Mikil tímamót framundan með nýrri aðstöðu

KR svæðið eins og það lítur út í dag.

Fimmtudaginn 16. febrúar voru 124 ár liðin frá stofnun Knattspyrnufélags Reykjavíkur eða KR. Af því tilefni var opið hús á afmælisdaginn í Félagsheimili KR þar sem kaffi og afmæliskökur voru á boðstólum. Félagið var gert að fjölgreina íþróttafélagi árið 1923 eða fyrir 100 árum. Þá tóku nefndir til starfa innan þess til þess að sjá um rekstur einstakra íþróttagreina. Sunddeildin er elst þeirra eða réttra 100 ára og KR Konur sem er sterkasta stoðdeild félagsins er 50 ára. Yfir 30 manns hafa verið gerðir heiðursfélagar KR í gegnum tíðina og eru þrír þeirra á lífi í dag. Þeir eru Sveinn Jónsson, Guðjón Guðmundsson og Ellert B. Schram. Lúðvík S. Georgsson er formaður KR í dag.

Önnur tímamót eru hjá KR en 124 ára afmælið. Von bráðar munu hefjast framkvæmdir við íþrótta­völl, fjölnota íþróttahús og aðra aðstöðu félagsins í  Kaplaskjóli í Vesturbænum. Aðstöðuleysi hefur háð félaginu um lengri tíma og fáum blandast hugur um að það er farið að hafa áhrif á starfsemi þess. Undirbúningur að framkvæmdum á KR svæðinu hefur staðið yfir um nokkurn tíma og vonir standa til að þær geti hafist innan skamms. Þessar framkvæmdir verða þær umfangsmestu í sögu félagsins. Kostnaðaráætlun og útboðsgögn eru þegar tilbúin en bíða aðeins samþykkis borgarráðs. Forráðamenn KR telja lykilatriði að þessar framkvæmdir fari af stað sem fyrst því aðstöðuleysið sé með ólíkindum.

Íbúðir og þjónusturými

Eitt af því sem verið er að vinna að er að nútímavæða rekstrargrundvöll félagsins. Verður það gert með umfangsmiklum framkvæmdum til hliðar við byggingu íþróttamannvirkjanna. Við völlinn verða byggð­ar íbúðir og einnig þjónusturými en lengi hefur verið í umræðunni að KR-ingar séu langt á eftir þeim félögum sem þeir eru að keppa við þegar kemur að endurnýjun á aðstöðu. KR-ingar stefna að því að kveðja heimavöll sinn í núverandi mynd eftir næsta tímabil. Meðan á framkvæmdum mun standa hyggjast þeir leika heimaleiki sína til bráðabirgða á gervigrasvelli sínum á svæðinu og þurfa því ekki að finna sér tímabundið heimili annars staðar. Menn sjá fyrir sér að koma upp aðstöðu við gervigrasvöllinn. Utan á knatthúsinu kæmi þá stúka sem yrði bráðabirgða- eða varanleg stúka. Svo yrði líklega sett upp bráðabirgðastúku við bílastæðið fyrir aftan. Reykjavíkurborg sér um byggingu á sérstöku knatthúsi þar sem hálfur fótboltavöllur rúmast, húsi sem er í svipuðum stíl og það sem var byggt á svæði ÍR-inga í Mjódd. Við það verður svo sérstök tengibygging. Alls er gert ráð fyrir að 32 þúsund fermetra auknu bygginga­magni á svæðinu.   

Virðisaukinn rennur til íþrótta- og æskulýðsstarfs

Gert ráð fyrir að knattspyrnu­vellinum verði snúið frá því sem nú er. Þá er gert ráð fyrir stúku við völlinn, 50×70 metra yfirbyggðu knatthúsi, auk margvíslegra bygginga sem bæði er hugsaðar sem íbúðir, félagsaðstaða fyrir KR sem og ýmiskonar þjónusta fyrir hverfið. Flestir virðast sammála um að þörf sé á uppbyggingu á svæðinu þar sem síðasta mannvirkið var reist árið 1999. Nokkrar áhyggjur hafa þó komið fram vegna þess bygginga­magns sem fyrirhugað er og spurningar vaknað hver sé þörf á að byggja íbúðir á íþróttasvæði KR. Reykjavíkurborg og KR eru sammála um að virðisaukinn sem kunni að verða til vegna aukins byggingamagns skuli renna til uppbygging­ar fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í Vesturbæ á vegum KR. 

KR svæðið eins og ráðgert er að það muni líta út.

You may also like...