Breiðholtið er falin paradís

IR Inga 1 1

Ingigerður Guðmundsdóttir (Inga) með ÍR-trefilinn og gróðursæld Seljahverfisins að baki.

Ingigerður Guðmundsdóttir eða Inga eins og hún er oftast kölluð var kosin formaður stjórnar ÍR fyrir skömmu. Inga starfar hjá Sjóvá. Hún er gift Sveini Sveinssyni sjúkraþjálfara og eiga þau þrjú börn; Guðmund Gunnar, Aron Inga og Ragnheiði Millu sem öll hafa eða eru að æfa íþróttir hjá ÍR. Inga tengdist félaginu fyrst fyrir tæplega 20 árum þegar Sveinn eiginmaður hennar hóf að starfa sem sjúkraþjálfari hjá handboltadeild ÍR og síðan hafa leiðir hennar og félagsins legið saman. Inga er ekki innfæddur Breiðhyltingur en segir að í dag vilji hún hvergi annars staðar búa.

„Ég er fædd og uppalin í Smáíbúðarhverfinu og ætlaði mér aldrei að fara þaðan. En sumt fer öðruvísi en ætlað er og þegar að við hjónin fórum að leita okkur að íbúð til kaups á árinu 1993 var víða farið. Ég var ófrísk og vorum við búin að skoða íbúðir í nokkra mánuði. Einn daginn plataði Svenni mig til þess að líta á íbúð í Kambaselinu í Seljahverfinu. Ég vissi lítið um Breiðholtið og mamma spurði bara hvenær var þetta hverfi eiginlega byggt. Það hafði aldrei verið í hugum okkar og ég hafði lítið komið þangað. En við slógum til þvert á aðrar áætlanir. Okkur lá orðið á að finna húsnæði þar sem frumburðurinn var á leiðinni í heiminn og við létum slag standa. Hafi ég haft einhverjar áhyggjur af vistaskiptunum þá hurfu þær fljótt því við áttum frábæran tíma og næsta barn kom einnig í heiminn í Kambaselinu. Fimm árum síðar fluttum við okkur svo yfir í Klyfjaselið og þegar fjölskyldan stækkaði enn – þegar yngsta barnið fæddist fluttum við okkur svo niður í Ljárskógana þar sem við erum búin að vera í áratug. Á þessum 23 árum má segja að við höfum nýtt okkur alla þá þjónustu sem Seljahverfið hefur upp á að bjóða. Við höfum notið heilsugæslunnar, átt ágæt samskipti við Seljakirkju og fólkið sem hefur starfað þar. Einnig við Þjónustumiðstöðina í Mjóddinni og krakkarnir hafa verið í leikskóla. Síðan bæði í Seljaskóla og Ölduselsskóla og síðast en ekki síst með ÍR. Foreldrar mínir hafa dvalið í Seljahlíð undanfarin ár. Faðir minn er nýlega fallinn frá en móðir mín dvelur þar. Öll þessi góðu samskipti hafa fyrir löngu orðið til þess að við viljum hvergi annars staðar vera. Svo má geta þess að Sveinn maðurinn minn starfar í Mjóddinni og er því í góðu göngufæri við vinnustaðinn að heiman.“

Tengdist íþróttasinnaðri fjölskyldu

„Ég tengdist íþróttasinnaðri fjölskyldu. Tengdafaðir minn, Sveinn Björnsson sem lengi var forseti ÍSÍ og margir minnast einnig frá þeim tíma að hann rak Skósöluna á Laugavegi 1. Sveinn maður minn er sjúkraþjálfari og Geir bróðir hans er fyrrum handboltamaður og starfar nú sem landsliðsþjálfari íslenska handboltalandsliðsins. Synir okkar fóru að æfa fótbolta með ÍR og þá var ég dregin inn í félagsstarfið sem nú hefur leitt til þess að ég ákvað að gefa kost á mér í formennskuna. Það var sem sagt um það leyti sem eldri sonur okkur fór að æfa fótbolta að við vorum nokkrir foreldrar sem stofnuðum BUR – það er barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar en áður var bæði meistaraflokkar og unglingastarfið rekið saman sem gerði það að verkum að minni peningar fóru í unglingastarfið og erfitt var að annast rekstur þess. Frábær tími fór í hönd hjá þessum foreldrahóp og gekk vel hjá okkur að koma knattspyrnudeildinni upp úr skuldum sem hún var í og snúa tapinu yfir í hagnað. Þetta kostaði erfiði og var gert með blóði, svita og tárum eins og sagt er því staðan var stundum þannig að ekki voru til peningar fyrir boltum. Við þurftum því að vera hugmyndarík í fjáröflunum og t.d. fengum við einu sinni að vera með sérstaka ÍR-bíósýningu hjá Sambíóunum.“ Formennskan á sér nokkurn aðdraganda því fyrir þremur árum fékk Hjálmar Sigþórsson sem þá var formaður félagsins mig til þess að koma inn í aðalstjórnina. Ég er því komin með dálitla reynslu af stjórnarsetu í ÍR sem er góður undirbúningur fyrir formanninn.“

