Breiðhyltingar vilja ekki bílaumboð í Mjóddina
Íbúar í Breiðholti leggjast gegn því að bílaumboðinu Heklu verði veitt lóð undir starfsemi sína í Suður-Mjóddinni. Ályktun þess efnis var samþykkt á fjölmennum íbúafundi sem haldin var nýlega í hátíðasal Breiðholtsskóla.
Í ályktun fundarins segir m.a. að umrædd lóð sé á uppbyggingarsvæði Íþróttafélags Reykjavíkur eða ÍR. Íbúar í Breiðholti telja að hverfið hafi setið eftir í uppbyggingu íþróttamannvirkja samanborið við íþróttafélög í öðrum byggðum Reykjavíkur. Fundarmenn töldu að á landsvæðinu sem Hekla hefur óskað eftir undir sína starfsemi eigi einungis að rísa mannvirki sem tengist íþróttum, útivist og grænum svæðum en ekki atvinnustarfsemi á borð við bílaumboð, iðnaðarhverfi eða önnur mannvirki sem ekki eru tengd íþróttum og útivist. Í ályktuninni segir að það vilja íbúa að horft verði til framtíðar og landsvæðið í suður Mjóddinni verði tryggt komandi kynslóðum sem munu stunda íþróttir og útivist. Önnur uppbygging muni þrengja að íþróttasvæði ÍR og skerða möguleika til útivistar og íþróttaiðkunar. Í ályktun fundarins er þess krafist að borgarstjórn efni tafarlaust samning um íþróttamiðstöð ÍR sem gerður var árið 2008 auk þess sem að íbúarnir vilja að bygging miðstöðvarinnar verði sett á fjárhagsáætlun næsta árs. Undanfari þessa máls er að forsvarsmenn Heklu hf. óskuðu í febrúar á þessu ári eftir að fá lóð í Mjóddinni undir 7.900 fermetra byggingu með stækkunarmöguleika upp í allt að 12 þúsund fermetra. Viljayfirlýsing vegna lóðaúthlutunarinnar liggur fyrir en afgreiðslu málsins var frestað á fundi borgarráðs fyrr í mánuðinum.