Gaman að taka þátt í leiksýningunni

– segja þau Hildur María og Steinar Thor sem bæði leika í Langelstur að eilífu í Gaflaraleikhúsinu –

Hildur María Reynisdóttir t.v. og Steinar Thor Stefánsson.

Tveir Seltirningar taka þátt í barnaleikritinu Langelstur að eilífu sem var sett á svið í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði 15. janúar sl. Langelstur að eilífu er byggt á samnefndri barnabók um Eyju og vin hennar Rögnvald eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Bókin hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2019 en fyrri bækurnar tvær, Langelstur í bekknum og Langelstur í leynifélaginu voru báðar tilnefndar til Fjöruverðlaunanna þegar þær komu út.

Krakkarnir sem leika í Langelstur að eilífu eru: Hildur María Reynisdóttir sem er í 3. bekk í Mýró og Steinar Thor Stefánsson sem einnig er í 3. bekk í Mýró. Hildur segir áhugamál sína vera leiklist, fótbolti, leika við vinkonur og fara til útlanda og Steinar nefnir leiklist, lestur, handbolta og læra á píanó. Þau segja að leikriti fjalli um gamlan mann sem heitir Rögnvaldur sem er búinn að vera í 90 ár í fyrsta bekk eða frá því að hann var sex ára. Svo kemur stelpa í bekkinn sem heitir Eyja og þau verða bestu vinir. Hildur María og Steinar Thor leika bekkjarsystkini Eyju og Rögnvaldar og eru í fyrsta bekk. 

Vera á sviði og eignast góða vini 

Hvað finnst þeim skemmtilegast við það að taka þátt í leikritinu. Hildur segir að eignast góða vini og sýna á sviði og Steinar bætir við að það sé skemmtilegt að leika fyrir framan fólk og eignast nýja vini. Þegar þau voru spurð um uppáhalds atriði í leikritinu nefndu þau bæði karókí dansinn og Hildur nefndi einnig lokaatriðið. Uppáhaldslög þeirra í leikritinu eru Stafrófslagið og Besti dagur í heimi. Þau segja að hægt sé að hlusta á lögin bæði á Spotify og YouTube. 

Frá barnaleikritinu Langelstur að eilífu.

Stundum stressandi – frekar fyrir sýningar

Stóra spurningin er ef til vill sú hvernig þeim líður þegar þau standa á sviðinu og sýna fyrir framan áhorfendur. Hildur segir að það sé gaman en líka stundum stressandi. Steinar segir að það sé frekar stressandi fyrir sýningu en þegar sýningin sé í gangi þá fari stressið og sér líði vel. Þau segja bæði að það erfiðasta í sýningunni sé að syngja og dansa í einu. Þau mæla með því fyrir aðra krakka að taka þátt í leiksýningum. Það sé gaman og þar eignist maður nýja vini. Að lokum hvetja þau alla að skella sér í Gaflaraleikhúsið á leikritið Langelstur að eilífu. Miðasala er á tix.is. Hlökkum til að sjá ykkur öll í leikhúsinu segja þau Hildur María og Steinar Thor að lokum. Hægt er hægt að sjá umfjöllun um leikritið og hverjir listrænir stjórnendur og aðrir leikarar eru á https://www.visir.is/g/20212184893d.

You may also like...