Breytingar við Seljabrautina
Breytingar urðu við Seljabrautina um mánaðamótin því þá tók Samkaup við rekstri Þinnar verslunnar sem starfrækt hefur verið við Seljabraut 54 um langt árabil. Verslunin verður rekin áfram með svipuðu sniði að öðru leyti en því að eftir eigendaskiptin heitir hún Seljakjör.
Verslunin hét upphaflega Kjöt og fiskur en árið 1995 festu Símon Sigurpálsson og Þóra Bragadóttir kaup á henni og breyttu nafninu í Þín verslun en þau ráku áður verslunina 10 – 10 í Hraunbæ. Símon hefur því staðið vaktina í Þinni verslun við miklar vinsældir í rúma tvo áratugi og segir að nú sé kominn tími til þess að breyta til. Breiðholtsblaðið leit við hjá honum á dögunum og innti hann eftir því af hverju hann væri að hverfa af braut frá Breiðhyltingum. „Eftir að hafa starfrækt matvöruverslun í þrjá áratugi, þar rúma tvo við Seljabrautina þá hef ég ákveðið að breyta um stefnu og snúa mér að öðrum og vonandi jafn líflegum og skemmtilegum störfum. Mér er mikil ánægja að segja frá því að góðir aðilar tóku við versluninni frá og með 1. október og munu sinna viðskiptavinum verslunarinnar að alúð með aðstoð þess frábæra starfsfólks sem hefur starfað í fjölda ára. Mér er efst í huga á þessum tímamótum að þakka fyrir dásamlegan tíma með starfsfólkinu og viðskiptavinum verslunarinnar og traustið sem ríkt hefur á milli allan þennan tíma. Það vill svo til að 1. október, daginn sem eigendaskiptin urðu með formlegum hætti eru rétt 30 ár síðan ég hóf verslunarrekstur þá 19 ára gamall.
Tímamót í rekstri
Erna Dröfn Haraldsdóttir forstöðumaður markaðssviðs Samkaupa segir að þarna sé vissulega um tímamót í rekstri að ræða. Samkaup er rótgróið fyrirtæki sem rekur um 50 verslanir út um allt land. Erna segir að rekstur verslunarinnar við Seljabrautina verði áfram með svipuðu sniði. „Við munum leggja áherslu á þann anda, persónuleg þjónustulund og gott vöruúrval sem Símon og hans fólk er þekkt fyrir. Kaupmaður kemur í kaupmanns stað. Símon hættir en Eysteinn Sigurðsson tekur við. Eysteinn er þaulreyndur kaupmaður sem átti og rak Sunnubúðina og veit því vel hvað persónuleg þjónusta og gæði þýða. Ég vil nota tækifærið og minna á kjötborðið sem ætíð hefur verið til fyrirmyndar í Þinni verslun. Við ætlum hvergi að gefa eftir í því efni og leggjum áherslu á fyrsta flokks gæði í kjöti og fisk ásamt góðu vöruúrvali,“ segir Erna. „Ég hlakka til þess að koma til starfa við Seljabrautina,“ segir Eysteinn. „Við munum halda því striki og stefnu sem Símon lagði upp með og er þekktur fyrir í gegnum tíðina. Burtséð frá eignarhaldi þá verð ég áfram kaupmaðurinn á staðnum eins og ég hef alltaf verið í mínum störfum,” segir Eysteinn.