Harmóníkan er hljóðfæri fjölbreytileikans

Jonas Asgeir 4 1

Jónas Ásgeir ásamt þeim Helgu Kristbjörgu Guðmundsdóttur og Jóni Þorsteini Reynissyni en þau stunda öll framhaldsnám við sama skóla og starfrækja einnig harmóníkutríó sem þau nefna Ístríó.

Jónas Ásgeir Ásgeirsson vakti athygli sem einn af fjórum ungum einleikurum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu á liðnum vetri. Ef til vill væri það vart í frásögur færandi nema að Jónas hefur valið sér fremur óvenjulega leið í tónlistarnámi sínu. Hann hefur stundað nám í harmóníkuleik frá unga aldri og stundar nú framhaldsnám við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Hann er einnig meðlimur í harmóníkutríóinu Ístríó ásamt þeim Helgu Kristbjörgu Guðmundsdóttur og Jóni Þorsteini Reynissyni en þau stunda öll framhaldsnám við sama skóla. Jónas er Breiðhyltingur sonur hjónanna Ásgeirs Jónassonar og Ásdísar Hinriksdóttur sem búa í Seljahverfinu. Jónas er fæddur 1993 og hóf tónlistarnám níu ára gamall í Tónskóla Eddu Borg undir handleiðslu Guðmundar Samúelssonar og útskrifaðist þaðan vorið 2013 en eftir það lá leið hans til Kaupmannahafnar. Jónas spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.

„Ég er algerlega innfæddur Breiðhyltingur og hef átt heima í sama húsinu frá því að ég kom í heiminn þar til að ég flutti til Danmerkur haustið 2014,“ segir Jónas brosmildur þegar hann hefur sest niður með tíðindamanni á Gamla kaffihúsinu við Eddufell sem var áður heimkynni Breiðholtsbakarís. „Foreldrar mínir komu sér upp heimili í Seljahverfinu þegar þau fluttu utan af landi og hófu búskap árið 1980. Móðir mín er frá Grundarfirði en faðir minn frá Siglufirði. Ég er fæddur 1993 og er því kominn nokkuð langt frá dreifbýlinu ef þannig má að orði komast. Ég gekk í Ölduselsskólann – ágætan skóla en skrapp síðan aðeins af bæ á daginn og fór í MR ásamt nokkrum fleiri krökkum úr hverfinu.“ Jónas segir gott að hafa verið strákur í Breiðholtinu. „Ég kunni alltaf vel við mig. Ég ólst upp í nágrenni við náttúruna en þó án þess að búa við strjálbýli. Ég átti því alltaf nokkuð af vinum og kunningjum. Það var ekki mikið umferð og rýmið varð til þess að við gátum notið okkar að vera krakkar. Við þurftum ekki annað en að labba yfir næsta hól og voru þá komin á Rjúpnahæðina svo dæmi sé tekið.“

Mér fannst mig vanta tilbreytingu

En svo ákvaðstu að skella þér út. „Já – ég gerði það. Ég stóð á tímamótum í náminu og fannst mig vanta einhverja tilbreytingu. Hótel mamma er afskaplega gott hótel og foreldrar mínir studdu mig afskaplega vel þegar ég ákvað að halda út á framhaldsnámsbrautina.“ Þarna varstu á tímamótum í tónlistarnáminu en af hverju varð harmóníkan fyrir valinu á sínum tíma. Íslendingar eru ekki vanir að velja hana sem klassískt hljóðfæri. Í þeirra hugum tengist hún fremur þjóðlaga- og dægurmenningu. „Það er alveg rétt. Íslendingar hafa litið hana þeim augum fremur en hinum klassísku en hún er notuð sem klassískt hljóðfæri víða um heim. Hún býr yfir mjög fjölbreyttum möguleikum til túlkunar. Eftir því sem maður stúderar hana betur koma þessir eiginleikar meira í ljós. Ég hugsa að ég hafa valið hana í fyrstu af því mér fannst ég þurfa að vera öðruvísi en aðrir – gera eitthvað annað en þeir sem voru að læra á píanó eða á fiðlu. Svo kom Guðmundur til sögunnar. Guðmundur Samúelsson var kennarinn minn í mörg ár við skólann hjá Eddu Borg. Hann hafði mikla ástríðu fyrir harmóníkunni og hélt manni ágætlega við efnið allan tímann. Jú – ég hef stundum verið spurður að þessu. Af hverju ég hafi valið þessa leið og svarið er alltaf það sama. Ég fékk þessa ástríðu. Kannski að hluta til frá Guðmundi. Hann sagði að ef ég færi að læra harmóníkuleik í háskóla þá yrði ég heimsfrægur. Svo var maður kominn út í þetta. En ég hef lært margt af þessu námi. Haft kynni af ýmsum þjóðarbrotum. Tónlistarheimurinn er víðfeðmur og harmóníkutónlist kemur víða að. En í raun er hægt að leika hvað tónlist sem er á hana. Allt frá slögurum upp í háklassík.“

