Margt í boði í haust og vetur

ahugsamir-aheyrendur-1

Hlýtt á mál Sigþrúðar Erlu.

Opið hús var á Vesturreitum-félagsmiðstöðinni að Aflagranda 40 föstudaginn 16. september þar sem starfsemi hausts og vetrar var kynnt. Sigþrúður Erla Arnardóttir framkvæmdastjóri hinnar sameinuðu þjónustumiðstöðvar á Laugavegi 77 hóf samkomuna og ræddi starfið og kynnti. Stefán Eiríksson sviðsstjóri velferðarsvið Reykjavíkurborgar ávarpaði viðstadda og síðan var efnt til ýmissa skemmtiatriða.

Í félagsmiðstöðinni á Aflagranda kennir ýmissa grasa og lögð er áhersla á að hver og einn geti komið sínum hugmyndum á framfæri og fengið stuðning við að framkvæma þær. Dæmi um það sem er í boði eru opnar vinnustofur, fjölbreytt námskeið, leikfimi og jóga, bíósýningar, skák og bókaspjall svo eitthvað sé nefnt. Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar vill hvetja sem flesta til að kíkja við og kynna sér starfsemina og fá sér kaffisopa, það er alltaf heitt á könnunni. Hrafn Jökulsson hefur tekið við að sjá um bókaspjallið af Guðna Th. Jóhannessyni sem farinn er til annarra starfa og var grínast með að Hrafn yrði þá trúlega næsti forseti Íslands. Hrafn tók þessu góðlátlega. Kvaðst vera forseti Skákfélagsins Hróksins og myndi sú forsetatign nægja sér til frambúðar. Félagsstarfið er öllum opið – konum sem körlum og fólki á öllum aldri. Sá misskilningur er nokkuð útbreiddur að félagsstarfið sé eingöngu fyrir heldri borgara eða fólk sem komið er á eftirlaunaaldur en svo er alls ekki og nú færist í vöxt að fólk á ýmsum aldri komi á Aflagranda 40 til þess að taka þátt í starfinu eða bara að sýna sig og sjá aðra. Félagsstarfið er opið frá mánudögum til föstudaga frá kl. 8.00 til 16.00 og á laugardögum frá kl. 11.00 til 13.00. Hægt er að fá hádegismat frá kl. 11.00 til kl. 13.00 og kaffi er á mánudögum til föstudaga frá kl. 14.00 til 15.00.

reynir-og-agnes-1

Einar Guðmundsson, Diljá Björg Þorvaldsdóttir dótturdóttir hans sem opnaði fyrstu listsýningu sína á Aflagrandanum þennan dag, Reynir Jónasson harmonikkuleikari og fyrrum organisti og Agnes Löve píanóleikari en hún lék undir við söng Stefáns Arngrímssonar óperusöngvara sem söng nokkur lög í tilefni dagsins.

You may also like...