Langar að gera eitthvað á æskuslóðunum

jon-von-tetzchner-2

Jón von Tetzchner.

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir við útbygginguna á vestasta hluta Eiðistorgsins þar sem Blómastofan var til húsa á árum áður. Húsnæðið hefur staðið autt að undanförnu en innan tíðar verður opnað nýtt kaffihús þar og ísbúð – fyrsta laktósfría kaffihúsið og ísbúðin hér á landi. Kaffihúsið og ísbúðin mun versla með vörur frá fyrirtækinu Örnu í Bolungarvík eftir föngum en einnig öðrum. Til dæmis þegar um innkaup á kaffidrykkjum er að ræða. Örnunafnið er komið frá Hálfdáni Óskarssyni mjólkurtæknifræðingi og frumkvöðuls Örnu í Bolungarvík en dóttir hans heitir Arna og er mjólkurvinnslan nefnd eftir henni.

Vinnuheiti hins tilvonandi kaffihúss er þó Innovation House en það er fyrirtæki sem Jón von Tetzchner fjárfestir setti á stofn á Eiðistorgi fyrir nokkrum árum og starfrækir þar nú frumkvöðlasetur. Jón fjárfesti í Örnu í Bolungarvík um svipað leyti og hefur aukið hlut sinn og staðið þétt við bakið á fyrirtækinu síðan. Jón sem er búsettur í Boston í Bandaríkjunum um þessar mundir var staddur á Eiðistorgi á dögunum og settist niður með Nesfréttum. Hann segist hafa verið að fjárfesta í húsnæði á torginu að undanförnu og þar á meðal plássinu þar sem Blómastofna hafi verið á árum áður. Hugmyndin að kaffihúsinu hafi kviknað í framhaldi af því. Hann segist hafa verið búinn að hugsa um að það vantaði kaffihús á Nesið og einnig ísbúð og að þetta væri tilvalin staður með góðu útsýni út á sjóinn. „Þetta verður aðeins öðruvísi kaffihús og það fyrsta sinnar tegundar sem mun bjóða laktósfríar vörur en það þýðir að mjólkursykurinn er brotinn niður við vinnsluna. Ég er þess full viss að þetta muni styrkja Örnu og Arna dóttir Hálfdáns Óskarssonar í Bolungarvík mun annast rekstur á Eiðistorginu. Margir þola illa eða ekki mjólkursykur og sækjast því eftir mjólkurvörum þar sem hann hefur verið brotinn niður og svo er líka ágætt fyrir fólk af Seltjarnarnesi að geta farið í göngutúr og fengið sér kaffi á frábæru stað og svo er líka stutt fyrir Vesturbæinga að skreppa í kaffi eða ís á Eiðistorgið.“

Er sjálfur Seltirningur

Jón von Tetzchner er sjálfur Seltirningur. Fæddur og uppalinn á Nesinu og bjó þar til tvítugs að hann hélt að loknu stúdentsprófi í MR til náms í tölvunarfræði í Noregi þar sem hann settist síðan að og starfaði að fagi sínu. Hann er einn aðalhöfundurinn að vefskoðaranum Opera sem margir þekkja og hafa notað um lengri eða skemmri tíma. Eftir að hann seldi hlut sinn flutti hann til Bandaríkjanna og hóf að fjárfesta í ýmsum fyrirtækjum einkum þeim sem tengjast fagi hans og störfum. Auk þess hefur hann á undanförnum árum unnið að gerð annars vefskoðara eða vafra sem hann nefndir Vivaldi eftir tónskáldinu fræga enda sjálfur komin af tónlistarfólki þar sem Selma Kaldalóns tónskáld og píanóleikari var amma hans og Sigvaldi Kaldalóns var langafi hans. „Það má því segja að Vivaldivefurinn sé íslenskur og umsvifin í kringum hann hafa verið og eru að vaxa. Nú starfa um þrjátíu og fimm manns hjá Vivaldi. Rúmlega tíu starfa hér á Eiðistorgi, um tugur í Noregi og síðan er starfsfólk á vegum fyrirtækisins bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum.“

jon-von-tetzchner-3

Fundahöld og viðtöl eru hluti af starfsumhverfi Jón von Tetzchner.

Er aðili að sjónvarpsstöðinni Hringbraut

En aftur að Seltjarnarnesi. Jón von Tetzchner er með fleiri járn í eldinum á Eiðistorgi en frumkvöðlasetur og tilvonandi laktósafrítt kaffihús. Hann hefur einnig fest kaup á því húsnæði þar sem Íslandsbanki var með útibú en bankinn er fluttur með útibú sitt út á Granda. Þar er nú fjölmiðlafyrirtækið og sjónvarpsstöðin Hringbraut til húsa. Hann segir þetta fyrrum húsnæði bankans henta vel fyrir starfsemi Hringbrautar. Í kjallara undir jarðhæðinni eru gamlar bankahvelfingar þar sem hann segir að koma megi fyrir upptökustúdíóum í framtíðinni. Jón er aðili að Hringbraut og segist hafa verið búinn að hugsa þetta um tíma – að gott gæti verið fyrir stöðina að nýta þá aðstöðu sem er á Eiðistorginu. Jón segir nauðsynlegt að hafa sjónvarpsstöð sem byggir á innlendri dagskrárgerð – á innlendu efni og umræðum um dagleg mál á Íslandi án þess að tengjast stjórnmála- flokkum eða pólitískum fylkingum að neinu leyti. Slíkt hafi vantað og þær sjónvarpsstöðvar sem fyrir voru að ríkissjónvarpinu meðtöldu byggi starfsemi sína að verulegu leyti á aðkeyptu erlendu efni – einkum frá Bandaríkjunum.“

Hugurinn leitar oft heim á Seltjarnarnes

Nú er Innovation House að mestu fullmannað á Eiðistorginu, sjónvarpsstöðin Hringbraut nýtur vaxandi vinsælda og laktósafría kaffihúsið mun bráðlega opna. Jón von Tetzchner hefur fjárfest í meira húsnæði á Eiðistorgi og hyggur á aukna starfsemi. Allt hafi þó sinn tíma. Hann segir að þrátt fyrir langar dvalir erlendis – lengst af í Noregi og nú vestanhafs leiti hugurinn oft heim á Seltjarnarnes. Stundum verði fólk meiri Íslendingar af því að búa erlendis. „Mig var búið að langa til þess að koma heim og gera eitthvað hér á æskuslóðunum,“ segir Jón von Tetzchner að lokum.

You may also like...