakerfið þar sem hann meðal annars dregur menn sundur og saman í háði. Hvað sem annars má um Jónas segja verður vart dregið í efla að hann var góður penni – trúlega einn sá besti í sögu íslenskrar blaðamennsku og í þessum greinum í Ófeigi leiftraði af stílvopni hans. Jónas hafði sérlega gaman af því að fjalla um okurlánarana. Frá þeim tíma hefur lítið sem ekkert verið fjallað um þessi mál og mér fannst áhugavert að rifja þessa atburði upp og skoða þá með tilliti til hagfræðinnar.“
Tekið var fyrir skuldabréfasölu erlendis
Ásgeir segir að aðdraganda að þessum atburðum megi rekja til þess að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku árið 1918. “Fram til þess tíma vorum við í myntbandalagi með hinum Norðurlöndunum og föst við dönsku krónuna. Við fullveldið varð íslenska krónan sjálfstæð mynt og með mun hærri markaðsvöxtum en þegar landið var hluti af Danmörku. Ég held að menn hafi ekki skoðað þetta nægilega vel á sínum tíma og hugað að þeim afleiðingum sem þessi breyting – sjálfstæði íslensku krónunnar leiddu af sér. Það var enda svo að aðeins eftir tveggja ári fullveldi varð landið greiðslu-þrota árið 1920 og í kjölfarið féll krónan verulega í verði og landið varð að leita til Bretlands varðandi lán á mjög þröngum kjörum. Ein af afleiðingum peningalegs sjálfstæðis var að Danir hættu að kaupa íslensk fasteignaskulda-skuldabréf sem veðlánadeild Landsbankans gaf út. En fram til þess höfðu danskir fjárfestar fjármagnað íslensk fasteignalán. Þetta var alvarlegur missir þar sem þjóðin var fátæk á þessum tíma og innlendur sparnaður lítill sem enginn. Eftir fullveldið urðu því íslensk fasteignabréf nær óseljanleg og það skapaði veruleg vandræði fyrir húsbyggjendur.“
Peningaleysi skapaði farveg okurlána
„Ástandið átti enn eftir að versna við upphaf Kreppunnar miklu árið 1930 en þá rataði eini einkabanki landsins – Íslandsbanki – í veruleg greiðsluvandræði. Hann var yfirtekinn af ríkinu og endurreistur sem Útvegsbankinn. Hann féll í hóp með hinum ríkisbönkunum tveimur – Búnaðarbankanum og Landsbankanum. Þessum bönkum var einkum ætlað að þjóna atvinnuvegunum eins og heiti þeirra gefa til kynna en alls ekki að veita hinum almenna manni neina þjónustu. Þarna komu sparisjóðirnir til og nokkuð til móts við þær þarfir og einkum á landsbyggðinni fyrir utan Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis síðar SPRON og Sparisjóð Hafnarfjarðar sem störfuðu á höfuðborgarsvæðinu. Þeir voru hins vegar of veikburða til þess að geta komið að fjárfrekum framkvæmdum. Stjórnvöld ákváðu síðan í framhaldi að lækka vexti með handafli að því sem þekktist í Danmörku með lagasetningu 1933. Með þessu voru lögsettir vextir sem voru fyrir neðan markaðsvexti og jafnframt voru ríkisbönkunum þremur fengið það hlutverk að veita niðurgreiddu fjármagni í ákveðna farvegi – til undirstöðuatvinnuveganna, sjávar-útvegs og landbúnaðar sem og til landsbyggðarinnar. Eftir stóðu ákveðnir hópar án lánsfjármögnunar – þar á meðal húsbyggjendur og verslunarfyrirtæki. Og þarna var kominn grundvöllur þeirrar starfsemi sem kölluð voru okurlán.“
Höft og einangrunarhyggja – engin framþróun
Ásgeir bendir á að þarna hafi orðið annar vendipunktur í lífi þjóðar sem áratug áður hafi fengið fullveldi og reynt að fóta sig á opnum og frjálsum alþjóðamörkuðum. „Eftir þetta urðu höft og einangrunarhyggja ríkjandi. Ekki reyndist unnt að byggja upp grundvöll fyrir peningastjórn í sjálfstæðu myntkerfi og varð árangur landsmanna eftir því. Árið 1918 var íslensk fjármálasaga skilin frá öðrum löndum og nær engin framþróun varð í bankaþjónustu hér á landi fram undir lok 20. aldar. Ísland var þróað land en með mjög vanþróaða fjármálastarfsemi.“
Grunnur okurlána – tvær gerðir þeirra
