Við erum óhefðbundin en samhent fjölskylda

– segja Baldur Þórhallsson og Felix Bergsson sem hafa myndað einskonar fjölskyldubyggð við Starhaga –

Fjölskyldan heima í stofu á Starhaga 5. Frá vinstri: Álfrún Perla Baldursdóttir og Árni Freyr Magnússon maður hennar sem búa á Starhaga 3. Baldur Þórhallsson situr með dótturdóttur sína Eydísi Ylfu. Felix Bergsson með afastrákinn Arnald Snæ og Guðmundur Felixson og kona hans Þuríður Blær Jóhannsdóttir sem búa á Seljavegi.

Róleg morgunstund við austanverðan Starhaga þegar Vesturbæjarblaðið bar að garði einn hálfkaldan janúarmorgun áður en dagurinn hafði náð að upphefja birtu sína. Inni fyrir á Starhaga 5 eða Túnsbergi eins og húsið heitir var þó að finna birtu og il. Jólaljósin höfðu ekki verið slökkt – alla vega ekki að fullu og dóttir annars húsráðanda sem hefur stofnan eigin heimili og býr nú í næsta húsi gæddi sér á morgunverði á meðan afi barnsins gætti þess í fangi sínu. Þriggja mánaða gamallar stúlku. Á meðan rann bragðmikið kaffi í bolla handa komumanni.

Við Starhaga hefur myndast skemmtileg flóra óhefðbundinnar stórfjölskyldu í þremur húsum sem liggja hlið við hlið. Húsin mynda einnig skemmtilega heild. Í vestasta húsinu Túnsbergi sem bráðum verður aldar gamalt búa þeir Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði og Felix Bergsson útvarpsmaður og leikari. Felix segir að fjórum árum liðnum verði Túnsberg búið að vera í eigu sömu fjölskyldu í hálfa öld. Og áður hafði það verið í eigu annarrar fjölskyldu í um jafnlangan tíma. Foreldrar hans Bergur Felixson fyrrum forstöðumaður leikskóla Reykjavíkurborgar og kona hans Ingibjörg Guðmundsdóttir festu kaup á því þegar þau fluttu frá Blönduósi til Reykjavíkur. „Þegar þau vildu minnka við sig ákváðum við Baldur að kaupa húsið. Við höfðum áður búið í gömlu timburhúsi við Vestur-götuna og vorum orðnir vanir því umhverfi sem gömlu húsin veita,“ segir Felix. Baldur bætir við að nú verði þeir næstu 50 árin á Túnsbergi. „Þú sérð að við ætlum okkur að verða gamlir,“ segja þeir einum rómi. 

Eydís Árelía, Álfrún Perla, Baldur og Felix

Þegar kaffi var tilbúið barst talið að húsunum þremur sem standa austast við sunnanverðan Starhaga. „Við vorum lengi einir hér á endanum. Síðan gerist það að lóðin við hliðina kom nánast upp í hendurnar á okkur. Þá kom í hugann hvort dóttir mín sem var búin að stofna heimili hefði áhuga á að reisa sér hús við hliðina á okkur og búa sér heimili,“ segir Baldur. Þetta fór fljótlega af stað og ungu hjónin fór að hugsa fyrir húsi. „Okkur fannst að það þyrfti að vera stíll yfir þessu. Nýtt hús yrði að falla inn í götumyndina og við fengum arkitekt til þess að teikna húsið með því fororði. Álfrún Perla og Árni Freyr Magnússon eiginmaður hennar voru alveg inn á þessu og lögðu áherslu á að nýja húsið bæri svip af Túnsbergi. Í stað þess að fara hina hefðbundnu leið. Að fá iðnaðarmenn til þess að byggja létu þau smíða húseiningarnar í Eistlandi. Eftir að þær komu til landsins var hafist handa við að raða þeim saman. Nú eru þau flutt inn þótt enn séu mörg handtök eftir þar til öllu verður lokið. Á sama tíma var ákveðið hjá Reykjavíkurborg að koma húsi fyrir á lóðinni við Starhaga 1 – hornlóðinni við Suðurgötu. Ákveðið hafði verið að flytja eldra hús á lóðina, gera það upp, byggja við það og bjóða síðan til sölu. Starhagi 1 er nú í eigu Eydísar Árelíu Guðmundsdóttir lektors við Háskóla Íslands og móður Álfrúnar Perlu þar sem hún býr ásamt tveimur barna sinna Kristínu Sigrúnar og Óskars Davíðs.“ Þeir Baldur og Felix segja að þarna hafi orðið til einskonar fjölskyldugarður. Mikil samskipti séu á milli fjölskyldn-anna og nú eru þeir Baldur og Felix búnir að láta hanna stíg sem þeir kalla afastíg á milli allra þriggja húsanna. Þeir segja að þá geti ungviði hlaupið á milli og þurfi ekki að hafa áhyggjur af umferð eða vetrarfærð þar sem hitalögn verður í stígnum.

