Hringbraut flutt á Eiðistorg
Sjónvarpsstöðin Hringbraut flutti á Eiðistorgið um síðustu mánaðamót. Stöðin flutti í húsnæði sem var í eigu Íslandsbanka en útibú hans var á Eiðistorgi fram til þess að útibúið í Örfirisey var opnað. Jón von Tetzchner athafnamaður og fjárfestir sem er fæddur og uppalin á Seltjarnarnesi hefur fest kaup á húsnæðinu.
Jón von Tetzchner hefur að undanförnu verð að festa kaup húsnæði á Eiðistorginu. Þar á meðal húsnæði sem Lyfjastofnun ríkisins var í á þriðju hæð á torginu og húsnæði Íslandspósts en gert er ráð fyrir að starfsstöð póstsins verði þar áfram á torginu. Þá hefur Jón von Tetzchner fest kaup á því húsnæði sem Bókabúðin Hugföng hefur verið en henni verður lokað um næstu mánaðarmót. Þá má geta þess að hann hefur einnig fest kaup á húsnæðið því sem Blómastofan var og er ætlunin að þar verði opnað kaffihús. Jón von Tetzchner hóf starfsemi á Eiðistorgi fyrir tveimur árum þegar hann opnaði frumkvöðlasetrið Innovation house. Síðan hefur hugur hans staðið til þess að efla starfsemi á Eiðistorgi og þegar er ljóst að miklar breytingar munu verða á torginu í framtíðinni. Allt frá því að von Tetzchner hætti hjá Opera Software hefur hann unnið að ýmsum verkefnum bæði hér á Seltjarnarnesi en einnig víðar en hann er búsettur í Boston um þessar mundir. Í viðtali sem Nesfréttir höfðu við hann fyrir rúmum tveimur árum sagði hann meðal annars að ef hann yrði spurður hvort hann myndi vilja flytja aftur á Seltjarnarnes þá myndi hann ekki svara neitandi.