Hvernig varð grunnur okurlánanna til? „Það vantaði peninga til alls og ekki þýddi að fara í banka. Fólk fór að leita til vina og ættingja sem áttu einhverja lausafjármuni. Það þróuðust tvær gerir af okurlánum. Önnur ávöxtunarleiðin fór oftast í gegnum lögfræðiskrifstofur sem voru að kaupa og selja víxla og ýmsir sem töldust eða töldu sig til góðborgara og höfðu eitthvert fé á milli handa lögðu það í þessa leið. Hin gerð okurlánanna spratt einkum upp af vínbanninu sem þá var ríkjandi. Menn sem höfðu hagnast af sölu spíra og landa fóru að leita leiða til þess að ávaxta afrakstur sinn. Og þá urðu til svokallaðir okurlánarar. Sigurður Berndsen var trúlega þekktastur þeirra sem starfræktu lánastarfsemi af því tagi og þeir voru fleiri. Þessir menn höfðu nef fyrir því hvernig mátti hagnast á lánastarfsemi til einhverra framkvæmda í peningalausu landi.“
Búðin rekin á 30 til 60% vöxtum
Ásgeir segir að verslunin hafi til dæmis þurft fé til þess að leysa út vörur. „Í upphafi árs 1955 varð Blöndalsbúðin í Austurstræti í Reykjavík gjaldþrota. Hún hafði verið verið rekin á okurlánum með á bilinu 30% til 60% ávöxtun um tíma. Framkvæmdastjóri búðarinnar mun hafa felst kaup á miklu magni af vörum erlendis frá en síðan gengið erfiðlega að selja þær hér heima og sat því uppi með stóran lager sem hann fjármagnaði með okurlánum. Það gat ekki gengið til lengdar. En þetta leiddi til þess að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd til þess að fjalla um okur. Á eftir fylgdu húsleitir, handtökur, og loks voru fjórir menn dæmdir fyrir ólöglega vaxtatöku.“
Millistétt var að myndast
Ásgeir segir að á þessum tíma – eftir stríðið hafi millistétt verið að myndast í landinu í kjölfar aukinnar velmegunar. Þetta var fólk sem fékkst við verslun og fleiri atvinnu- og þjónustugreinar sem voru farnar að eflast og því langaði til þess að kaupa sér íbúðir, bíla og svo framvegis en gramdist það sérstaklega að hvergi var aðgang að lánsfé að finna nema þá að leita til okurlánara. Það var í þessu umhverfi sem umræðan um okurlánaranna varð svo hörð. En þrátt fyrir harða þjóðfélagsumræðu eftir gjaldþrot Blöndalsbúðar, rannsóknir á lánastarfsemi og dóma fyrir okur hætti þessi starfsemi ekki og sumir þessara manna lánuðu allt fram á áttunda tug liðinnar aldar eða á meðan þeir drógu andann. Það er ekki að undra því áfram var sami fjármagnsskorturinn til staðar. Um svipað leyti, eða eftir 1955, fóru sparisjóðirnir að taka við sér. Þeir tóku mikinn sprett um og upp úr 1985. Urðu leiðandi að vissu leyti einkum að því sem snerti aukna tækni í bankastarfsemi og einnig í kortaviðskiptum. Þeir áttu sinn blómatíma og um svipað leyti hvarf okurlánastarfsemin af sjónarsviðinu.“
Enn ekki hægt að fjármagna framkvæmdir án hárra vaxta
Talið færist nær nútímanum og vaxtarstiginu á Íslandi. Ásgeir segir bein tengsl á milli vaxtarstigsins og krónunnar. „Hvert myntsvæði er með sitt eigið vaxtastig sem meðal annars ræðst af verðbólgu, pólitískri áhættu og fleiru. Og allt frá fullveldi hafa vextir hérlendis verið hærri en þekkist í nágrannalöndunum.“ Ásgeir segir að steininn hafi tekið úr eftir 1970 þegar verðbólga hljóp á tveggja stafa tölu og lánsfé brann upp í neikvæðum raunvöxtum. Það var ekki fyrr en með verðtryggingunni 1979 að tókst að koma húsnæðislánakerfinu í sæmilegan farveg þannig að fólk ætti kost á langri fjármögnun.“
Eiga ofurháir nafnvextir að koma stað verðtryggingar
Ásgeir segir að lífeyrissjóðirnir hafi smám saman til sögunnar en það hafi ekki orðið fyrr en með verðtryggingunni að unnt var að fá fjármuni til húsnæðiskaupa m.a. með því að þeir fóru að kaupa fasteignatryggð skuldabréf. Ásgeir segir víðs fjarri að við séum komin með lausn á hinum þráláta óstöðugleika í íslensku fjármálakerfi. „Bankahrunið var að sönnu einstakur atburður þar sem heilt fjármálakerfi þróaðs ríkis féll í kapphlaupi um lausafé. En í ljósi sögunnar þá var þetta enn einn hlekkurinn í langri keðju fjármálaóstöðugleika og gjaldeyrisvandræða sem hefur einkennt sögu landsins á 20. öld og það sem af er þeirri 21. Haustið 2008 var gripið til gamalkunnugs ráðs frá 1931 að loka landið inni í fjármagnshöftum. Þannig hefur sagan gengið í hring.“
Höfum við þá ekkert lært?