Stórfjölskyldan borðar oft saman

Baldur og Felix segja stórkostlegt að hafa svona stóran hluta af fjölskyldunni á sama stað. Þetta sé fjölskyldubær. Samskiptin verði mikið meiri og nánari. „Álfrún Perla og Árni Freyr hafa verið mikið hér á meðan þau hafa verið að koma húsinu upp,“ segir Baldur. „Við eldum mikið hér heima og oft fyrir fleiri en okkur. Þetta er hálfgert atvinnueldhús. Stórfjölskyldan borðar oft saman. Við eldum oft fisk og reynum að vera í hollustunni. Erum hættir að borða rautt kjöt. Nei – ekki vegan,“ segir Felix. Hann bætir við að Guðmundur sonur sinn búi á Seljaveginum vestast í Vesturbænum ásamt konu sinni Þuríði Blæa Jóhannsdóttur leikara og syni. Þar hafi einnig myndast náið samfélag nokkurra aðila þótt þeir séu ekki bundnir samskonar fjölskylduböndum og á Starhaganum. „Það er komið einskonar listaþorp. Búsvæði fólks sem er að sinna listsköpun. Þetta er svona listakúla,“ segir hann „og skemmtilegt samfélag.“    

Á þessari loftmynd sést fjölskyldureiturinn við Starhaga vel. Gulahúsið er hús Baldur og Felixar. Þá bláa húsið hús Álfrúnar Perlu og Árna Freys og síðan Starhagi 1 hús Árelíu Eydísar.

Feginn að komast aftur á svið

Baldur og Felix eru miklir ferðagarpar. Hafa farið víða í gegnum tíðina en að undanförnu hefur verið minna um ferðalög. „Þótt við séum flökkukindur í aðra röndina þá njótum við þess að vera heima. Það hefur komið sér vel að undanförnu þar sem ferðalög hafa að mestu legið niðri vegna Covid. Ég hef unnið mikið heima að undanförnu. Sinnt fjarkennslu að heiman og þetta hefur verið óvenjulegur tími að því leyti,“ segir Baldur. Felix tekur undir en kveðst hafa verið feginn þegar hann fékk tækifæri til þess að stíga aftur á svið. Hann fer með hlutverk í Mömmu klikk eftir Gunnar Helgason í Gaflaraleik-húsinu sem verið er að hefja sýningar að nýju.

Skiptum Land Crusernum fyrir rafbíl

Baldur er ættaður frá bænum Ægissíðu í Holtum í Rangárvallasýslu. Hann segist bundinn sterkum böndum við heimasveitina. Faðir sinn búi þar og þeir Felix fari oft austur. „Við héldum að við þyrftum að vera á stórum jeppa til þess að fara yfir Hellisheiðina á vetrum. Við ókum á stórum Land Cruser á nagladekkjum á vetrum. Svo fórum við að huga að því hvort ekki væri lagt óþarflega mikið í farartæki vegna þessara ferða. Við seldum Land Cruserinn og fengum okkur rafbíl. Litla Teslan gefur jeppanum ekkert eftir þegar talað er um stöðugleika í hálku á Hellisheiði. Við erum mjög ánægðir með þessi skipti að ég tali nú ekki um hvað þau eru umhverfisvæn,“ segir Felix.

Stoltir afar á Starhaga.

