Margt má betur fara í Vesturbæjarumferðinni
Út er komin skýrsla um umferðaröryggi í Vesturbænum í Reykjavík. Skýrslan er unnin fyrir Reykjavíkurborg með styrk úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur og með frjálsum framlögum skýrsluhöfunda og Íbúasamtaka Vesturbæjar. Höfundar skýrslunnar eru Birgir Þröstur Jóhannsson arkitekt og Gunnar Haraldsson hagfræðingur. Birgir er með MA í arkitektúr frá La Cambre í Brussel þar sem sérsvið hans var arkitektúr, hugmyndafræði, rannsóknir og borgarskipulag. Í skýrslunni er að finna mikinn fróðleik og einnig margvíslegar ábendingar frá íbúum Vesturbæjarins um hvað betur megi fara í umferðarmálum borgarhlutans.
Þeir Birgir og Gunnar benda á margt sem betur megi fara í Vesturbænum. Engin gönguljós né gangbrautir eru yfir Geirsgötu og Ánanaust og ljóst að margir veigra sér við að fara yfir þær götur. Fólk sem tök hefur á segist frekar fara á bíl í stað gangandi yfir þessar götur vegna hættunnar. Það er mikil nauðsyn fyrir íbúa að þeir og börn þeirra komist nokkuð hættulaust yfir þessar stofnbrautir. Íbúar þurfa iðulega að komast í skóla, íþróttaaðstöðu, verslanir og þjónustu sitt og hvað hinum megin við þessar stofnbrautir. Brýnt er að laga þetta sem fyrst því mannslíf eru í hættu og hræðsla við þessar götur heftar eðlilegar góðar samgöngur.
Takmarka rútuferðir og olíuflutninga í rör
Þeir benda á að í götum utan Hringbrautar vantar oft gangbrautir og frágang fyrir virka samgöngumáta á gatnamótum. Talsvert sé um hraðakstur á löngum breiðum götum og það vanti sérlausnir við KR-heimilið og við grunnskólana. Í gamla Vesturbænum eru áhyggjur af stóru ferðaþjónustubílum og af olíubílum á Geirs- og Mýrargötu. Þeir benda á að athuga þurfi hvort ekki ætti að banna akstur rútubifreiða í húsagötum innan Hringbrautar, fyrir utan þjónustu við skóla. Fyrir íbúa þyrfti að gera breytingar og setja takmörkun á olíubíla þannig að þeir aki síður Mýrargötuna. Þeir benda á skoðanakönnun meðal fyrirtækja við höfnina sem gerð fyrir Faxaflóahafnir var 2013 sýndi að forsvarsmönnum ákveðna fyrirtækja er meinilla við olíubíla, telja þá hættulega og töldu ráðlegra að vísa þeim annað. Íbúasamtök Vesturbæjar hafa óskað eftir því við borgaryfirvöld að skoða möguleika á því að setja olíurör frá Örfirisey út í Sundahöfn, þannig að það sé hægt að fylla á olíubílana þar og losna við alla gegnumkeyrslu þeirra í gegnum miðborgina. Einnig má minna á tillögu sem samþykkt hefur verið í borgarráði að farið verði að huga að annarri staðsetningu fyrir olíugeymana sem nú eru í Örfirisey. Íbúum Vesturbæjarins var boðið að koma með ábendingar varðandi hættuleg svæði í hverfinu gegnum Facebook-síðu Íbúasamtaka Vesturbæjar. Voru íbúar hvattir til að koma ábendingum sínum á framfæri. Þrátt fyrir að ekki sé um að ræða vísindalega hannaða skoðanakönnun er engu að síður um að ræða tilraun til að fá upplýsingar.
Bæjarhlutar slitnir í sundur með bílaumferð
Í niðurlagi skýrslunnar segir að hinir ýmsu hlutar Vesturbæjar séu slitnir í sundur vegna bílaumferðar. Brýna nauðsyn beri til að tengja þá saman með því að gera virkum samgöngumátum hærra undir höfuð í skipulagsframkvæmdum. „Til þess að fylgja hugsuninni eftir þá þarf að ráðast í verkin og aðlaga umhverfið að þörfum hins óvarðar vegfaranda. Sú hugmynd sem hefur viðgengst í borginni til að fækka slysum, að fjarlægja sebrabrautir yfir stærstu göturnar því að akandi virða ekki fótgangandi. Þessi ákvörðun er ekki að virða rétt gangandi til að komast leiðar sinnar. Takast þarf á við farartálmana þannig að gangandi eigi réttinn og sé ekki í hættu. Lýsa upp gangbrautir á skýran hátt og lýsa upp götur og göngusvæði á viðeigandi hátt hugsuðum fyrir virka samgöngumáta.