Starfa með frábæru fólki hjá ÍR

En hvað ætlar Inga að gera í starfi sínu sem formaður ÍR. „Ég hef mikinn áhuga á að bæta aðstöðu barna, unglinga og fullorðinna til íþróttaiðkunar. Það er frábært að koma í ÍR heimilið og sjá allan þann fjölda af fólki sem er að mæta á æfingar. Þessi þrjú ár sem ég hef verið í aðalstjórn ÍR hef ég starfað með alveg frábærum einstaklingum. Sú stjórn sem kosin var í apríl síðastliðnum er samsett af áhugafólki um ÍR og miklum sérfræðingum. Það verður frábært að vinna með þeim og starfsfólki ÍR. Ekki má gleyma að nefna að stjórnir deildanna hafa á að skipa mjög hæfum einstaklingum sem bæði hafa brennandi áhuga á þeirri íþróttagrein sem þeir eru í forsvari fyrir og hafa áhuga að gera ÍR að enn betra félagi. Ég hlakka því mikið til og ég veit að við eigum eftir að sjá marga góði hluti gerast hjá ÍR – bæði í daglegum rekstri deilda og félagsins sem og í íþróttastarfinu en þar ætlum við okkur stóra hluti. Við ætlum að styrkja innviðina enn frekar, að sjálfsögðu að bæta reksturinn og svo það sem vissulega er stærsta verkefni – að efla íþróttastarfið.“

Samningur um húsnæði við Reykjavíkurborg frá 2008

„Annað verkefni okkar er að fá Reykjavíkurborg til þess að standa við samning sem var gerður á milli borgarinnar og ÍR á árinu 2008 eða fyrir átta árum. Samningurinn var gerður og svo kom hrunið og síðan hefur lítið gerst. Í þessum samningi er gengið frá því að Reykjavíkurborg komi upp húsnæði fyrir ÍR enda húsið okkar á ÍR svæðinu í Mjóddinni löngu sprungið utan af starfseminni. Samhliða samningum var nýtt deiliskipulag samþykkt þar sem gert var ráð fyrir byggingum þar sem áður hafði verið skipulagt íþrótta- og útivistarsvæði. Reykjavíkurborg fékk hluta af lóðinni undir byggingar, bæði fyrir eldri borgara og fyrir atvinnuhúsnæði. Nú stendur til að hefja byggingu á húsi fyrir eldri borgara en samningasmálinu um húsnæði á ÍR svæðinu er enn ólokið. „Margir íbúar Breiðholtsins eru reiðir yfir því að nú eigi að fara af stað með þessar byggingar. Fólk er farið að hringja til okkar og spyrja um vinnugáma sem komnir eru á svæðið og óttast að byrja eigi að byggja húsnæði fyrir annað en félagið á meðan lítið gerist í málefni ÍR. Við þurfum að geta haft svör á reiðum höndum og það er mikilvægt að Reykjavíkurborg og ÍR vinni saman að framtíðarsýn fyrir okkar flotta svæði. Fólk hefur einnig áhyggjur af þeim hugmyndum sem fram hafa komið að úthluta bílaumboði aðstöðu á íþróttasvæðinu. Maður getur skilið áhuga forsvarsmanna bílaumboðsins að komast svona miðsvæðis og einnig borgaryfirvalda að halda atvinnustarfsemi innan borgarmarkanna en það verður einnig að taka mið af þörfum ÍR og gerðum samningum. Auðvitað eru það aðstöðumálin sem við höfum mestar áhyggjur af. Æfingaaðstaða skiptir miklu máli. Við æfum í 10 húsum þannig það er bras fyrir iðkendur og foreldra að koma börnum sínum á æfingar. Fólk sem á t.d. þrjú börn sem öll eru að æfa með ÍR, þurfa að keyra þau fram og til baka í hverfinu og út úr því, niður í Laugardal. Á veturna erum við með rútu sem nær í yngstu börnin í frístundaheimilin í hverfinu og keyrir þau á æfingar í Austurbergið en það leysir alls ekki allan vandann. Foreldrar kvarta undan því að mikill tími fari í að aka börnum í íþróttastarfið hjá ÍR. Því miður geta ekki allir foreldrar keyrt börn sín og óttast maður að þau börn geti þá ekki stundað íþróttir hjá okkur.“

