Maður verður að vera ákveðinn „töffari“ í sér

Lovisa H 1 1

Lovísa H. Larsen umsjónarmaður námsversins í Fellaskóla.

Lovísa H. Larsen er umsjónarmaður með námsveri á unglingastigi í Fellaskóla. Námsverið er einkum sniðið að þörfum þeirra nemenda sem þurfa á sértækri aðstoð að halda í námi og félagsfærni. Í Fellaskóla fær Lovísa svigrúm til að vinna með fjölbreyttar leiðir til þess að koma til móts við þarfir nemenda í námsverinu sem eru margbreytilegar.

Lovísa er kennari – Grindvíkingur í húð og hár og hefur komið að margvíslegum verkum í heimabyggðinni. Hún stofnaði meðal annars stjórnmálaflokk ásamt fleira fólki sem buðu sig fram til bæjarstjórnarkosninga. Lovísa starfaði sem kennari í Grindavík og vann þar meðal annars að sambærilegum verkefnum og hún sinnir nú í Fellaskóla. „Nei ég var alls ekki að flýja heimabyggðina,“ segir hún brosandi þar sem hún mætti tíðindamanna á Gamla Kaffihúsinu í Drafnarfelli þar sem Breiðholtsbakarí var á árum áður. „Ég var lengi búin að ætla mér að flytja til borgarinnar þegar sonur minn kæmist á framhaldsskólaaldur. Ég er Evrópufræðingur frá Háskólanum á Bifröst auk kennaranámsins og ætlaði mér eiginlega að hætta að kenna. Sá síðan starfið í Fellaskóla auglýst. Það hefur verið látið mjög vel af Fellaskóla og leist mér vel á aðstæður og viðmót starfsfólksins því sló ég til.“ Tengist ekki fjölmenningu Lovísa segir að námsverið tengist á engan hátt þeirri fjölmenningu sem sé í Fellaskóla þar sem nemendur af fjölmörgum þjóðernum stunda nám. „Nei – það er ekki þannig og það er ekkert hærra hlutfall nemenda sem eiga sér annan bakgrunn en íslenskan sem eru í námsverinu. Við erum bara ólíkar manneskjur upp til hópa með mismunandi þarfir, það er þannig í öllum skólum eins og í lífinu sjálfu. Það er gríðarlega jákvætt að fá að kenna í fjölmenningarskóla. Að fá krakka með ólíkan bakgrunn inn í skólann sem geta miðlað af sínu samtímis því sem þau tileinka sér það samfélag og samfélagshætti sem þau búa við hér á landi. Þarfir krakkanna í námsverinu geta legið í svo mörgu og á ekkert skylt við uppruna eða þjóðerni.“

Lovisa H 2 1

Maður verður að vera „töffari“ í sér. Hér reynir Lovísa fyrir sér í glímu.

Það er allt nám og lærdómur

Nú er ég með 12 manna hóp – ólíka einstaklinga með ólíkar þarfir. Sum eiga t.d. erfitt með að halda athygli í stórum hóp. Ég hef í gegnum árin verið með hærra hlutfall af drengjum í minni kennslu í námsveri. Hvað veldur því að þarna komi ójöfn kynjaskipting er rannsóknarefni. Hugsanlega getur þetta legið að einhverju leyti í samfélaginu. Grípum við nógu fljótt inn í hjá drengjunum? Erum við allt of föst í að steypa þeim í mót sem þeir geta ómögulega verið í? Aðalatriðið er að vinna með þessum krökkum. Nýta þá hæfileika sem þau vissulega hafa og gefa þeim kost á að njóta sín í námi og starfi. Við verðum að mæta þeim á jafningjagrundvelli – ganga með þeim til ýmissa verka sem sum hver falla ekki alltaf eða að öllu leyti undir hefðbundið skólastarf. Það er allt nám og lærdómur.“

