Áhugi á heimaræktun grænmetis er stöðugt að aukast

Seljagardur 4 1

Loftmynd af Seljagarðinum. Til vinstri eru reitir sem komnir eru í fasta umsjá ræktenda.

Áhugi á heimaræktun grænmetis hefur aukist verulega á undanförnum árum. Aðstaða til ræktunar er hins vegar ekki alls staðar fyrir hendi og það því orðið til þess að farið er að koma upp heimareitum þar sem almenningur getur fengið pláss fyrir grænmetisbeðum. Reykjavíkurborg er þar ekki undantekning og er Seljagarðurinn í Seljahverfi í Breiðholti að hefja sumarstarfið þriðja sumarið í röð.

Þessi þróun á upptök sín hjá neytendum en kemur ekki frá stjórnmálamönnum eða borgaryfirvöldum á hverjum stað. Hún kemur beint úr grasrótinni einkum vegna umhverfisáhrifa. Þá má geta þess að komið hefur í ljós að heimaræktunin hefir bæði jákvæð efnahagsleg áhrif og einnig áhrif á heilbrigði fólks. Sú heimaræktun sem stunduð er í dag er stórt stökk frá því að fólk ræktaði nær eingöngu kartöflur. Nú ræktar fólk salöt, grænkál og fleiri grænmetistegundir í heimagörðum sínum.

Tillaga okkar féll vel að stefnu borgaryfirvalda

Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir er ein af frumkvöðlum Seljagarðshópsins og hefur ásamt fleirum unnið að því að koma upp matjurtarækt í garðinum en það er land sem Reykjavíkurborg úthlutaði fyrir þessa ræktun. Hún bendir að með myndun stærri borgarsvæða hafi tengslin við jörðina rofnað en nú vilji fleira og fleira fólk mynda þessi tengsl að nýju og hugmyndin hafi borist að einhverju leyti hingað frá öðrum löndum. „Þeir sem hafa aðstöðu til geta auðvitað ræktað í garðinum heima hjá sér en bæði hafa ekki allir aðgang að ræktanlegu landi við hýbýli sín auk þess að á skaðasvæði eins og þessu myndast félagslegur andi þar sem fólk getur gert ýmislegt saman þótt ræktunin sé meginmarkmiðið. Tillaga okkar um félagslega rekinn matjurtagarð féll því vel vel að þeirri stefnu sem mótuð hefur verið um að færa ræktun nær borginni.“

Það myndast samfélag utan um svona garða

Þórey Mjallhvít segir að þegar búið sé að gera ræktunarstarfið að langtíma markmiði og tryggja því samastað myndist önnur hugsun. Fólk bindist starfinu meira og geri ræktunina fremur að lífsstíl en annars ef þetta væri ef til vill bundið einu sumri og síðan óvissa um framhaldið. „Það er mjög mikilvægt að aðstaðan er komin til þess að vera og við getum enn bætt fólki við.“ Þórey dregur upp mynd af þeim hluta garðsins sem þegar hefur verið nýttur og öðrum þar sem ekki hefur verið úthlutað reitum enn sem komið er. „Það er auðvitað von okkar og hugsjón að geta nýtt þessa aðstöðu til hins ýtrasta.“ Hún segir að hugmyndin með Seljagarði sé bæði til þess að vinna að ræktuninni en einnig til þess að fá fólk til þess að gera hlutina saman. „Það getur myndast samfélag um þetta þar sem fólk kemur bæði til þess að annast reitinn sinn og einnig til þess að eiga samskipti og samfélag við aðra sem eiga sér sama áhugamál. Svo getur líka verið gaman að gera fleira saman. Fólk getur komið á góðviðriskvöldum og grillað saman svo ég nefni eitthvað sem dæmi. Hún segir að fólk sé smám saman að átta sig á þessu en allt þurfi sinn tíma. „Ég held til dæmis að staðsetningin efst í Seljahverfinu – skammt frá þjónustustöðinni við Jafnaselið sé mjög hentug. Þaðan er skammt yfir í Fellin og þetta svæði tengir þessa tvo hverfishluta nokkuð vel saman. Seljugarðurinn er vel staðsettur og okkar von er að hann sé á góðri leið.“

Seljugardur 2 1

Unnið við ræktunarstörf í Seljugarði. „Það getur myndast samfélag um þetta þar sem fólk kemur bæði til þess að annast reitinn sinn og einnig til þess að eiga samskipti og samfélag við aðra sem eiga sér sama áhugamál,“ segir Þórey Mjallhvít.

You may also like...