Telja bílastæðaþörf vanmetna

Á þessari tölvugerðu mynd má sjá hvernig syðri hluti Kaplaskjólsvegar mun koma til með að líta út að framkvæmdum loknum.

Nágrannar KR-svæðisins við Frostaskjól telja bíla­stæðaþörf vanmetna í nýju deiliskipulagi. Sumir þeirra telja þörf á allt að 400 bílastæðum í kjallara undir nýjum KR velli. Hið nýja deiliskipulag var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykja­víkurborgar fyrir skömmu. Miklar breytingar verða á svæðinu ef skipulagið kemst til framkvæmda. Eins og þegar hefur komið fram í Vesturbæjarblaðinu er áformað að reisa knatthús auk þess sem gert er ráð fyrir því að aðalknattspyrnuvelli félagsins verði snúið og um hundrað íbúðir byggðar, með verslunar- og atvinnuhúsnæði á jarðhæðum, í kringum hálfan völlinn.

Húsfélögin við Meistaravelli 31, 33 og 35 sendu  erindi til umhverfis- og skipulagsráðs þar sem því var komið á framfæri að íbúar teldu að það þyrfti að gera bílastæðakjallara fyrir um 400 bíla undir knattspyrnuvellinum. Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir því að 120 bílastæði verði inni á reitnum, þar af 71 stæði í norðvesturhluta reitsins, fjærst fyrirhuguðum íbúðarhúsum. Við nýju íbúðarhúsin er aðallega gert ráð fyrir bílastæðum í götunni. Stjórnir tveggja húsfélaga við Flyðrugranda sögðust telja að áætluð bílastæðaþörf væri stórlega vanmetin og að afleiðingarnar komi til með að verða þær að skortur á bílastæðum og umferðarálag verði verulega íþyngjandi fyrir íbúa í húsunum og annarri nærliggjandi byggð.

Yfirþyrmandi byggingaráform

Í athugasemdum sem komu frá húsfélögum við Kaplaskjólsveg og Flyðrugranda vegna fyrirhugaðra bygginga í tengslum við endurbyggingu íþróttasvæðis KR kom einnig fram að þau byggingaráform sem fyrirhuguð eru á lóðinni séu yfirþyrmandi. Í athuga­semdunum er meðal annars bent á að gert sé ráð fyrir samfelldri 145 metra langri húsaröð með fram Flyðrugrandanum og 140 metra langri húsalengju með fram Kaplaskjólsvegi. Knattspyrnufélag Reykjavíkur skipuleggur svæðið og mun fyrirhuguð uppbygging húsnæðis verða á þeirra vegum. Gert er ráð fyrir að KR geti nýtt ágóðann af fasteignauppbyggingunni í þágu félagsins, líkt og gert var á Valssvæðinu þó að upp­byggingin við Frostaskjól sé á mun minni skala en sú sem hefur átt sér stað á vegum Valsmanna á Hlíðarenda.

You may also like...