Verðum að fara út fyrir boxið

„Þetta er að sumu leyti dálítið klæðskerasaumað hjá mér. Sérsniðið fyrir hvern og einn,“ heldur Lovísa áfram. „Í þessu verkefni verður að leggja áherslu á afar fjölbreytta kennsluhætti. Ég er alltaf á tánum að leita eftir einhverju áhugaverðu fyrir þau. Við verðum að líta út fyrir þetta umtalaða box sem skólastarfið er í og nýta hið óhefðbundna. Ég er líka á móti refsiaðgerðum sem stundum kallar eftir meiri þolinmæði en ella og reyni að kenna þeim að sýna umburðar-lyndi. Ég vinn líka eftir þeim fræðum að hvað sem gerist þá verði alltaf að gefa öllum annað tækifæri á að breyta rétt og koma til baka. Aðalmálið er að kalla eftir færni krakkanna og styrkja hana eins og best verður á kosið. Fellaskóli er dálítið sérstakur að því leyti að uppruni nemanda er fjölbreyttari en annarra skóla og því þarf bæði að taka tillit til uppruna, ýmissa siða sem fólk flytur með sér á milli landa og menningarsvæða og tungumála. Það er ótrúlega gefandi og skemmtilegt, og eitt af því fyrsta sem ég tók eftir í Fellaskóla var hversu umburðarlynd krakkarnir eru, þau sýna siðum og venjum hvers annars virðingu og eru ekki að reyna breyta þeim. Eitthvað sem við fullorðna fólkið getum lært mikið af. “

Það verða allir að vera sigurvegarar

Eitt af því sem Lovísa leggur mikið upp úr í kennslustundum sínum er að allir fái að vera sigurvegarar. „ Ég hef gert allskonar hluti með nemendum mínum í gegnum árin, einu sinni suður með sjó þá fór ég ásamt þremur drengjum út á sjó. Mættum á bryggjuna kl. fjögur um nótt með nesti og nýja skó og fórum í dagróður. Þessa drengi dreymdi um að verða sjómenn og því prófuðum við það. Þeir komu svo í skólann daginn eftir og voru sigurvegarar þann daginn, hinum börnunum fannst þetta stórmerki-legt. Við fórum strax að vinna að þessu í haust, ég ákvað að allir nemendur fengju að segja frá sínu áhugamáli og draumum og allir hópurinn yrði að prófa það og taka þátt. Úr varð stórskemmtilegt verkefni. Viðtal við Hermann Hreiðarsson, heimsóknir í tölvu-leikja og forritunarfyrirtæki. Kennsla í bardagalistum svo fátt eitt sé nefnt. Þarna taka þau öll þátt í áhugamálum hvors annars. Þurfa að taka tillit og víkka sjóndeildarhringinn, og una öðrum það að vera í aðalhlutverki þann daginn sem þeirra áhugamál er ekki á dagskrá.

Þú hefðir átt að læra aðeins meira

Lovísa segir að það hjálpi mikið til að hafa húmor fyrir allskonar aðstæðum sem koma upp. „Ég get ekki annað en brosað þegar ég hugsa til baka yfir allskonar aðstæðum sem hafa komið upp, enda verður maður að hafa gaman af því sem maður er að gera og svo finnst mér lífið bara oft ógeðslega fyndið og sé húmor í mörgu sem öðrum finnst ekkert fyndið. Ég man að eitt sinn var ég að ganga eftir aðalgötunni í Grindavík í leiðindaveðri. Þá ók upp að mér glænýr BMW og við stýrið sat einn af mínum gömlu nemendum úr námsveri. Þetta er drengur sem ég var mikið búin að reyna að koma í skilning um að það skipti máli að ná sér í einhver réttindi fyrir vinnumarkaðinn en hann hélt nú ekki það þyrfti ekkert bóknám og ég væri nú bara eitthvað rugluð að eyða öllum þessum peningum í nám. Það var leiðindaveður, þegar hann ók upp að mér á nýja bílnum og spurði af hverju ég væri labbandi í þessu veðri. Ég sagði honum satt að bíllinn minn væri bilaður og ég hafði ekki efni á því að fara með hann í viðgerð. Þá glotti hann og sagði já Lovísa mín þú hefðir átt að læra aðeins meira svo spólaði hann burt á nýja bílnum ný komin af sjónum.“

Mannauðurinn er til staðar

“En maður verður að vera ákveðinn „töffari“ í sér og ekki fastur í neinum fyrirfram ákveðnum stöðluðum hugmynd-um um að á ákveðnum aldri áttu að kunna þetta og hitt, við eigum að mæla færni gera allt til að finna hana og styrkja. Mann-auðurinn er svo sannarlega til staðar en stundum þarf að kalla eftir honum til að hann komi fram. Ég er mannleg og geri mistök, þá biðst ég afsökunar hvort sem það eru börn eða fullorðnir og ég legg mikið upp úr að þau geri slíkt hið sama. Svo er það bara fyrst og síðast það er að hafa trú á þessum krökkum og skila þeim frá sér með það hugarfar að þau séu frábær, sem þau eru.“

You may also like...