Íbúðakjarni fyrir fatlaða við Hagasel

Íbúðakjarninn samanstendur af timburhúsum á tveimur hæðum.

Félagsbústaðir afhentu velferðar­sviði á dögunum íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Hagaseli í Breið­holti. Íbúðakjarninn er í svans­vottunarferli og er fyrsta fjölbýlis­húsið sem Félagsbústaðir byggja af því tagi. Þar munu sjö fatlaðir einstaklingar eiga heimili. Íbúarnir fá stuðning starfsfólks velferðarsviðs sem hefur aðsetur í einni íbúð í húsinu.

Fjölbýlishúsið að Hagaseli er afar fallegt timburhús á tveimur hæðum. Sérinngangur er að hverri íbúð sem er um 70 fermetrar, með fallegum innréttingum og náttúrulegum kork á gólfum. Húsið er fallega staðsett í götunni og frá því liggja fallegar gönguleiðir að nærliggjandi tjörn og grónu opnu svæði. Litlar svalir eru á efri hæð og lítil verönd framan við íbúðir á jarðhæð. Garðurinn er sameiginlegur og gert ráð fyrir að þar sé hægt að rækta grænmeti. Við athöfnina afhenti Álfheiður Hafsteinsdóttir, forstöðumaður í Hagaseli, íbúum lykla að sínum íbúðum og í framhaldinu gafst viðstöddum kostur á að skoða hverja og eina þeirra. „Hversu heppinn er maður í lífinu að fá að vinna í svona fallegu húsnæði og kynnast þessu frábæra fólki sem er að fara að flytja hingað? Ég held að það verði svakalega gott að búa hérna,“ sagði Álfheiður. Það var ekki annað að sjá og heyra á íbúum en að þeim litist mjög vel á ný heimili en þeir munu flytja inn um miðjan næsta mánuð.  

Aldís Ósk Diego tók við lyklunum úr hendi Álfheiðar Hafsteinsdóttur forstöðumanns.

You may also like...