„Svarið við því er því miður neikvætt. Hvað sem menn vilja segja um athafnir einstakra bankamanna í aðdraganda hrunsins 2008 löglegrar sem ólöglegra eftir því hvernig dómar falla þá er orsök hrunsins miklu stærri. Hún felst í kerfisbundnum galla í íslenska hagkerfinu þar sem krónan einangrar okkur og leiðir af sér síendurtekna verðbólgu. Þetta lagast ekkert með því að loka fyrir einn lánsmöguleika af mörgum með því að banna verðtryggingu og breytilegir vextir hafa sína ókosti. Þeir stýrast af verðlagsbreytingum og verðbólgu og geta reynst hættulegir. Ég er ekki hrifinn af verðtryggingu en mér sýnist að hún verði áfram fylgifiskur krónunnar. Hvað eru menn tilbúnir að gera ef ekkert annað kemur í staðinn. Eru menn tilbúnir að greiða himinháa nafnvextir til þess að tryggja að fáist fjármagn eða ætla menn að fara sömu leið og farin var 1933 að lækka vexti með handafli og kalla nýja kynslóð okurlánara til leiks. Stjórnmálamenn fást ekki til þess ræða þennan vanda eða alvöru lausnir á honum.“
Ekki samskonar bóla
En telur Ásgeir hættu á nýrri bólu. Eru einhver teikn um slíka þróun á lofti. Hann segir enga lánsfjárbólu í uppsiglingu á við þá sem óx upp á síðasta áratug og endaði í hruninu 2008 en engu síður sé hætta á að hagkerfið muni ofhitna. „Það verður meira í ætt við eldri hagsveiflur sem einkum orsökuðust af sveiflum í sjávarútvegi en núna er það ferðaþjónustan sem dregur vagninn. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega hratt á síðustu fjórum til fimm árum á síðasta ári komu um 300 þúsund fleiri en árið 2014. Horfur á þessu ári virðast enn betri þar sem fjöldi ferðamanna nú á vetrarmánuðum er svipaður og á sumarmánuðum fyrir ekki svo löngu síðan. Þetta skapar ýmis vandamál og við sjáum sífellt í fréttum þegar senda þarf björgunarsveitir út til að ná í fólk uppi á heiðar og fjöll. En áhrifin á hagkerfið hafa hins vegar verið jákvæð – hingað til. Ferðaþjónustan hefur orðið til þess að styrkja gengi krónunnar og auka kaupmátt almennings. Hins vegar er erfitt að spá fyrir um framtíðina. Íslendingar hafa áður brennt sig á setja öll egg í sömu körfu og reiða sig á eina atvinnugrein – hvort sem það var sjávarútvegur eða fjármálaþjónusta. Af þeim sökum má setja ákveðna fyrirvara við svona mikinn ofurvöxt ferðaþjónustu líkt og við höfum nú verið að sjá. Velta má fyrir sér hvað innviðir landsins þoli mikla aukningu til viðbótar og hve lengi þessi vöxtur getur varað Hins vegar er það ljóst að Ísland mun ávallt vera ferðamannaland sökum bæði einstæðrar náttúru og menningar og kannski er þessi grein aðeins rétt að byrja.“
Gengisfellingar kosta verðbólgu og skell fyrir heimilin
En er þá jákvætt að hafa krónuna. „Svarið við þessu getur verið bæði já og nei. Krónan hefur bæði kosti og galla. Kostirnir eru að með krónuna getum við leiðrétt hagkerfið ef svo má að orði komast með því fella gengið og endurheimta samkeppnishæfnina eftir að landsmenn hafa farið fram úr sér varðandi launahækkanir og verðbólgu. Og það hefur sannarlega verið gert reglulega frá því að krónan varð sjálfstæð mynt við fullveldið árið 1918. Aftur á móti fylgir sá böggull skammrifi að slíkar leiðréttingar kosta verðbólgu og skell fyrir heimilin í landinu. Það fer nefnilega ekki saman að rokka með gengi gjaldmiðilsins og halda skuldavanda heimilanna í skefjum. Frá fullveldi hafa Íslendingar búið við viðvarandi óstöðugleika og síendurteknar gjaldeyriskreppur. Ef hægt er að líta á gengislækkun sem meðal er vandinn sá að nær ómögulegt er að stjórna skammtastærðinni þar sem frjálsir gjaldeyrismarkaðir láta illa að stjórn líkt og við fengum að reyna árið 2008, og raunar einnig 2006 og 2001. Ef höftin hefðu ekki verið komið á árið 2008 hefði þurft gríðarlega miklar vaxtahækkanir til þess að rétt gjaldmiðillinn aftur af. Hins vegar var krónan rétt af með höftum og ég helt að hún verði aldrei aftur haftalaus. Raunar er það svo að árin 2001 til 2008 eru einstök í fullveldissögu landsins sem eini tíminn sem krónan flaut með frjálsum hætti en annars hefur gjaldmiðlinum verið haldið á réttum kili með höftum. Peningalegt sjálfstæði er því fremur dýru verði keypt. Að sumu leyti má segja að þær aðstæður sem skópu okurlánaranna á sínum tíma séu enn til staðar.“