Ellefu þúsund íbúar á Ártúnshöfða í framtíðinni
Allt að ellefu þúsund manns munu búa á Ártúnshöfðanum í framtíðinni ef hugmyndir um stofnun þróunarfélags um uppbyggingu og breytingar á landnýtingu Ártúnshöfða ganga eftir en þær voru kynntar á fundi með lóðarhöfum nýlega. Hugmyndirnar ganga út á að Ártúnshöfði breytist úr hreinni atvinnubyggð yfir í blandaða byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis auk þess sem gert er ráð fyrir stækkun landsins til norðurs á landfyllingum.
Í hugmyndunum er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og innviða í byggðinni fyrir allt að 11.500 manns. Fjöldi íbúða gæti því orðið um 5.100 miðað við eðlilegt margfeldi fólksfjölda út frá fjölda og stærð íbúða. Meirihluti þessara íbúa eða allt að 4.100 eru á reitum sem skilgreindir eru fyrir íbúðabyggð en um þúsund íbúðir yrðu í blandaðri byggð. Uppbyggingin mun einnig tengjast nýrri borgarlínu á samgönguás frá vestri til austurs.
Eitt mikilvægasta svæðið í Reykjavík á skipulagstímabilinu
Sigurður Björn Blöndal formaður borgarráðs sagði í kynningu sinni á fundi með hagsmunaaðilum að Elliðavogur og Ártúnshöfði væri eitt mikilvægasta svæðið í Reykjavík á þessu aðalskipulagstímabili og nú væri komið að næsta áfanga í þróun þess. Fyrir lægi að vinna rammaskipulag og síðan deiliskipulag og á grundvelli þeirrar skipulagssamkeppni um svæðið sem Reykjavíkurborg stóð fyrir. Samkvæmt skipulagshugmyndum er rætt um allt að 780 þúsund fermetra svæði og þar af eru um 500 þúsund fermetrar fyrir nýjar íbúðir eða rúmar 5000 nýjar íbúðir eins og áður segir. Reykjavíkurborg hefur sett sér samningsmarkmið vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar þéttingarsvæða við Elliðaárvog – Ártúnshöfða og voru þau samþykkt í borgarráði 27. nóvember 2014. Markmiðin eru í samhljóm við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 til 2030 þar sem áherslur eru lagðar á fjölbreytileika í stærð og gerð íbúða; á gæðasvæði og gott umhverfi; sem og á að varðveita staðaranda og yfirbragð byggðar. Með þessari byggð mun myndast nokkuð sameiginlegt íbúðasvæði í austurhluta Reykjavíkur sem samanstæði af Breiðholti, Árbæ, Ártúnsholti, Ártúnshöfða og Grafarvogi.
Áhersla á fjölbreytni og gæði
Samningsmarkmið Reykjavíkurborgar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar þéttingarsvæða við Elliðaárvog – Ártúnshöfða voru samþykkt í borgarráði 27. nóvember 2014. Í tilkynningu frá borginni segir að markmiðin séu í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur 2010 til 2030 þar sem áhersla er lögð á fjölbreytileika í stærð og gerð íbúða; á gæðasvæði og gott umhverfi; sem og á að varðveita staðaranda og yfirbragð byggðar. Í tilkynningu Reykjavíkurborgar segir einnig að til greina komi að hluti byggingarréttaríbúðarhúsnæðis sem skilgreindur verði á svæði félagsins í deiliskipulagi verði til ráðstöfunar hjá Reykjavíkurborg og að byggingarréttur Reykjavíkurborgar eigi að dreifast sem jafnast um allt skipulagssvæðið til að tryggja félagslega blöndun.