Verkefnastjórn miðborgarmála og 20 milljóna króna miðborgarsjóður
Stýrihópur um framtíðarfyrirkomulag í málefnum miðborgarinnar hefur sent frá sér tillögur til að bregðast við breytingum í borgarhlutanum í þeim mikla uppgangi og uppbyggingu sem þar hefur verið síðustu misseri og ekki virðist lát á. Vöxtur ferðaþjónustu hefur orðið mun meiri en gert var ráð fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 og af því tilefni er nú unnið að breytingartillögum á miðborgarkafla aðalskipulagsins auk þess sem stefnt er að gerð hverfisskipulags í miðborginni. Einnig er talið mikilvægt að fjölga tekjustofnum borgarinnar vegna aukins ferðamannastraums til dæmis með gistináttagjaldi. Borgarar eru hvattir til að kynna sér drög skýrslu stýrihópsins og senda inn ábendingar og athugasemdir fyrir 10. ágúst.
Megin viðfangsefni stýrihópsins var að skoða fyrirkomulag málefna miðborgarinnar innan stjórnkerfis borgarinnar sem og formlegt fyrirkomulag samstarfs og samráðs við íbúa, rekstraraðila og aðra hagsmunaaðila í miðborginni. Á meðal tillagna sem stýrihópurinn hefur gert er að leggja meiri áherslu á vistvænar samgöngur og gangbæra borg með því að umbreyta aksturssæðum í akfær, áhugaverð og gönguvæn miðborgarrými. Einnig er lagt til að bæta aðgengi göngufólks og hjólreiða um hafnarsvæðið og fjölga hjólastæðum.
Verkefnastjórn og verkefnastjóri
Miðborgarstefnan er byggð á áskorunum, tækifærum og fyrirliggjandi stefnum borgarinnar sem snerta málefni miðborgar. Stefnan verði leiðarljós vinnu verkefnisstjórar miðborgarmála sem beri ábyrgð á framfylgd stefnunnar. Þá verði aðgerðaráætlun um málefni miðborgar samþykkt. Áætlunin liggi til grundvallar vinnu verkefnisstjórar miðborgarmála og beri hún ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar. Lagt er til að skipuð verði verkefnisstjórn miðborgarmála til þriggja ára og hún geri starfs- og verkefnaáætlun til eins árs í senn en að þremur árum liðnum verði fyrirkomulag verkefnisstjórnarinnar og verkefni hennar endurmetin og endurskoðuð. Einnig er lagt til að settur verði verkefnisstjóri sem starfi með verkefnisstjórn miðborgarmála. Verkefnisstjórinn verði staðsettur á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og heyri undir embætti borgarritara. Þá er lagt er til að stofnaður verði Miðborgarsjóður sem úthluti allt að 20 milljónum króna árlega til að efla hagsmunasamtök og grasrótarsamtök í samræmi við miðborgarstefnu.