Ætlaði á togara en lenti í ritstjórastól

Bersk-5 1

Ræðuhöld og uppistand var stór þáttur í lífi mínu, segir Ellert.

Ellert Schram, fyrrum alþingismaður, ritstjóri, forseti ÍSÍ og síðast en ekki síst knattspyrnumaður um langt árabil hefur að undanförnu snúið sér að málefnum eldri borgara. Hann segir að þrátt fyrir góða stöðu um 70% fólks sem komið er að sjötugu og eldri eigi um 30% fólks á þessum aldri í erfiðleikum sem bæði tengist fjárhag, félagslegum samskiptum og heilsu. Ellert segir að ekki megi gleyma því að þetta fólk hafi lagt sitt til samfélagsins og eigi því inni hjá því möguleikann á sómasamlegu lífi á þessu aldursskeiði. Ellert spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni, bæði um stöðu eldra fólks og feril hans í gegnum tíðina.

Ellert hefur lengi tengst Vesturbænum og víkur fyrst að samferð sinni með þessum gróna bæjarhluta. „Ég er fæddur á Víðimelnum í október 1939. Síðan fluttumst við í Norðurmýrina um tíma en komum til baka í Vesturbæinn 1948. Þá fluttum við í Sörlaskjól 1 – í hálfklárað hús sem algengt var í þá daga og svo vill til að ég er þar ennþá. Að vísu með hléi vegna þess að þegar ég gifti mig upp út tvítugu, 1963 þá fór ég að heiman. Bjó víða í vesturbænum, Tómasarhaga, Kaplaskjólsvegi, Boðagranda og Stýrimannastíg. Þegar faðir minn Björgvin Schram var orðinn einn eftir í húsinu í Sörlaskjólinu var það selt. En meira en þremur áratugum frá því að ég flutti þaðan, eða 1996, rakst ég á eigendur þess í Vesturbæjarlauginni og spurði þau hvort húsið væri til sölu. Þau tóku áhuga mínum vel og svo fór að ég keypti húsið aftur inn í fjölskylduna og bý nú á óðalinu með Ágústu konu minni og afkomendum.“

Spilaði í hálfa öld undir merkjum KR

Fótboltinn einkenndi líf Ellerts lengi. „Það er rétt. Ég var ekki fyrr fluttur úr Norðurmýrinni í Vesturbæinn að ég fór að spila fótbolta með KR. Ég spilaði í um hálfa öld undir merkjum þess góða félags. Mestan hluta með sigursælu liði og svo var ég fyrirliði, formaður og ritstjóri KR blaða í fjölda mörg ár, formaður KSÍ og forseti ÍSÍ, þannig að þessi tengsl mín við íþróttirnar voru mikil. Ég fer stundum á völlinn þegar KR spilar á heimavelli en að öðru leyti eru afskipti mín og aðkoma ekki mikil á seinni árum. Það fennir í sporin og ferillinn fellur í gleymskunnar dá, eins og gengur. Það hefur sinn gang eins og annað, þegar tíminn líður.“

Bersk-2 1

Íslandsmeistarar KR 1965, fyrir hálfri öld: Efri röð frá vinstri: Guðbjörn Jónsson, þjálfari (látinn), Gunnar Felixson, Hreiðar Ársælsson (látinn), Heimir Guðjónsson, Guðmundur Haraldsson, Hörður Felixson og Ársæll Kjartansson. Neðri röð frá vinstri: Bjarni Felixson, Þorgeir Guðmundsson, Sveinn Jónsson, Ellert B Schram, fyrirliði, Kristinn Jónsson, Einar Ísfeld (látinn) og Baldvin Baldvinsson (látinn). Allt piltar, aldir upp í Vesturbænum eða búsettir þar.

