Samkomulag um samgöngumál samþykkt á Seltjarnarnesi

– um gríðarleg samgöngubót segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri –

Samkomulag um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu var til síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar í liðinni viku. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri lagði að bæjarstjórn samþykkti samkomulagið. Hún sagði að um gríðarlega samgöngubót væri að ræða sem til lengri tíma litið mundi styðja við fleiri valkosti fólks til búsetu hvar sem væri á höfuðborgarsvæðinu. “Í þessu samkomulagi hefur verið undirstrikað mikilvægi uppbyggingar samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu út frá öryggissjónarmiðum,” sagði Ásgerður.

Ás­gerð­ur 
Hall­dórs­dótt­ir.

Ásgerður benti einnig á og lýsti ánægju með að samkomulagið geri m.a. ráð fyrir framlengingu á gildistíma tilraunaverkefnis til eflingar almenningssamgangna til 12 ára og að í tengslum við uppbyggingu samgönguinnviða verði horft til uppfærðra rekstraráætlana almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðisins þar á meðal um rekstur Borgarlínu. Mikilvægt sé að þátttaka ríkisins verði tryggð að verkefninu allt tímabilið. Bæjarstjórn samþykkti samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum sem bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar undirritaði þann 26. september 2019 með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar.

————————————————

Samgöngusamkomulagið er óútfært mál

– segir Magnús Örn Guðmundsson forseti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar –

Magnús Örn Guðmundsson forseti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar greiddi einn atkvæði gegn samkomulagi um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku. Magnús benti á að vandamálið sé að ekkert heildstætt umferðarlíkan liggi fyrir, ekkert arðsemismat sé á verkefnunum og engin forgangsröðun þegar framúrkeyrslur byrja. Jafnframt sé ekki skýrt fjallað um það hvernig leyst verður úr framúrkeyrslum milli samningsaðila.

Magnús Örn Guðmundsson.

“Ég var einn bæjarfulltrúa á móti þessu enda algjörlega óútfært mál. Ég tel mig hafa fært góð rök fyrir mínu máli í bókun minni. Ég er talsmaður almenningssamgangna og sit sem varamaður í stjórn Strætó. En þetta mál hefði þurft að ígrunda mikið mun betur. Ég hef mestar áhyggjur af framúrkeyrslu, t.d. af þeirri staðreynd að uppkaup á landi eru ekki með í áætlunum. Þannig þarf Borgarlínan að vera í sama plássi og nú og sem þýðir færri akreinar fyrir bíla eða að kostnaðurinn verði miklu mun meiri. En að versta við planið allt er að reksturinn er algjörlega óútfærð stærð, en gera má ráð fyrir að tíðni ferða verði langtum um meiri en hjá Strætó og kostnaðurinn jafnvel vel yfir 10 milljarða árlega. Málið er ekki óumdeilt, og ég bendi á að í Borgarstjórn fór málið 11-12, og þar bókuðu Píratar sérstaklega. Það eru talsmenn Borgarlínu innan XD hópsins í Borgarstjórn en eins og í þeirra bókun stendur vantar mikið uppá undirbúninginn. Rétt eins og ég hef varað við. Svo er hinn leggurinn algjörlega eftir, það er framkvæmd veggjaldanna,” sagði Magnús Örn í samtali við Nesfréttir.

122 milljarðar til 2033 

Í bókun Magnúsar á fundum segir meðal annars að samkomulagið hljóði uppá rúmlega 122 milljarða fram til ársins 2033. Í því samhengi sé vert að minna á að ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu greiða nú þegar um fimm milljarða árlega með rekstri Strætó eða um 75 milljarða yfir sama tíma og þetta samkomulag nær yfir. Hlutfall þeirra sem nota Strætó hefur í meira en áratug mælst 4%. Fyrirséð er að rekstur Borgarlínu muni kosta mun meira, jafnvel margfalt meira. Sveitarfélögin munu sitja uppi með þann reikning, enda hefur ríkið gefið það út að það muni ekki koma að rekstri Borgarlínu.

You may also like...