Jonas Asgeir 2 1

Jónas Ásgeir Ásgeirsson með harmóníkuna.

Háklassískt hljóðfæri

Nú stefnir Jónas á að ljúka BA prófi á næsta ári og þá ráðgerir hann að mastersnámið taki við. „Þetta er alla vega ætlunin í dag og ég vona að mér takist það. Við erum líka að vinna saman – þrjú skólasystkini öll héðan að heiman. Erum með tríóið Ístríó og höfum verið að halda tónleika hér að undanförnu. Fyrst norður í Skagafirði – í kirkjunni á Miklabæ og svo í Hörpu um daginn.“ En kemur fólki á óvart hvað þau eru að spila. „Já – hugsanlega. Við höfum reynt að hafa efnisskrána nokkuð fjölbreytta. Við höfum leikið lög í rytmískum popstíl og einnig lög í frönskum og baltneskum stíl. Nútímaverk frá Finnlandi til að brjóta dagskrána aðeins upp en Finnar standa mjög framarlega í harmóníkuleik og svo var sónata eftir Johan Sebastian Bach. Með henni vildum við kynna harmónikuna sem háklassískt hljóðfæri þegar því er að skipta.“

Tengd við danstónlist fyrri tíma

Framabraut og heimsfræg kunna að leynast handan við hornið að háskólanámi og tónleikahaldi loknu en hugsar Jónas og þau sér að koma og spila á Íslandi. „Já – það ætlum við að gera. Við ætlum okkur bæði að halda í ímynd og arfleifð íslensku polkanna en einnig að kynna harmóníkuna sem þjóðlagahljóðfæri og sem klassískt hljóðfæri fyrir Íslendingum. Þeir hafa lengi tengt hana við danstónlist – einkum danstónlist fyrri tíma. Gömlu sveitaballatónlistina. Hún hvarf síðan dálítið af sjónarsviðinu þegar gítarhljómsveitirnar komu fram – einkum rafgítarinn og svo kom hammondorgelið og hljómborðið í framhaldinu. En ég vil meina að harmóníkkan standi áfram fyrir sínu. Hún er hljóðfæri fjölbreytileikans.“

Verk að vinna hér heima

En að lokum. Reynir harmóníkuleikur ekki talsvert á líkamann. Harmoníkuleikarinn þarf að gera margt í einu. „Að spila á harmonikkuna reynir verulega á líkamann. Harmoníkuleikarinn þarf að framkvæma nokkrar aðgerðir á sama tíma og því þarf að þjálfa nokkuð marga vöðva til þess að ná góðum tökum á þessu. Og það er ekki sama hvernig það er gert. Það fer alveg eftir því hvaða tónlist er verið að spila. Þetta er því nokkur alhliða þjálfun. Okkur langar til þess að vinna meira að kynningu á harmóníkuni sem alhliða hljóðfæri. Þess vegna hyggjum við á frekara tónleikahald hér á landi – einkum að náminu loknu. Það er heilmikið verk að vinna hér heima að því leyti.“

You may also like...