Þetta voru yndisleg ár

Þegar Ellert er spurður um afrek hans í fótboltanum, rifjar hann upp að hann hafi unnið tuttugu titla í Íslandsmótum, Bikarkeppni og Reykjavíkurmótum og sé markahæstur KR-inga í 117 ára sögu félagsins. Hóf ferilinn 1947 á Grímstaðaholtinu og segist halda upp á sjötíu ára fótboltaafmæli sitt á næsta ári. „Eftir situr,“ segir Ellert, að í þátttöku hans og störfum í þágu íþróttanna, hafi hann eignast vini og skemmtilegar stundir, sem hafi gert líf hans eftirminnilegt og glaðvært.. „Þetta voru yndisleg ár“, segir Ellert. „Ég á þau ennþá í minningunni.“ Ellert starfaði einnig að málefnum knattspyrnunnar á erlendum vettvangi, kynntist starfi alþjóðasamtaka á borð við FIFA og UEFA og var stjórnarmaður hjá UEFA í átta ár, og nefndarmaður í ýmsum verkefnum á þeim vettvangi í þrjátíu ár. „Á síðustu tuttugu árum hefur knattspyrnan í Evrópu, með tilkomu beinna útsendinga í sjónvarpi breytt amatörum í atvinnumenn, peningarnir flætt inn, sem hefur ýtt undir girnd og græðgi og valdið þeirri spillingu sem nú hvílir eins og skuggi yfir bæði UEFA og FIFA. Það er sorgleg þróun.“

Hjá Reykjavík á miklum uppbyggingartímum

Ellert gaf sér þó tíma frá fótboltanum til háskólanáms og útskrifaðist úr lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann starfaði á lögmannsstofu í skamman tíma en fór þá til starfa hjá Reykjavíkurborg. Hann tók við starfi skrifstofustjóra hjá borgarverkfræðingi og var þar í fimm ár. „Ég hafði mikið yndi af að starfa hjá borginni. Þetta var á árum mikillar uppbyggingar. Á þeim tímum þegar ráðist var í að malbika götur í borginni og einnig var unnið að miklum hitaveituframkvæmdum. Á þessum árum var einnig verið að úthluta lóðum í nýjum borgarhverfum því borgin teygði anga sína víðar. Byggðin leitaði lengra og lengra út frá gömlu borginni. Hún óx mikið á þessum árum og fólk flutti þúsundum saman til Reykjavíkur frá ýmsum stöðum á landinu.“

Bersk-3 1

Átti gott samstarf með Geir Hallgrímssyni, bæði í borgarstjórn og á alþingi.

Úr sveitaþorpi í borg

Ellert segir að ráðist hafi verið í að byggja upp Fossvoginn á þessum tíma, Árbæjarhverfið verið stækkað og braggahverfin rifin. Þá hafi undirbúningur að byggingu Breiðholtsins verið hafinn sem sé eitt stærsta vaxtarverkefni Reykjavíkurborgar fyrr og síðar. „Þetta var á þeim árum sem Reykjavík var að breytast úr sveitaþorpi í borg. Það var mikill búskapur stundaður innan borgarmarkanna og jafnvel inn í þéttbýlinu sjálfu. Ég held að yngra fólk í dag geri sér ekki grein fyrir hvernig þetta var. Það var mikið skepnuhald í borginni. Fólk bjó með kýr, sauðfé, svín og hænsni í allskyns kofum og fjósum. Við gerðum átak til þess að draga úr dýrahaldinu og ég man að okkur tókst að fækka sauðfénu um 3000 niður í 300 á einu ári. Fólk var líka með hross inn í byggðinni og það kostaði mikil átök við félaga í Fáki að flytja höfuðstöðvar hestamannafélagsins úr Blesugrófinni upp í Víðidal.“

Ætlaði á togara en lenti í ritstjórastól

„En svo kom að því að ég þurfti að hætta í þessu skemmtilega starfi. Ég datt inn á þing 1971 og sat á þingi til 1979 í þeirri lotu. Ég hefði gjarnan viljað sinna þingstörfum lengur en vegna óróa í Sjálfstæðisflokknum gaf ég sjálfviljugur eftir það sæti sem ég hafði fengið í prófkosningum og datt út af þingi í kosningum síðla árs 1979. Það er stundum sagt að erfitt sé fyrir fyrrverandi þingmenn að fá vinnu ef þeir hætta þingsetu og ég var alvarlega farinn að hugsa um að ráða mig á togara bara til þess að hafa eitthvað að gera. Ég hafði verið tvö sumur á togara á árunum þar á undan og þekkti því aðeins til sjómennskunnar. Svo fór hinsvegar að mér bauðst ritstjórastaða á Vísi sem síðar sameinaðist Dagblaðinu og varð DV – frjálst og óháð, en þá voru önnur dagblöð í tengslum við stjórnmálaflokkana. Ég var þar í fimmtán ár, með Jónasi Kristjánssyni og fleira af góðu fólki.“

Bersk-4 1

Ellert um borð í togara út á halamiðum 1978. Skipið hét Bjarni Benediktsson.