Háskólasvæðið er heill heimur 

Þeir fara mikið í sveitina austur í Holtum en segjast einnig hafa hana við höndina heima á Starhaganum. „Við upplifum þetta svæði hér við Starhaga sem einskonar sveit í borginni. Það er dásamlegt að koma hingað og horfa yfir Skerjafjörðinn. Mér finnst nálægðin við fjörðinn og dýralífið hafa mikið aðdráttarafl fyrir mig sveitadrenginn. Og svo er það Vatnsmýrin með sína fjölbreyttu útivistarmöguleika. Við förum mikið þangað til þess að ganga um,“ segir Baldur og heldur síðan áfram að tala um Mýrina og Háskólasvæðið. „Háskólasvæðið er heill heimur. Mér er til efs að Vesturbæingar geri sér grein fyrir fjölbreytileika þess og möguleikum. Háskólasvæðið er fyrir alla. Bæði þá sem tengjast Háskólanum og einnig aðra. Ekki síst fólkið sem býr í nágrenninu. Bóksala stúdenta er ein flottasta bókabúð landsins. Þar er mikið úrval af bókum og misskilningur að halda að þar fáist eingöngu námsbækur fyrir háskólanám. Flóran er fjölbreytileg og á að höfða til allra. Bóksala stúdenta er einnig hefðbundin ritfangaverslun. Í bóksölunni er líka að finna lítið notalegt kaffihús þar sem gott er að tilla sér niður. Síðan get ég nefnt Hámu. Stóru veitingasöluna á Háskólastorginu. Þar eru góðar veitingar á ákaflega hagstæðu verði. Háma er nú að opna eftir að hafa verið lokuð um tíma vegna Kórónaveirunnar. Misskilnings hefur stundum orðið vart að Háma sé eingöngu ætluð nemendum og starfsfólki Háskólans. Því er víðs farri. Háma er fyrir alla. Og þá er það Stúdentakjallarinn. Frábær veitingastaður í kjallara Háskólatorgsins. Fleira mætti nefna og í heildina býr Háskólasvæðið yfir mörgum möguleikum sem almenningur getur nýtt sér og þá ekki síst þeir eru í göngufæri frá Háskólanum, segir Baldur.“

Íbúðabyggð og þjónusta farið saman

Baldur og Felix hafa ákveðnar skoðanir þegar kemur að borgarþróun. Þeir segja nauðsynlegt að vinna að breytingum á borgarumhverfinu. „Við viljum að borgar-menningin geti þróast í þá átt að fólk sem býr í sama hverfi geta sótt alla nauðsynlega þjónustu innan hverfisins. Íbúabyggð og þjónusta fari saman. Þar eigum við meðal annars við að fólk geti sótt sér lífsviðurværi i göngulengt frá heimilum sínum. Þróunin hefur verið í öfuga átt. Matvöru-verslanir hafa safnast saman í útjöðrum íbúðabyggða eða fyrir utan þær. Við söknum minni búðanna. Við sáum eftir KRON-búðinni á Dunhaga þegar henni var lokað og ekkert kom í staðinn. Að undanförnu má sjá nokkur merki um nýja þróun. Einkum í Miðborginni. Og á öðrum stöðum hafa borgaryfirvöld verið að fjalla um þessi mál með ýmsu móti. Hverfisverslanir og þjónustukjarnar hleypa lífi í hverfin og spara mikinn akstur eftir lífsnauðsynjum,“ segja Baldur og Felix. Þeim verður nokkuð rætt um kjarnann sem hefur myndast við Hofsvallagötuna. Þar hefur Melabúðin staðið allar breytingar af sér sem hverfisverslun. Þar er auk hennar að finna Kaffi Vest, bakarí, hamborgarastað handan götunnar og svo hina sívinsælu Vesturbæjarlaug. Skammt undan er svo lítil verslunarmiðstöð á horni Hagamels og Kaplaskjólsvegar. „Allt í göngufæri frá stærstum hluta Vesturbæjarins sunnan Hringbrautar. „Við viljum sjá frekari breytingar í þessa átt. Fá þjónustuna meira inn í íbúðabyggðirnar.  

Birt hefur af degi þegar kaffidrykkju og spjalli var lokið. Baldur er að búa sig undir að halda út í Háskóla til kennslu. Álfrún Perla þarf að skjótast á vinnustað en annars er hún í barnsburðarleyfi. Felix tekur barnagæsluna að sé á meðan. Þessi óvenjulega fjölskylda er ótrúlega samhent.

You may also like...