Nýr Skerjafjörður í tveimur áföngum

Þannig myndi nýr Skerjafjörður líta út fullbyggður.

Tillaga skipulagsfulltrúa hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur að nýju deiliskipulagi fyrir Nýja Skerjafjörð var vísað til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar á fundi borgarráðs 25. mars sl. Gert er ráð fyrir að uppbygging Nýja Skerjafjarðar muni eiga sér stað í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga verða 685 íbúðir auk leikskóla, grunnskóla, miðlægu bílageymsluhúsi, verslun, þjónustu og útivistarsvæðum. Samkvæmt tillögunni verða nýjar vegtengingar til austurs, suður fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem verða eingöngu ætlaðar almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi vegfarendum.  

Nokkrar breytingar voru gerðar á deiliskipulagstillögunni eftir að athugasemdafresti lauk. Þær eru meðal annars að íbúðum var fækkað úr 690 í 685. Leiksvæðum var bætt við inn á uppdrætti og í skýringar. Hjólastígar voru útfærðir frekar. Sérafnotafletir eiga nú við um fleiri húsagerðir en raðhús. Skuggavörp voru uppfærð miðað við minni byggingarmassa svo auka mætti birtustig í inngörðum. Grasþökum í sérskilmálum var gefið meira svigrúm með vali á sjávarmöl og mýrargróðri í takt við náttúrulegt umhverfi á svæðinu. Nýja hverfinu fylgja einnig kostir fyrir eldri byggð í Skerjafirði þar sem það mun bjóða upp á ýmsa þjónustu sem ekki hefur verið til staðar. Má þar nefna verslun, skóla og félagsmiðstöð. 

Bílastæði í miðlægu bílastæðahúsi

Öll bílastæði lóða verða í miðlægu bílastæðahúsi þar sem matvöruverslun og þjónusta verða á jarðhæð. Áætluð bílastæðaþörf í Nýja Skerjafirði gerir ráð fyrir einungis 0,7 bílastæði á íbúð enda gert ráð fyrir samnýtingu. Engin bílastæði verða innan lóða heldur í miðlægu bílastæðahúsi. Núverandi umferð um Einarsnes er um 3.000 bílar á sólarhring við vegamót Suðurgötu og Einarsness. Miðað við áætlaðan fjölda einkabíla í fullbyggðu hverfi má gera ráð fyrir að umferðin nemi um 9.000 bílum á sólarhring á sama stað sem telst hæfileg umferð og innan marka.

Landfylling og tenging við almenningssamgöngur

Í seinni áfanga er gert ráð fyrir mótun nýrrar strandar með landfyllingu og landmótun. Í hinu nýja skipulagi er lögð áhersla á forgang gangandi og hjólandi vegfaranda, hæga umferð og öflugar tengingar við almenningssamgöngur. Ný tenging fyrir Strætó verður lögð eftir framlengdu Einarsnesi suður fyrir flugbrautina við Fossvogsbrú og að Háskólanum í Reykjavík 

Skerðir ekki starfsemi Reykjavíkurflugvallar

Nýi Skerjafjörður mun hvorki skerða starfsemi né nýtingu Reykjavíkurflugvallar. Húsin rísa á randbyggðum reitum á tveimur til fimm hæðum og laga sig þannig að hindrunarfleti flugvallarins. Samkvæmt rannsóknum EFLU og hollensku flug- og geimferðastofnunarinnar mun íbúabyggðin ekki raska þjónustustigi flugvallarins nema að óverulegu leyti líkt og á við um núverandi byggð umhverfis flugvöllinn.

You may also like...