Kom í minn hlut að stýra ÍSÍ

„Þegar hér var komið sögu í lífi mínu, búinn að vera ritstjóri í hálfan annan áratug, gaf ég kost á mér sem varaforseta Íþróttasambands Íslands. Forseti var Sveinn Björnsson, sá góði maður. Hann féll frá tveimur árum síðar og það kom í minn hlut að stýra ÍSÍ. Þar var ég allt til ársins 2006 og var jafnframt atvinna mín. Ég var leystur frá störfum við ritstjórn DV árið 1995, enda með fangið fullt af verkefnum og vinnu hérlendis og erlendis í þágu íþróttanna. Ég get ekki rakið allt það sem við var að etja á þessum nýja vettvangi, sem var þó ærið og við verðum sennileg að hafa annað viðtal, til að fjalla um það sem á daga mína dreif, þegar ég var orðinn æðsti prestur í íslensku íþróttastarfi. Segi það eitt, að það var viðburðaríkur og spennandi þáttur í lífi mínu.“

Aftur á Alþingi

Þá tók næsti kafli þingsögunnar við. 1983 gaf Ellert aftur kost á sér til setu á Alþingi og flaug inn. „Stundum er sagt að enginn sé annars bróðir í leik og móttökurnar í þingflokknum voru þannig að mér fannst að ég ætti ekki lengur erindi í þingflokki Sjálfsstæðisflokksins. Ég sat þó út kjörtímabilið utan að ég tók hlé í eitt ár en hætti við þinglok 1987 – þá í annað sinnið. Ég hafði engar hugmyndir um að ég myndi enn og aftur gerast þingmaður en svo gerðist það árið 2003 að ég geng til liðs við Samfylkinguna. Ég var settur á framboðslista og var kosinn varamaður. Ég sat á þingi í nokkra mánuði sem slíkur en í kosningunum 2007 var ég aftur á lista Samfylkingarinnar í fimmta sæti. Þrír náðu kjördæmakosningu og því fylgdi uppbótarsæti. En svo furðulega vildi til að við lokatalningu fengum við annað uppbótarsæti og ég datt inn á þing sem aðalmaður. Ég held að þetta sé í eina skiptið í þingsögunni sem framboðslisti hafi fengið tvö uppbótarsæti og byggir auðvitað á ákveðinni reiknireglu, en að atkvæði leggist svona upp er einsdæmi. Og fyrir vikið þá sat ég á þingi þegar hrunið skall á haustið 2008.“

Hafði gaman af pistlaskrifum

Ellert segir að þetta sé bæði langur og brokkgengur þingferill. „Ég hef verið með hléum á þingi frá 1971 til 2009 frá því ég kom fyrst inn á þing og þar til ég hætti. Í framhjáhaldi sinnti ég störfum fyrir KSÍ og ÍSÍ, nokkuð flókið og erilsamt. En blaðamennskan var mér hjartfólgin og ég var duglegur í skrifum, þótt ég segi sjálfur frá. Ég byrjaði snemma að skrifa í blöð. Um 1960. Ég skrifaði í KR blöðin og skólablöð á námsárum. Blaðamaður á Vísi á skólaárunum. Ég skrifaði um tíma pistla í Morgunblaðið og síðan í DV meðfram ritstjórnarstörfum. Ég hafði alltaf gaman af pistlaskrifunum. Þar gat ég látið mín eigin sjónarmið koma fram. Skrif mín í frjálst og óháð blað gerði það að verkum að sjóndeildarhringurinn varð stærri. Ekki flokkspólitískur“.

