Afhentu grunn- og leikskólum leiðarljós um skjátíma

Vinnuhópurinn um seglaverkefnið tekur á móti hvatningarverðlaunum skóla- og frístundasviðs.

Foreldrafélögin fimm í Breiðholti afhentu fulltrúum allra grunn- og leikskóla í Reykjavík segla með áprentuðum upplýsingum um skjátíma barna fimmtudaginn 11. apríl sl. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal Ráðhússins. Guðmundur Magnús Daðason, formaður foreldrafélags Ölduselsskóla, Anna Sif Jónsdóttir, formaður foreldrafélags Breiðholtsskóla og Arna Bech, foreldrafélagi Hólabrekkuskóla buðu gesti velkomna og fluttu erindi um tilurð verkefnisins og tilgang þess. Aðrir sem voru í forsvari fyrir verkefnið voru Ólafur Gylfason, foreldrafélagi Seljaskóla, Valdís Vera Einarsdóttir, foreldrafélagi Breiðholtsskóla og Aðalheiður Ingimundardóttir, formaður foreldrafélags Fellaskóla. 

Ölduselsskóli og Hólabrekkuskóli símalausir 

Birna Sif Bjarnadóttir, skólastjóri Ölduselsskóla og Kjartan Helgi Guðmundsson, nemandi í Ölduselsskóla, fjölluðu um hvaða áhrif það hafði á skólabraginn að gera skólann símalausan frá og með 29. mars. Góður undirbúningur og samvinna nemenda, foreldra og skólans gerði það að verkum að þetta gengur mjög vel. Foreldrafélagið sótti um styrk fyrir verkefnið og nýtir hann til að bæta og efla spila- og leikjakost skólans. Hólabrekkuskóli ákvað að banna síma í skólanum þann 23. apríl og þar hefur það gengið vonum framar. 

Borgarstjóri afhenti fyrstu seglana

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri steig síðastur á svið og óskaði foreldrafélögunum í Breiðholti innilega til hamingju með þetta verkefni og afhenti formlega fyrstu seglana ásamt foreldrum úr Breiðholti. Um 30.000 seglum sem veita upplýsingar á íslensku, ensku, pólsku og filippseysku var svo dreift til allra leik- og grunnskólabarna í Reykjavík, á BUGL og að lokum fékk Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhent eintak.  

Gylfi Guðmundsson, Margrét Samúelsdóttir og Margeir Hildir Bryngeirsson taka á móti fyrstu seglum frá Degi B. Eggertssyni og Önnu Sif Jónsdóttur.

Markmið verkefnisins – skjátími, gildi og leiðarljós

Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að auka vitund fjölskyldna um skjátíma, sem og skapa umræðu innan veggja heimila um hver skjátími ætti að vera og hvernig fjölskyldan nýtir skjáina. Á seglinum eru þrenns konar skilaboð:

Tilvísun á www.skjatimi.is þar sem finna má frekari upplýsingar um skjátíma og gagnlega tengla. Gildi sem allir, ungir sem aldnir, ættu að hafa í huga við skjánotkun. Leiðarljós fyrir hámarks skjátíma á dag sem hentar mismunandi aldri.

Segullinn skapar umræðu 

Í nokkur ár hefur segull um útivistartíma borist inn á heimili landsmanna og fest í sessi reglur um útivistartíma barna. Foreldrafélögin sjá fyrir sér að segull um skjátíma muni skapa umræður á heimilinu um æskilega skjáhegðun og þannig, smátt og smátt, festa í sessi reglur hvers heimilis um skjátíma. Segullinn er ekki töfralausn heldur tæki sem fjölskyldur geta notað til að mynda ramma utan um skjánotkun allra í fjölskyldunni.  

Segullinn með upplýsingum um æskilegan tíma fyrir börn að vera við skjá. Hægt er að hengja hann á ísskápshurð eða hvar sem er á heimilum til að minna á að vera ekki of lengi fastur við skjáinn.

Afrakstur öflugrar samvinnu 

Foreldrafélög grunnskólanna í Breiðholti og skólastjórnendur hafa um árabil átt mjög gott samstarf um ýmis málefni sem hefur stutt vel við skólasamfélagið í hverfinu. Fyrir um þremur árum kom upp sú hugmynd á samstarfsfundi foreldrafélaganna fimm að gera segul um skjátíma þar sem skjánotkun er stöðugt að aukast og við foreldrar þurfum að kunna að umgangast þessa nýju tækni og vera börnunum fyrirmynd. Segullinn var hugsaður fyrir öll heimili grunnskólabarna í Breiðholti. Nefnd varð stofnuð og verkefnið varð að veruleika. 

Verkefnið vatt upp á sig

Í febrúar var búið að afla styrkja til að gera segla fyrir öll grunnskólabörn í Breiðholti en þá barst fyrirspurn frá starfsmönnum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um hvar verkefnið væri statt.   Starfsmenn borgarinnar fengu að sjá hönnun segulsins og hugmyndafræðina að baki verkefninu, og báðu um að verkefnið yrði stækkað þannig að öll grunnskólabörn í Reykjavík, ásamt leikskólabörnum fengju segul. Einnig var óskað eftir því að segull yrði gerður á ensku, pólsku og filippseysku.  Þetta litla Breiðholtsverkefni sprakk því út og búið er að framleiða 30 þúsund segla á fjórum tungumálum.

Vefsíðan www.skjatimi.is

Þar sem ekki kemst allt fyrir á einum segli var ákveðið að útbúa vefsíðu að frumkvæði foreldra í Breiðholti.  Verkefnið hlaut stuðnings SAMFOK (Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík) sem kom einnig inn sem umsagnaraðili um hönnun og efni. Þegar verkefnið var komið í alla grunnskóla í Reykjavík var ákveðið að SAMFOK tæki við síðunni og héldi áfram sem umsjónaraðili vefsíðunnar skjatimi.is. 

Verðlaunað samstarf foreldrafélaganna 

Eitt af því sem hvetur foreldrafélögin fimm sem samanstanda af eftirfarandi grunnskólum: Breiðholtsskóla, Fellaskóla, Hólabrekkuskóla, Seljaskóla og Ölduselsskóla að halda áfram öflugu samstarfi er raunverulegur ávinningur sem tekið er eftir. Félögin fimm hafa hlotið hvatningarverðlaun Heimilis og skóla 2017 fyrir mikilvægt samstarf sem felur í sér forvarnargildi og jákvæð áhrif á nærsamfélagið með hagsmuni foreldra, nemenda, skóla og samfélags að leiðarljósi. Í ár hlutu félögin hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs ásamt viðurkenningu frá Heimili og skóla fyrir skjáverkefnið. 

You may also like...