Parkethús, knattspyrnuhús og frjálsíþróttavöllur

Inga bendir á að ÍR svæðið sé að það stórt og einnig miðsvæðis í borginni að auðvitað ætti að nýta það til að byggja parkethús, knattspyrnuhús og frjálsíþróttavöll. Hún segir frábært að fá frjálsíþróttavöllinn á ÍR svæðið sem byrjað er að vinna að og verður vonandi lokið á árinu 2017. „Við viljum fjölga iðkendum enn frá því sem nú er. Fá fleiri krakka til þess að koma og stunda íþróttir. Mjög börn eru í Breiðholtinu sem eiga sér erlendan uppruna og við vitum að þau eru ekki að stunda frístundastarf eins vel og við myndum vilja. Það er nauðsynlegt fyrir þessi börn að geta notfært sér alla þá aðstöðu til íþrótta sem er og getur verið til staðar. Að geta komið saman í íþróttunum er einn hluti af aðlögun fólks frá öðrum löndum að samfélagi okkar. Við verðum að ná til þessara krakka sem ef til vill eru tregari að koma vegna þess að þau eru frá öðrum menningarheimum. Það er hlutverk okkar sem íþróttafélags að stuðla að því að allir fái tækifæri til þess að koma, kynnast og stunda íþróttir við hæfi. Mér finnst frábært hvað hún Brynja Pétursdóttir er að ná vel til þessara krakka með dansskólanum sínum. Hún hefur aðstöðu m.a. hjá okkur í ÍR heimilinu og kennir þar break, hiphop og street dansa.“

Íþróttafólkið fer í önnur félög

Við vitum að góð æfingaaðstaða skiptir miklu máli fyrir iðkendur í dag. Ég verð því að viðurkenna að ég hef áhyggjur að íþróttafólkið okkar fari í önnur félög og jafnvel í önnur sveitarfélög þar sem aðstaðan er betri. Íþróttaiðkun hefur breyst undan farin ár, í stað þess að vera árstíðabundnar íþróttagreinar þá vilja iðkendur nú æfa allt árið um kring. Frjálsíþróttir og knattspyrnan voru einkum sumaríþróttir fyrir svo ekki löngu síðan en núna er í mesta lagi tveggja til þriggja vikna pása.“ Inga segir að frjálsíþróttavöllurinn verði góð viðbót fyrir frjálsíþróttafólk á Reykjavíkursvæðinu því aðstaðan í Laugardalnum sé löngu sprungin og auk þess sé Laugardalsvöllurinn notaður fyrir knattspyrnuna á sumrin. „Því er mikilvægt að ÍR og borgin nái að setja saman upp framtíðarsýn um aðstöðumál félagsins. Í því sambandi má spyrja hvort hægt sé að vitna í orð Dags borgarstjóra um að „Samningar skulu standa“.

Tvö þúsund iðkendur og þúsund sjálfboðaliðar

Inga segir að ÍR sé frábært félag og margt gott fólk standi saman um að gera sitt besta. „ÍR er eitt öflugasta íþróttafélag landsins. Tíu íþróttagreinar eru stundaðar innan þess og þar starfa um 100 æfingaflokkar á hverjum virkum degi. Alls starfa 119 þjálfarar hjá ÍR og iðkendur eru rúmlega 2000 og svo má ekki gleyma sjálfboðaliðunum sem eru rúmlega 1000 á ári. Þetta eru langfjölmennustu samtökin í Breiðholtinu. Þetta er rosalega gefandi ekki síst fyrir mig sem formann. Ég get líka getið þess að það kom mér skemmtilega á óvart hvað það vakti mikla eftirtekt að kona væri kosin formaður íþróttafélags og þess þá heldur félags sem á sér jafn langa sögu og ÍR. Ég hef fengið margar kveðjur og árnaðaróskir sem hvetja mig áfram til þess að gera mitt besta. Auðvitað er þetta samfélagslegt verkefni þótt reka verði félagsstarfið á sama hátt og þegar er verið að reka fyrirtæki. Tekjur og gjöld verða að haldast í hendur eins og í allri annarri starfsemi. Í dag er ÍR vel rekið félag en til þess að ná þeim árangri varð að gera miklar breytingar á starfsemi þess.“ Og Inga endar þar sem hún byrjaði. Að tala um skokkhópinn. Hann er henni mikilvægur. Og nú erum við að fara í maraþonið til Kaupmannahafnar,“ segir hún og heldur á annan fund. Nú er það vinnan hjá Sjóvá þar sem hún starfar sem forstöðumaður gæða- og öryggismála sem kallar.

You may also like...