Átti ekki lengur samleið með Sjálfsstæðisflokknum

En breyttist það í gegnum tíðina? Ellert gekk ungur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Hann segir að í uppvexti sínum hafi ekki verið erfitt að ganga til liðs við þann flokk. „Sjálfstæðisflokkurinn studdi vestrænt lýðræði og hafnaði kommúnisma sem skók heimsbyggðina og var hér á landi öflug hreyfing í pólitíkinni. Sjálfstæðisflokkurinn var að mörgu leyti jafnaðarmannaflokkur á þessum árum. Viðreisnarstjórnin 1959 til 1967 stóð sig vel, frjálslyndi, jöfnuður og bræðralag naut sín. Höftin voru afnumin. Þegar leið að aldamótunum breyttist Sjálfstæðisflokkurinn í frjálshyggjuflokk, a la Thatcher og Reagan, hrópaði „báknið burt“, seldi bankana, gaf nánast fiskikvótana og virti fjármálaeftirlit að engu. Einkavæðing var boðorðið. Gamla helmingaskiptareglan reis upp á afturfótunum eins og í hermanginu forðum.. Einstaklingsfrelsið fól í sér að gera þá ríku ríkari. Mér fannst því ég ekki eiga samleið með honum lengur. Þetta tvennt réð mestu um að ég valdi nýja leið í pólitíkinni.“

Alltaf verið veikur fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralagi

Samfylkingin undir forystu Ingibjargar Sólrúnar höfðaði til mín. Ég bauð þeim krafta mína og liðveislu, sem varð til þess að ég var settur á lista þess flokks í kosningunum 2003 og aftur 2007. Ég sat á þingi þegar „hrunið“ skall á. Það voru erfiðir dagar og ég stend á því enn, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hafi unnið kraftaverk í þeirri baráttu að halda samfélaginu gangandi. Hér var allt í rúst, 50 milljarða gat á fjárlögum ríkisins og gjaldþrot á hverjum degi í atvinnurekstri. Heimilin sokkin í skuldum. Ég gafst svo sem ekki upp en þegar gengið var til kosninga 2009, gaf ég ekki lengur kost á mér. Enda að verða sjötugur og saddur. Þar endaði stjórnmálaferillinn.“

Eldri borgarar hafa lagt samfélaginu sitt

En svo víkur sögunni frá íþróttahreyfingunni og pólitíkinni til málefna eldri borgara sem Ellert hefur tekið upp á arma sína af krafti eins og honum er lagið. „Ég hafði lengi vel engin afskipti af málefnum eldri borgara einfaldlega því mér fannst ég ekki vera nógu gamall til þess. Svo fór að ég var beðinn um að gefa kost á mér í stjórn FEB. Ég komst ekki einu sinni á fundinn, er var kosinn samt. Nú er ég orðinn varaformaður í félagsskap og hef gaman að. Ég er hrifinn af starfsemi þess og mér finnst félagið veita góða þjónustu sem ekki veitir af þrátt fyrir að um 70% af eldri borgurum – fólk sem er 67 ára og eldra sé í mjög góðum málum og á það við bæði fjárhagslega, félagslega og heilsufarslega. Sumir eru enn í vinnu. Margir sinna félagsstörfum og fleiri og fleiri eru duglegir að hreyfa sig sem er fyrir öllu þegar kemur að hinum efri árum. Margt fólk býr við góðan kost. Nýtur reynslu og þekkingu og er í miklum samskiptum við nærumhverfi sitt.“ Ellert fann sér nýtt viðfangsefni eftir að hann komst á áttræðisaldurinn. „Ég skráði mig í Háskóla Íslands og hef nú í þrjá vetur sótt tíma í sagnfræði og heimspeki. Ég er ekki að gera þetta til þess að taka próf eða ná mér í nýja háskólagráðu. Heldur mér til fróðleiks og gamans og mér finnst líka ánægjulegt að vera í nánd við unga fólkið og andrúmsloftið í háskólanum. Mér finnst kominn á þennan aldur örvandi og auka lífsgildið að hlýða á fyrirlestra ágætra kennara og fræðimanna. En þegar maður lítur yfir svið eldri borgara stendur eftir um um 30% eða hátt í fjögur þúsund manns býr við einangrun og jafnvel við sára fátækt.

Það er þessi hópur sem þarf á því að halda að komið sé til móts við hann varðandi húsnæðismál, heilbrigðismál og hvað þá fjármál til að það geti fleytt sér áfram. Ef til vill er það stærsta verkefnið að fá samfélagið til þess að gera sér grein fyrir þessu ástandi. Flest af þessu fólki er búið að leggja sitt til samfélagsins. Það hefur tekið þátt þeirri jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað í að byggja hér upp gott mannlíf í gegnum árin. Við megum ekki gleyma því að þetta fólk á inni hjá okkur að geta lifað sómasamlegu lífi. Átt sér félagsleg tengsl, hafi aðgang að heilsugæslu og líði ekki skort. Það er margt eldra fólk á lífi sem greiddi lítið eða ekki í lífeyrissjóði og þarf að lifa af ellilaunum einum saman auk þess sem við búum við skerðingarákvæði sem taka af þeim, hafi fólk einhverjar tekjur. Þar liggur gildra sem fólk kemst engan veginn fram hjá. Þetta er hrein fátækragildra sem þjóðfélagið viðheldur. Það er eitt verkefna okkar að berjast fyrir því að þessari gildru verði útrýmt. Og verkefni er ekki eingöngu að laga kerfið. Fólk sem lifir á strípuðum lífeyrisgreiðslum lifir langt undir viðmiðunarmörkum. Við þurfum að útrýma þessari fátækt. Þetta er verkefni sem bæði Alþingi og sveitarfélögin verða að sameinast um að taka á. Það var hneyksli að skilja þetta fólk eftir þegar aðrir fengu launahækkanir á liðnu ári. Við erum að tala um fólk sem hefur 230 þúsund krónur á mánuði á almannatryggingakerfinu og fær um 170 þúsund í hendur þegar búið er að taka hluta þessara greiðslna aftur til baka í formi skatta. Svo eru einnig stór verkefni fyrir hendi í húsnæðismálum. Annað hneyksli er að þegar fólk fer á hjúkrunarheimili þá er það gert ósjálfbjarga fjárhagslega. Nánast allt er tekið af því nema örlitlir dagpeningar. Það er eitthvað skrítið við kerfi sem vinnur svona.“

25 tillögur sem snúa að eldri borgurum

Ellert segir að þetta hafi meðal annars valdið því að hann tók að sér að formennsku í stýrihóp á vegum Reykjavíkurborgar sem á að vinna tillögur að því hvernig gera megi Reykjavík að aldursvænni borg. Hvað hægt sé að gera betur í þeim efnum. „Við fengum þrjá mánuði til þess að sinna þessu verkefni og höfum nú skilað af okkur 25 tillögum sem snúa að umhverfi eldri borgara og þörfum þeirra. Þessar tillögur snúast að miklu leyti um praktísk málefni. Ein er að standa vel að hálkuvörn í kringum þjónustumiðstöðvar borgarinnar, önnur að endurskoða matarþjónustu með því markmiði að bjóða sem næringarríkasta fæðu. Einnig að bæta aðstöðu eldri borgara í íþróttamannvirkjum í samvinnu við íþróttahreyfinguna og að gefa hreyfiseðla út í auknum mæli sem hluta af endurhæfingu til að eldra fólk geti bæði nýtt sér heilsugæslu og sjúkraþjálfun sem hluta af endurhæfingu. Við viljum að allri sem orðnir er 67 ára fá frítt í sundlaugar borgarinnar og einnig að líkamsræktarstöðvar bjóði ókeypis aðstöðu á þeim tímum dagsins þegar aðsókn er í lágmarki. Við leggjum einnig áherslu á heimsóknir til eldri borgara sem eru í litlum eða engum félagslegum tenglum við ættingja eða kunningjafólk. Við leggjum mikla áherslu á að fólk eigi þess kost að hreyfa sig því fátt er eldra fólki dýrmætara en hreyfingin. Við teljum að þessar hugmyndir og tillögur þurfi ekki að kosta mikil fjárútlát en geti komið mörgu eldra fólki til góða þar sem megin áherslan er lögð á hreyfingu og félagsleg samskipti,“ segir Ellert Schram að lokum.

You may also like...